Það skiptir máli að máltækni og gervigreind eru nú komin undir sama hatt í menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneytinu. Gervigreindin byggir á máltækni. Mikilvægt er að fá menningu og hönnun strax að borðinu um leið og ný tækni þróast því að þannig verða tækin betri, notendavænni og sölulegri. Braun og Apple hafa notað þessa hugmyndafræði með góðum árangri. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Logi Einarsson - 1
„Það sem snýr að mér er að menningarmálin fluttust yfir og eru núna með nýsköpuninni og háskólunum. Það er að mörgu leyti mjög góð samlegð. Í fyrsta lagi munum við þurfa að leggja mikla áherslu á málefni tengd gervigreind á næstu árum og nú erum við með, í fyrsta skipti, máltæknina og gervigreindina á sama stað. Máltæknin er grunnurinn undir gervigreindina þannig að þetta er skynsamlegt,“ segir Logi.
Hann segir að í öðru lagi finnist honum gott að vefa saman menninguna og nýsköpunina. „Þarna eru engin skörp skil og ég held að við ættum meira að segja að reyna að ná því fram sem mörgum hefur tekist, sem best hefur tekist upp. Það er að draga menninguna og hönnunina – hinar skapandi greinar – strax að tækniþróuninni. Við getum tekið bara lítið dæmi af því. Ef við förum til Þýskalands þá var hönnuður þar sem hét Dieter Rams, sem vann allt fyrir Braun og við þekkjum vekjaraklukkurnar og þetta dót sem þeir voru að selja.“
Logi segir að það sem hafi gert gæfumuninn þar hefi verið að um leið og tæknin var hönnuð hafi hönnuðirnir verið dregnir að og þeir búið til tæki sem voru aðgengilegri, betri og notendavænni og sölulegri.
„Þetta er hugmyndafræði sem t.d. Apple hefur tekið upp með iPhone, þeir hafa vísað bara beint í hann í sinni hönnun og eru ekkert að fela það. Apple hefur þess vegna tekist þó að þau séu yfirleitt ekki fyrst með tæknina – og oft ekki með bestu tæknina – en þau eru með söluhæstu vörurnar. Þannig að við teljum að það sé mikil samlegð í þessu og viljum gjarnan reyna að vinna aðeins með það.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.