Meðal þeirra miðla sem skýra frá þessu er The Jerusalem Post sem segir að Masri sé með bæði palestínskan og bandarískan ríkisborgararétt og hafi búið í Bandaríkjunum með fjölskyldu sinni síðustu árin.
Frá því að Trump tók við forsetaembættinu hefur Masri verið ráðgjafi fyrir Adam Boehler, sem er sérstakur útsendari Trump í Miðausturlöndum. Boehler hefur verið í stöðugum ferðum á milli Doha, Kaíró og annarra höfuðborga í Miðausturlöndum til að semja um lausn þeirra ísraelsku gísla sem Hamas hryðjuverkasamtökin námu á brott í hryðjuverkaárásinni á Ísrael í október 2023.
The Jerusalem Post segir að margar af þessum ferðum hafi verið farnar í einkaþotu Masri og að hann hafi verið með í för í sumum þeirra.
Masri fæddist inn í fína og efnaða palestínska fjölskyldu sem bjó í Nablus á Vesturbakkanum.
Hann tók þátt í mótmælum gegn Ísrael þegar hann var ungur að árum og hefur tvisvar setið í ísraelsku fangelsi. Það gerði hann þegar hann var 14 og 16 ára.
Hann stundar fasteignaviðskipti og þrátt fyrir uppruna sinn og andstöðu við Ísrael á yngri árum, er hann talinn ansi praktískur maður í dag því hann hefur engin tengsl við Hamas og heldur ekki við palestínsk yfirvöld.
Hann kom að uppbyggingu palestínska bæjarins Rawabi, sem er ekki langt frá Ramallah á Vesturbakkanum. Rawabi er nútímalegur bær með þróuðum innviðum, skólum, sjúkrahúsum, hótelum, kvikmyndahúsum, tveimur moskum og grískri rétttrúnaðarkirkju. Þar eru einnig verslunarmiðstöðvar, veitingastaðir og leikhús.
Í viðtali við The Jerusalem Post sagði Masri: „Ef við getum reist bæ, þá getum við reist ríki.“
Það er einmitt þetta sem Trump gæti þurft á að halda ef hann vill láta drauminn um að gera Gasa að ferðamannaparadís að veruleika.