Aðeins nokkrum vikum áður hafði Donald Trump krafist þess að Bandaríkjamenn fengju aftur yfirráð yfir Panamaskurðinum. Hann vísaði til þess að skurðurinn væri nú undir stjórn Kínverja af því að CK Hutchison starfrækti gámahafnirnar tvær.
Með samningnum var ekki annað að sjá en þetta vandamál væri úr sögunni. Praktísk lausn á flóknu geópólitísku vandamáli.
BlackRock var reiðubúið til að greiða 22,8 milljarða dollara fyrir gámahafnirnar, sem eru í Balboa og Cristobal, við sitt hvorn enda skurðarins, auk 43 annarra hafna í 23 löndum.
Trump fagnaði kaupunum og sagði þetta vera hluta af fyrirætlun sinni um að fá aftur yfirráð yfir Panamaskurðinum og sagði að áætlun hans „væri strax farin að virka“.
Ekki var annað að sjá en með þessu væri Kínverjum ýtt til hliðar varðandi markmið Trump um að fá yfirráð yfir skurðinum.
En í kjölfar tilkynningarinnar um kaup BlackRock varð töluverður pólitískur óróleiki í baklandi kínverska kommúnistaflokksins. Fjölmiðlar, sem lúta stjórn flokksins, byrjuðu að gagnrýna söluna og sökuðu CK Hutchison um föðurlandssvik og um að láta græði ráða för frekar en þjóðarhagsmuni.
Nú er staðan sú að samningurinn er ekki lengur eins öruggur og hann leit út fyrir að vera þegar hann var kynntur til sögunnar. Þegar fyrsta gagnrýnin birtist í kínverskum fjölmiðlum, hrundi verð hlutabréfa í CK Hutchison.
Í kjölfarið héldu kínverskir fjölmiðlar áfram að gagnrýna söluna og vísuðu meðal annars til náinna tengsla Trump við BlackRock.
Kínverska ríkisstjórnin hefur brugðist við þessu með að senda sendinefnd til Panama. Formaður sendinefndarinnar, Ma Hui vararáðherra í alþjóðadeild miðstjórnar kommúnistaflokksins, sagði í tilkynningu að Kínverjar séu reiðubúnir til að styrkja samstarfið við stjórnmálaflokka í Panama sem og hugveitur þar í landi.
Bloomberg sagði í síðustu viku að ónafngreindir heimildarmenn hafi sagt miðlinum að reiknað sé með að samningurinn verði uppfylltur en enn sé verið að vinna að ýmsu er lýtur að skattamálum og öðrum formsatriðum.