Össur Skarphéðinsson, fyrrum ráðherra og núverandi samfélagsrýnir, ráðleggur nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, að láta ekki „nýfallna og grútspælda ráðherra og fallista af landsfundi“ plata sig í viðlíka upphlaup og í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær. Össur segir ennfremur að sumir úr þessum hópi gefi ekki mikið fyrir Guðrúnu og kalli hana skammarlaust „biðráðherra“ en væntanlega er fyrrum ráðherrann að vísa þar til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og hennar stuðningsfólks.
Guðrún beindi í gær fyrirspurn til Kristrúnar Frostadóttur um málefni Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrum mennta- og barnamálaráðherra, sem sagði af sér á fimmtudaginn. Guðrún sagði ekki tilefni til að velta fyrir sér þeim öngum málsins sem varða einkamál Ásthildar en eftir standi spurningar um ábyrgð Kristrúnar í málinu. Beindi Guðrún spjótum sínum að fundi sem Ásthildur átti með oddvitum stjórnarflokkanna í aðdraganda afsagnarinnar og vildi vita hvað var rætt á þeim fundi. Hvaða valkostir voru teknir til skoðunar og hvers vegna niðurstaðan varð sú að Ásthildur sagði af sér. Kristrún sagðist ekki ætla að viðra umræðurnar á téðum fundi í smáatriðum og eins væri það ekki hennar að rekja hvað dreif ákvörðun Ásthildar í málinu. Guðrún sætti sig ekki við þetta og krafðist svara um hvað hefði réttlætt afsögn ráðherra og hvers vegna Kristrún hefði ekkert gert í málinu þá viku sem leið eftir að ábending barst ráðuneyti hennar frá fyrrum tengdamóður barnsföður Ásthildar. „Þetta snýst ekki lengur um ráðherrann sem vék, þetta snýst um ráðherrann sem sat og gerði ekkert.“
Kristrún svaraði þá að það hljóti allir að vera sammála um það að þegar þriðji aðili leitar til ráðuneytis með erindi sem varðar einkamál einstaklinga sem tengjast honum ekki með beinum hætti þurfi að vanda til verka.
Össur telur að Guðrún hefði átt að vita betur en að taka þátt í þessum pólitíska leik, en svo virðist sem að Sjálfstæðismenn séu hreinlega með Kristrúnu á heilanum. Það sé ekki mikil reisn yfir upphlaupi Guðrúnar í gær. Sem betur fer hafi formaður Framsóknar, Sigurður Ingi Jóhannesson, áttað sig á þessu og dregið sig úr aðförinni. Guðrún ætti heldur að verja kröftum sínum í stóru málin og ætti að varast ráðleggingar frá tapsárum ráðherrum fyrri ríkisstjórnar.
Össur skrifar á Facebook:
„Ráðlegging til formanns
Margra tíma umræður um plasttappa og hvuttagelt eftir hundablístru „hrútakofans“ á Mogganum þar sem pólitískur eltihrellir virðist með Kristrúnu Frostadóttur á heilanum. Þetta er það sem liggur eftir Sjálfstæðisflokkinn á þessum vetri.
Það var ekki mikil reisn yfir efnilegum formanni Sjálfstæðisflokksins að láta plata sig út í upphlaup á þingi einsog gegn Kristrúnu í gær. Hún reið ekki feitum hesti frá því. Sigurður Ingi, formaður Framsóknar hafði réttilega vit á því að draga sig úr þeirri aðför. Hann er alvörustjórnmálamaður hvað sem mönnum einsog Guðna Ágústssyni og öðrum kann að finnast um hann.
Formaður, hvað þá nýr einsog Guðrún Hafsteinsdóttir, á ekki að fara í pólitískan skæting við aðra formenn. Hún á að spara sitt púður fyrir stóru málin, og helst ekki tala um annað en erindi og málefni Sjálfstæðisflokksiins. Láta aðra um skæklatogið. Þá gæti fylgið snúið til baka. Ég tala af reynslu í því efni.
Það síðasta sem hún á að gera er að láta nýfallna og grútspælda ráðherra og fallista af landsfundi etja sér niður á þetta plan. Allra síst þá sem á bak kalla hana blygðunarlaust „biðformanninn.““