fbpx
Miðvikudagur 26.mars 2025
Eyjan

Kristrún lét stjórnarandstöðuna heyra það í óundirbúnum fyrirspurnartíma – „Ég ætla bara að biðja fólk að gæta orða sinna“

Eyjan
Mánudaginn 24. mars 2025 16:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra svaraði í dag spurningum um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Þar stigu þingmenn stjórnarandstöðunnar fram, hver á eftir öðrum, og kröfðust svara við spurningum sem þeir töldu ósvarað.

Bað fólk að gæta orða sinna

Kristrún var ítrekað spurð um hvað fór fram á fundi sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna áttu með Ásthildi í aðdraganda afsagnar hennar á fimmtudaginn. Hvaða valkostir voru þar ræddir? Kom til álita að slíta meirihlutasamstarfinu? Kom jafnvel til álita að Ásthildur sæti áfram? Þingmenn Miðflokksins vildu eins vör við því hvort Ásthildur hafi verið þvinguð til afsagnar. Loks fékk Kristrún nóg eftir að hafa ítrekað bent þingsal á þá staðreynd að hér er um mál að ræða sem varða atburði sem áttu sér stað fyrir 35 árum síðan og að málið sé bæði gífurlega persónulegt og viðkvæmt. Eftir að þingmaður Miðflokks, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, rakti að hvert „furðumálið“ hefði rekið annað hjá ríkisstjórninni, spurði hún hvort Kristrún teldi að eitthvað væri refsivert í málinu, hvort valkyrjur hafi beitt Ásthildi þrýstingi, hvort einhver stjórnarflokkur hafi íhugað að slíta sig úr samstarfinu eða hvaða valkostir voru ræddir, svaraði Kristrún:

„Ég ætla bara að biðja fólk að gæta orða sinna þegar talað er um „furðumál“. Þetta er mjög viðkvæmt, persónulegt mál. Ég ætla bara að biðja fólk um að tala ekki með þessum hætti. Eins og þetta sé eins og hvert annað mál sem komi upp í pólitík. Við vitum þetta öll hérna inni. Við skulum ekki gera pólitík úr þessu máli.

Hvað varðar umræddan fund þá er það auðvitað af virðingu við fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra sem ég beini hæstvirtum þingmanni að ræða við hann, af virðingu við hana. Ekki taka af henni valdið í þessum sal og láta eins og hún hafi ekki sitt eigið ákvörðunarvald. Af virðingu við hana skulum við horfast í augu við það að hún tók stórt skref, sem er ekki sjálfgefið í íslenskri stjórnmálasögu, að stíga til hliðar vegna þess að það var það sem hún taldi rétt í stöðunni. Af virðingu við hana og fjölskyldu hennar, og fjölskyldu þessa fólks, skulum við ekki gera lítið úr þessari stöðu sem upp var komin. Þannig ég beini þeim tilmælum einfaldlega til þeirra hér inni sem hafa svona mikinn áhuga á þessari ákvarðanatöku, og hvort hún hafi vald í sínu eigin lífi, að ræða við hana, af virðingu við hana. Milli okkar fjögurra, formanna flokkanna og umrædds fyrrverandi ráðherra, hefur alltaf ríkt fullkomið traust. Við getum talað saman sem kollegar, sem manneskjur og sem vinkonur og rætt og ráðlagt án þess að taka af henni valdið.“

Ekki Hildi til framdráttar

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði beint spurningum sínum að meintum trúnaðarbresti forsætisráðuneytisins. Að Ásthildur hafi fengið að vita nafn þeirrar konu sem vakti athygli forsætisráðuneytisins á málinu. Hildur hélt því fram að þeirri konu hafi verið heitið trúnaði sem svo var rofinn. Kristrún benti á að viðkomandi óskaði aldrei eftir trúnaði og eins væri erfitt að afgreiða fundarbeiðni, þar sem meðal annars var óskað eftir nærveru Ásthildar, án þess að bera það undir Ásthildi og gera henni grein fyrir með hverjum fundurinn yrði. Vissulega hefði Ásthildur svo farið og haft samband við viðkomandi sem hafi verið rangt af henni, en hún hafi axlað ábyrgð og sagt af sér. Hildur reyndi þá aftur og spurði hvort forsætisráðuneytið væri að senda þau skilaboð að það væri ekki hægt að koma ábendingum á framfæri í trúnaði og hvort uppljóstrarar njóti ekki verndar.

Kristrún sakaði Hildi þá um útúrsnúninga og aðrir þingmenn hrópuðu heyr, heyr.

„Ég verð bara að segja að mér finnst þessir útúrsnúningar hæstvirtum þingmanni ekki til framdráttar.“

Forsætisráðuneytið hafi verið mjög skýrt um sinn hlut í þessu „gríðarlega erfiða, flókna og persónulega máli“ þar sem upplýsingar komu frá þriðja aðila með engin núverandi tengsl við þá aðila sem komu við sögu í frásögninni. Það liggi fyrir að svona mál taki tíma að afgreiða. Sex dögum eftir að erindið barst var málið komið í fjölmiðla.

„Það að einhver sendi inn beiðni um einkafund svo til strax með forsætisráðherra landsins þýðir ekki að með því að hafna þeim einkafundi sé verið að taka afstöðu til fundarefnisins. Það eru margar leiðir í þessu samfélagi til að koma svona skilaboðum til skila og til að vinna úr þeim. Það er fjöldinn allur af málum sem er unninn vel, faglega og með sanngjörnum hætti í stjórnsýslunni án þess að fyrsta stopp sé einkafundur með forsætisráðherra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt