Fáum kom það á óvart að stjórnarandstaðan og aðrir talsmenn sægreifa á Íslandi losnuðu á límingunum þegar fram kom af hálfu ríkisstjórnarinnar að ætlunin væri að hækka greiðslur fyrir afnot af fiskimiðunum sem eru sameign þjóðarinnar. Fjármálaráðherra hefur kynnt áform sín um að hækka veiðileyfagjald um 10 milljarða króna á ári. Veiðileyfagjald er greiðsla útgerðarinnar fyrir aðgang að fiskimiðum landsins sem eru í eigu þjóðarinnar, leigugreiðslur af svipuðum toga og þeir sem taka húsnæði á leigu af eigendum húsnæðis þurfa að greiða í húsaleigu fyrir afnotin. Fyrstu viðbrögð talsmanna sægreifanna eru þau að beita þeim blekkingum að um skattgreiðslur sé að ræða. Það er alrangt. Veiðileyfagjöld eru frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt gildandi skattalögum og meðhöndlast því í ársreikningum og uppgjörum fyrirtækja rétt eins og húsaleiga hjá þeim sem leigja húsnæði af öðrum.
Orðið á götunni er að viðbrögð við fyrirhugaðri hækkun veiðileyfagjalda séu ákaflega vanstillt og einkennist af margvíslegum tilraunum til að blekkja og afflytja umræðuna. Við því var svo sem búist. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, hefur kynnt áform ríkisstjórnarinnar skýrt og skörulegra og bent á að nú sé loksins komin til valda á Íslandi ríkisstjórn sem þorir að framkvæma það sem spjallað hefur verið um árum saman. Gildandi veiðileyfagjöld hafa hingað til verið svo rýr að þau hafa ekki dugað til að standa undir kostnaði ríkisins af rekstri stofnana sem þjóna sjávarútvegi hér á landi. Með 10 milljarða hækkun veiðileyfagjalda fást loks tekjur í ríkissjóð sem geta komið að gagni við að endurbæta innviði á landsbyggðinni sem hafa látið undan síga, ekki síst vegna gríðarlegs álags á vegakerfi landsmanna þegar stórir og þungir flutningabílar flytja sjávarafurðir milli landshluta með því mikla sliti á vegum sem því fylgir.
Fyrstu viðbrögð stjórnarandstöðunnar á Alþingi hafa verið hömlulaus og talsmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar til minnkunar. Öllum má vera ljóst að stjórnarandstaðan stefnir í lágkúrulegt málþóf og útúrsnúninga eins og þessir flokkar hafa verið þekktir fyrir áður. Þegar þeir sátu saman í stjórnarandstöðu árin 2009 til 2013 einkenndist framganga þeirra á Alþingi af ómerkilegum tilraunum til að tefja mál og skemma fyrir, óháð pólitísku mikilvægi þeirra. Þessu lýsti þáverandi alþingismaður, Þráinn Bertelsson, skilmerkilega í viðtali við Tímarit Máls og Menningar árið 2014. Þar sagði m.a.:
„Stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var rekin samkvæmt því pólitíska heilræði að ekkert mál stjórnarinnar væri of lítið til að ekki tæki því að reyna að tefja fyrir því, gera það tortryggilegt og helst að eyðileggja það. Í staðinn fyrir vitræna og jafnvel uppbyggilega umræðu var ómældum tíma sóað í orðhengilshátt, útúrsnúninga og vafninga. Fyrir stjórnarmeirihlutann að fá lagafrumvarp samþykkt var eins og að synda í sýrópi. Og óhreinskilnin var svo mikil að þegar öll þjóðin gat horft upp á blygðunarlaust málþóf í sjónvarpi neituðu málþófsmenn því harðlega, engilbjartir á svip, að um málþóf væri að ræða eða útúrsnúningastjórnmál.“
Sagan mun endurtaka sig. En sá er munurinn núna og á tíma vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að ríkisstjórn hennar studdist við mjög nauman meirihluta sem kvarnaðist úr. Þá hafði brölt stjórnarandstöðunnar jafnvel áhrif en það mun ekki gerast núna. Núverandi stjórnarflokkar hafa drjúgan meirihluta á Alþingi og standa þétt saman. Þeir munu þá einungis leyfa stjórnarandstöðunni að efna til málþófs og útúrsnúninga og verða sér til minnkunar í þinginu. Það mun tefja afgreiðslu mála um nokkra daga án þess að það breyti neinu.
Orðið á götunni er að þjóðin hafi takmarkaða samúð með sægreifum sem hafa notið góðs af gjafakvótakerfinu um árabil þar sem greinin hefur skilað 80 til 100 milljarða nettóhagnaði á ári, þrátt fyrir mikla endurnýjun fjármuna sem leitt hefur til fjármagnskostnaðar og hækkaðra afskrifta. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa fjárfest út um allt atvinnulífið fyrir þann umframhagnað sem greinin hefur notið og ræður orðið miklu í heildverslun með nauðsynjavörur, smásöluverslun og verslun almennt, auk iðnaðar og vátryggingastarfsemi, að ekki sé talað um gríðarlega eignamyndun í fasteignum. Mest eru þessar fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu. Allt tal um að hækkun afnotagjalda um 10 milljarða muni leiða til þess að 3.000 manns missi vinnuna, fjárfestingar í greininni dragist verulega saman og verið sé að leggja á „landsbyggðarskatta“ stenst enga skoðun og er í besta falli hlægilegt. Það sem gæti ef til vill breyst eitthvað er að sægreifar muni hafa heldur minna svigrúm til að kaupa upp fyrirtæki í verslun, þjónustu og ýmsum iðnaði á höfuðborgarsvæðinu.
Málflutningur sægreifanna, fjölmiðla þeirra og talsmanna á Alþingi er svo sorglegur og auðsær að þeir munu einungis uppskera háð og spé. Að nýju er byrjað að tala um „grátkór“ útgerðarmanna eins og tíðkaðist í síðustu öld þegar talsmaður LÍÚ kom stöðugt fram í fjölmiðlum og grét vegna hræðilegrar afkomu útgerðarinnar sem allir sáu að var innistæðulaust raus.
Orðið á götunni er að Edda Björgvinsdóttir, leikkona, hafi hitt naglann á höfuðið í grínþætti sínum þegar hún grét hástöfum út af örlögum sægreifanna hér og hvar á landinu sem nú biði ekkert annað en að „lepja dauðann úr skeið.“