Svokölluð menningarheimsókn þjóðaröryggisráðgjafa forseta Bandaríkjanna, iðnaðarráðherra og eiginkonu varaforsetans til Grænlands hefur vakið hörð viðbrögð stjórnvalda í Danmörku og á Grænlandi, sem sameiginlega fara með fullveldisráðin yfir þessu grannlandi okkar.
Danski utanríkisráðherrann talar um virðingarleysi. Fráfarandi forsætisráðherra heimastjórnar Grænlands hefur notað orðið ögrun.
Þessi óboðna heimsókn er þannig sett í samhengi við yfirlýst áform Bandaríkjanna um að ná yfirráðum á Grænlandi. Það skýrir þungann í viðbrögðunum. Málið snýst um fullveldi tveggja landa í stjórnskipulegu sambandi.
Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur ítrekað sagt að hún útiloki hvorki efnahagslegar þvinganir né valdbeitingu til þess að ná markmiði sínu.
Ríki þurfa að fullnægja ákveðnum skilyrðum til þess að geta talist fullvalda í skilningi þjóðaréttarins. Ágreiningslaust er að Danmörk og Grænland fullnægja í sameiningu þeim skilyrðum.
En lögfræðin hefur litla þýðingu virði aðrar þjóðir ekki fullveldið í verki. Þess vegna eru hervarnir nauðsynlegar. En til viðbótar tryggja margar þjóðir öryggi sitt og pólitíska stöðu með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi bæði um varnir og viðskipti.
Áhugavert er að skoða þessa deilu um fullveldisráð á Grænlandi í þessu ljósi. Danmörk á aðild að Evrópusambandinu, en Grænlendingar ákváðu að fara út. Bæði löndin eru á hinn bóginn aðilar að Atlantshafsbandalaginu.
Ríkisstjórn Bandaríkjanna getur ákveðið að beita Dani efnahagslegum þvingunum í þeim tilgangi að knýja þá til samninga um fullveldi Grænlands. Kanadamenn líta svo á að Bandaríkin hafi þegar hafið slíkar aðgerðir gegn þeim.
Í sáttmála Evrópusambandsins er ákvæði um stuðning ef ógn steðjar að einu aðildarríki. Hugsanlegar efnahagsþvinganir Bandaríkjanna munu því í reynd beinast gegn Evrópusambandinu í heild. Það hefur þegar lýst yfir samstöðu með Dönum.
Þó að Grænland sé ekki aðili að Evrópusambandinu nýtur það eigi að síður verndar þess komi til efnahagslegra þvingana. Að þessu leyti standa Danir og Grænlendingar sterkar að vígi en Kanadamenn.
Sérstakar efnahagsþvinganir gegn Dönum eru því fremur ólíklegar í bráð, hvað sem síðar verður.
NATO-sáttmálinn geymir líka ákvæði um að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll.
Þótt ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi ekki útilokað að beita hervaldi til þess að ná fullveldisráðum á Grænlandi telja flestir ólíklegt að til þess komi. Eigi að síður hafa bæði danska ríkisstjórnin og landsstjórn Grænlands tekið hótunina alvarlega.
Fyrir fáum mánuðum hefðu flestir litið svo á að meira hald væri í NATO-sáttmálanum en Evrópusambandssáttmálanum. En það hefur breyst.
Aðalritari NATO lýsti því yfir á dögunum að hann myndi ekki blanda bandalaginu inn í deilur um fullveldisráð á Grænlandi.
Það þýðir að í þessu tilviki er aðild Danmerkur og Grænlands að NATO óvirk.
Með öðrum orðum: Þegar kemur að fullveldi Danmerkur og Grænlands blasir við að efnahagslega tryggingin í ESB er sterkari en hernaðarlega tryggingin í NATO.
Grænlandsmálið er alvarlegra en svo að við getum látið eins og ekkert hafi breyst. Þvert á móti krefst varðstaðan um fullveldi landsins þess að við horfumst í augu við nýjan veruleika.
Veruleikinn er sá að við og Norðmenn njótum minni efnahagslegrar verndar en aðrar Norðurlandaþjóðir.
Þau sjónarmið heyrast að Ísland eitt landa í Evrópu þurfi ekki að endurmeta stöðu sína í þeim alþjóðlegu hamskiptum sem nú eiga sér stað.
Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tala fyrir fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Þannig vilja þeir opna fyrir innflutning landbúnaðarvara frá Bandaríkjunum þótt þeir séu andvígir evrópsku frelsi á því sviði. Þingmenn þeirra þekkja þó öðrum betur að tilraunir EFTA hafa strandað á þessu.
Tíu árum eftir Brexit hafa Bretar ekki fundið leið til að gera slíkan samning án þess að tefla mikilvægari viðskiptahagsmunum í Evrópu í tvísýnu. Reynsla Kanada sýnir að það er ekkert efnahagslegt öryggi í fríverslunarsamningi við Bandaríkin.
Full aðild að Evrópusambandinu er því skilvirkasta leiðin til að styrkja efnahagslegt öryggi landsins.
Brýnt er að ríkisstjórnin láti vinna faglega greiningu á þessum þremur leiðum og kynni þjóðinni.