DV birtir í dag áhugaverða frásögn af upplifun fjölmiðlamannsins Egils Helgasonar um ástand vega á Íslandi. Fyrir fram mátti ætla að Egill færi helst ekki út fyrir 101 Reykjavík en hann hefur sjálfur oft skilgreint sig sem „miðbæjarrottu“. Nú lagði hann hins vegar land undir fót og ók vestur í Dali, til Keflavíkur, á Selfoss um Hellisheiði og heim um Þrengslin. Upplifði hann það sama og fólk hefur verið að tala um í langan tíma; að vegakerfi landsmanna sé að grotna niður og víða að hruni komið. Þetta versnar með ári hverju; var vont fyrir þremur árum, verra fyrir tveimur árum og skelfilegt í fyrra. Og mun varla batna í ár. Framsóknarflokkurinn hefur stýrt vegamálum þjóðarinnar síðustu sjö árin en Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, hafði lengst af með samgöngumálin að gera í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur. Gárungarnir töluðu um að Framsókn ætti að taka upp nýtt slagorð fyrir sig: HOLAN Í VEGINUM
Orðið á götunni er að mikilvægt sé að þjóðþekkt fólk af höfuðborgarsvæðinu, eins og Egill Helgason, upplifi þetta ástand og tjái sig opinberlega um það eins og fjallað er um á DV.is í dag. Það er eins og þá skiljist efnið betur en þegar daglegir þolendur koma fram og kvarta eins og fólk hefur gert á Íslandi síðustu misserin. Það er afgreitt sem nöldur og jafnvel hagsmunapot.
Ástand vegakerfisins er hins vegar ekkert hagsmunapot íbúa umræddra svæða. Það varðar alla landsmenn og einnig gesti okkar þegar tvær og hálf milljón ferðamanna heimsækja landið og ferðast um í langferðabílum eða sjálfir í bílaleigubílum. Vegakerfið er ekki boðlegt þessu fólki og okkur landsmönnum lengur. Við þetta bætist að þungaflutningar á vegum landsins aukast stöðugt, ekki síst vegna fiskflutninga milli landshluta þegar verið er að flytja afurðir suður til útflutnings með skipum eða í flugi eða þá þegar fiskur er fluttur milli staða og landshluta til vinnslu.
Haft er eftir manni sem átt nýlega leið frá Blönduósi til Reykjavíkur á síðdegi að hann hafi talið 40 stóra trukka sem hann mætt á leiðinni. Margir þeirra voru með aftanívagn og flutningurinn því mikill og þungur. Þessir flutningar slíta vegakerfinu meira en annað og eru á góðri leið með að eyðileggja vegi landsins. Fyrrverandi yfirmaður vegamála á Íslandi gerði lítið sem ekkert á sjö ára ferli sínum til að tryggja nauðsynlegt viðhald veganna og bar við peningaleysi í grátkór með vegamálastjóranum sem hann skipaði. Þessir tveir dýralæknar virðast ekki hafa skilið alvöru málsins.
Orðið á götunni er að fyrri ríkisstjórn geti ekki skýlt sér á bak við peningaleysi og reynt að verja nokkurra tuga milljarða vöntun á vegafé samtímis því að til voru ríkispeningar til að henda í fjárfestingar fyrir æðstu stjórn ríkisins og gæluverkefni af ýmsum toga. Í forgangi var að byggja fimm hæða kontóra fyrir þingmenn og starfsfólk Alþingis, allt af dýrustu og fínustu gerð, hægt var að kaupa dýrasta skrifstofupláss landsins á dýrustu lóð Íslands af Landsbankanum fyrir tvö ráðuneyti, ruðst var af stað í að stækka Stjórnarráðshúsið þótt nóg væri framboð af leiguhúsnæði í nágrenninu, svo einungis séu nefnd um nýleg og ljót dæmi. Peningarnir sem fóru í þetta – tugir milljarða – væru nú betur komnir í viðhaldi þjóðvega landsins.
Fólk sem þarf að nota holótta vegi daglega hefur bent á að sennilega gerist ekkert fyrr en stórslys hljótast af. Það er dapurlegt. Kona sem sækir vinnu frá Þorlákshöfn upp í Aratungu sem er ofarlega á Árnessýslu taldi 150 holur í veginum á leið sinni til vinnu einn daginn. Vonandi hefur hún ekki kosið Framsókn í síðustu kosningum!
Orðið á götunni er að ný ríkisstjórn verði að taka hressilega til hendi og sópa upp eftir vanrækslu Framsóknarflokksins og vinstristjórnar Katrínar Jakobsdóttur. HOLAN Í VEGINUM er kross sem Sigurður Ingi Jóhannsson þarf að bera. Ný ríkisstjórn verður að tala hratt og örugglega á þessum bráðavanda í samgöngumálum til þess að falla ekki í sama pyttinn og fyrri stjórnvöld. Endurbætur á vegakerfinu er forgangsmál. Ekki bútasaumur heldur myndarlegar endurbætur. Lagfæring vegakerfisins kemur fyrst og langt á undan jarðgöngum og öðrum áhugaverðum verkefnum.
Einnig þarf að stemma stigu við skefjalausu þungaflutningum stórra flutningabíla um vegi landsins. Það verður að koma á stífum þungatakmörkunum þannig að flutningur afurða færist meira yfir í sjóflutninga.