Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi það í gær að Rósa Guðbjartsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, ætlaði sér að sitja áfram í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Eins hefur það vakið athygli hvað Rósa er þaulsætin í störfum sínum fyrir Hafnarfjarðarbæ í ljósi þingsetunnar en hún er enn bæjarfulltrúi, er formaður bæjarráðs og loks stjórnarmaður í SÍS.
Eyjunni barst fyrirspurn frá lesanda sem velti því fyrir sér hvað Rósa væri með í tekjur af öllum þessum störfum.
Bæjarfulltrúar í Hafnarfirði fá laun sem nema 25% af þingfararkaupi. Til viðbótar fær formaður bæjarráðs 22,5% af þingfararkaupi sem í dag nemur 1.525.841 kr. Þar með er Rósa með 396.718 kr. sem bæjarfulltrúi og 343.314 kr. sem formaður bæjarráðs. Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að stjórnarlaun í SÍS hafi numið 274.651 kr. í byrjun árs. Fyrir þingmennskuna fær Rósa svo fullt þingfararkaup auk 43.500 kr. í fastan ferðakostnað í kjördæmi og 58.000 kr. í fastan kostnað.
Samtals er Rósa því að fá 2.642.024 kr.
Samkvæmt vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar er Rósa svo aðalfulltrúi í Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins og Stefnuráði Byggðasamlaga. Hún er einnig varamaður í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Hún er enn skráð sem aðalfulltrúi í stjórn Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en líklega á eftir að uppfæra vefsíðuna þar sem hefð er fyrir því að sveitarstjóri gegni aðalmennsku í því sambandi. Rósa er því líklega varamaður þar.
Ekki liggur fyrir hvað er greitt fyrir ofangreinda nefnd, stjórnir og ráð, en mbl.is gaf til kynna í gær að fyrir hverja klukkustund af fundum stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fái stjórnarmenn 187.284 kr. og það sama gildir væntanlega um varamenn, ef þeir eru kallaðir á fund.
Þar með gætu laun Rósu verið hærri eftir því hvort og þá hversu marga fundi hún situr, í samræmi við ofangreint. Laun hennar sem bæjarstjóri Hafnarfjarðar voru 1.247.787 kr. samkvæmt ráðningarsamningi sem var gerður árið 2022. Auk þess fékk hún 50 tíma í fasta yfirvinnu og ökutækjastyrk. Árið 2022 námu laun hennar sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi 2,2 milljónum króna. Við fyrstu sýn mætti því ætla að hún sé með hærri tekjur í dag, en sem bæjarstjóri sat hún einnig í SÍS sem og stjórnum og nefndum sem greitt var fyrir.