Tollar hafa tvenns konar áhrif. Annars vegar valda þeir hækkun á framleiðslukostnaði sem leiðir til verðbólgu. Hins vegar draga þeir úr eftirspurn sem ætti að draga úr framleiðslu og mögulega valda samdrætti. Það er svo misjafnt hvor áhrifin eru sterkari. Þetta setur seðlabanka í snúna stöðu. Lilja Solveig Kro, hagfræðingur hjá Arion banka, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins.
Markadurinn - Lilja Solveig Kro - 2
„Þegar tollar eru lagðir á þá hækka þeir vöruverð þegar þeir eru lagðir á og svo eru þau áhrif í eitt ár á verðbólguna en svo detta þeir út eftir ár og þá lækkar verðbólgan aftur. Ég ímynda mér hins vegar á þeim tímapunkti sem við erum á núna – verðbólga er búin að vera mjög mikil og þrálát í langan tíma alls staðar í heiminum og það hefur tekið lengri tíma að ná henni niður en flestir bjuggust við. Þá er kannski erfiðara fyrir seðlabanka að horfa í gegnum svona tímabundin áhrif á verðbólguna, sérstaklega ef þetta fer að hafa áhrif á verðbólguvæntingar fyrirtækja og heimila og það verða önnur áhrif. Við erum í viðkvæmri stöðu núna og erfitt að horfa fram hjá þessu þannig að ég hugsa að seðlabankar verði pínu varkárir og horfi ekki í jafn miklum máli í gegnum svona áhrif eins og þeir hefðu gert ef verðbólga hefði verið í markmiði undanfarin ár,“ segir Lilja Solveig.
Þetta er áhugaverð pæling, finnst mér. Vaxtatækinu er beitt til þess að kæla hagkerfið, til þess að draga úr aðgengi að fjármunum, til þess að minnka peningamagn í umferð. Tollar gera í raun og veru nákvæmlega það sama þannig að vaxtahækkun ofan í tollahækkun, eða það að það hætti eða hægi á vaxtalækkunarferli út af tollahækkun, verður eiginlega bara til að magna þessi neikvæðu áhrif á hagkerfið.
„Já, og það hefur einmitt verið mikið í umræðunni. Af þessum tollum stafa tvenns konar áhrif. Það er annars vegar að tollar geta hækkað vöruverð í þeim löndum þar sem þeir eru lagðir á, eins og í Bandaríkjunum. Þetta getur líka hækkað framleiðslukostnað alþjóðlega, t.d. bílar sem eru í raun framleiddir í mörgum löndum og svo fluttir á milli; þá leggjast tollar á mörgum sinnum. Þá hækkar framleiðsluverð. En svo aftur á móti draga tollar úr eftirspurn og ættu þar af leiðandi að draga úr framleiðslu og mögulega valda samdrætti.
Þetta eru tvenn áhrif. það er annars vegar hærri framleiðslukostnaður sem eykur verðbólgu og svo er það minni framleiðsla sem dregur úr eftirspurn og verðbólguþrýstingi. Svo er það bara dálítið misjafnt eftir því hvar löndin lenda í þessum tolladeilum hvor áhrifin eru sterkari. Meira að segja höfum við heyrt Seðlabanka Íslands, seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra sem leggja áherslu á sitt hvor áhrifin þannig að við vitum í rauninni ekki enn þá hvor áhrifin verða stærri.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.