Breski sagnfræðingurinn, Cyril Northcote Parkinson, er þekktastur fyrir lögmál það sem við hann er kennt og gengur út á að vinna þrútni alltaf þar til hún fyllir upp í tímann sem gefst til að inna hana af hendi. Í opinberum rekstri þarf að hafa sérlegar gætur á þessu enda getur ríkisvaldið hækkað skatta nánast hömlulaust og þannig sótt sér meiri eldsmat á bálið, ólíkt einkarekstrinum þar sem aðgangur að fjármagni er takmarkaður.
Vilmundi Jónssyni, landlækni og þingmanni Alþýðuflokksins, var umhugað um að kynna landsmönnum lögmál Parkinson en afleiðingar þess í ríkisrekstrinum mun hann hafa kallað „sósíalisma andskotans“. Það hugtak er stundum líka notað um það þegar tap er þjóðnýtt og hagnaður einkavæddur. En eins mætti kalla „sósíalisma andskotans“ óskapnaðarsamkrullið sem verður þegar ríkisstofnanir herja inn á svið hins frjálsa markaðar, eins og fjölmörg dæmi eru um og Thomas Möller, varaþingmaður Viðreisnar, rakti skilmerkilega í mergjaðri þingræðu á liðnu kjörtímabili (en án sýnilegra undirtekta þingheims).
Plebeismi Ríkisútvarpsins
Eitt alvarlegasta dæmi þess síðastnefnda eru sífellt meiri umsvif Ríkisútvarpsins en ný úttekt Viðskiptaráðs leiðir í ljós að stofnunin tekur til sín 27% tekna á fjölmiðlamarkaði. Á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall um 10%, enda eiga ríkisútvörpin þar ekki í samkeppni við sjálfstæða miðla um auglýsingatekjur. Og eins og Parkinson-lögmálið mælir fyrir um tútnar Ríkisútvarpið stöðugt út, starfrækir meðal annars sérstaka íþróttastöð, heldur úti vefmiðli og rekur unglingarás (þar sem meðalaldur hlustenda er um 57 ár). Gagnrýni á þessa útþenslu er síður en svo ný af nálinni. Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður ritaði grein sem birtist í Morgunblaðinu 1983 skömmu áður en Rás 2 var komið á laggirnar þar sem hann sagði nýja útvarpsrás fyrir „dægurflugur og auglýsingar“ kórvillu í menningarpólitík Ríkisútvarpsins:
„Það efni sem á að flytja á rás 2 er efni sem ríkisútvarpið á alls ekki að sjá um. Ekki frekar en menningarsjóður eigi að gefa út Samúel eða Vikuna. Hverjum dytti í hug að flytja auglýsingar á milli þátta í leikritum Þjóðleikhússins.“
Hrafn kvaðst vonast til þess að þjóðin eignaðist ríkisstjórn eða menntamálaráðherra sem hefði „bein í nefinu til að afnema auglýsingar í ríkisútvarpinu“. Stöðva yrði svona „plebeisma“ því hlutverk stofnunarinnar væri allt annað.
Við höfum ekki enn eignast slíkan menntamálaráðherra og það er kannski í stíl við almenna menningarlega hnignun að menntamálaráðuneytið hefur verið aflagt og málefni Ríkisútvarpsins komin ofan í skúffu annars staðar. „Plebeisminn“ hefur nú líka lagt undir sig gömlu gufuna sem er orðin heltekin af dægurmálahjali og auglýsingaskrumi
En nóg um útþenslu Ríkisútvarpsins og andlegan doða sem öllum er kunnur. Í úttekt Viðskiptaráðs þótti mér merkilegust sú staðreynd að starfsfólki sjálfstæðra fjölmiðla fækkaði um sjötíu af hundraði milli áranna 2008 og 2023. Frá bankahruni hefur orðið hrun á fjölmiðlamarkaði og hlutfallslegt vægi ríkismiðilsins þar með aukist gríðarlega á fáum árum. Það er ekki bara háskalegt út frá rekstrarlegum forsendum sjálfstæðra miðla heldur getur lýðræðinu beinlínis verið hætta búin séu ekki til staðar öflugir miðlar sem eru óháðir ríkisvaldinu. Ein birtingarmynd „sósíalisma andskotans“ í þessum efnum eru nýlegir ríkisstyrkir til fjölmiðla. Þegar þeir voru teknir upp heyrðist þegar sú gagnrýni að þeim yrði misbeitt til þöggunar. Skemmst er að minnast þess þegar formaður atvinnuveganefndar Alþingis vildi endurskoða ríkisstyrkinn til eins fjölmiðilsins því honum hugnaðist ekki fréttaflutningurinn. Almenn mannréttindi eiga sér nefnilega mun færri formælendur en margir halda.
Sjónarmið um lýðræði og almenn mannréttindi vega vitaskuld þungt en ekki þykir mér skipta minna menningarrökin: að haldið sé úti öflugum fjölmiðlum þar sem vandað íslenskt mál er í öndvegi og stunduð umfangsmikil framleiðsla íslensks dagskrárefnis í hæsta gæðaflokki. Skyldur Ríkisútvarpsins eru á sviði menningar, einkum og sér í lagi þeirrar sem einkaaðilum er ókleift að sinna – ekki ósvipað og starfsemi Listasafns Íslands, Sinfóníuhljómsveitarinnar og Þjóðleikhússins. Ríkisvaldið á að einbeita sér að þeirri starfsemi sem enginn getur sinnt nema ríkið, eins og Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur orðaði það í grein í Skírni sem birtist í fyrra. Þessu menningarstarfi þarf Ríkisútvarpið að sinna af kostgæfni og gera þarf mun ríkari kröfur til hæfni þeirra sem þar veljast til starfa en nú ert gert – einkum og sér í lagi hvað varðar meðferð þjóðtungunnar.
Framleiðsla og dreifing á hvers kyns dægurmála- og afþreyingarefni á aftur á móti að vera í höndum einkaaðila. Að afmarka enn betur hlutverk Ríkisútvarpsins og taka það af auglýsingamarkaði eru einfölduðustu aðgerðirnar sem hægt er að ráðast í til að efla frjálsu miðlana. Á sama tíma yrði það til að styrkja Ríkisútvarpið sem menningarstofnun þá sem hún á að vera umfram allt.
Nú þegar viðsjár eru í heimsmálunum verður okkur enn ljósara hversu veikburða við erum í varnarmálum og efnahagslega höfum við heldur ekkert vægi á alþjóðavísu. Í menningarefnum eru Íslendingar aftur á móti stórveldi í krafti bókmennta og ævafornrar þjóðtungu sem eitt sinn var töluð á mjög víðfemu svæði um norðanvert Atlantshaf. Hagmæltur nútímamaður gæti skipst á hendingum við Egil Skallagrímsson, slík er ending málsins. En móðurmálið er ekki einasta lykill að fjársjóðum liðins tíma og samhengi í sögunni heldur það sem gerir okkur að Íslendingum.
Á tímum þegar erlent afþreyingarefni hellist yfir sem aldrei fyrr og menningarhelgi er með öllu rofin ríður á að framleitt sé sem mest af vönduðu íslensku efni. Það getur ekki orðið nema sköpuð sé skilyrði þess að öflugir frjálsir fjölmiðlar fái þrifist, að stöðvuð verði almenn hnignun þeirra og leitað leiða til að skapa þeim lífvænleg starfsskilyrði án ríkisstyrkja. Ríkisútvarpið gegnir hlutverki sem menningarstofnun – en eins og sakir standa er starfsemi þess um margt beinlínis til trafala fjölmiðlun í landinu og þar ástundaður „sósíalismi andskotans“.