Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er allt annað en sáttur með þá fyrirætlun Rósu Guðbjartsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi bæjarstjóra Hafnafjarðar, að sitja áfram í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga eftir landsþing sambandsins sem fer fram á fimmtudag. RÚV greindi frá fyrir stundu en í fréttinni tók Rósa fram að þessar fyrirætlanir gætu þó breyst á breyst á næstu vikum og mánuðum.
Rósa lét af störfum sem bæjarstjóri Hafnarfjarðar um áramót og tók þá við embætti sem formaður bæjarráðs. Fyrir það hafði hún náð kjöri á Alþingi sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Nokkra athygli hefur vakið hvað Rósa er þaulsætin í störfum sínum fyrir Hafnarfjarðarbæ í ljósi þingsetunnar en auk þess að vera formaður bæjarráðs þá situr hún sem aðalfulltrúi í Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins, aðalfulltrúi í Stefnuráði byggðasamlaga, varamaður í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og aðalmaður í Fulltrúaráði samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem allt eru launuð störf.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir setu Rósu í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélag vera „algjöran hagsmunaárekstur og trúnaðarbrest“.
„Þetta er svo galið. Eitt af megin markmiðum Sambands íslenskra sveitarfélaga felst í hagmunagæslu sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu. Sambandið mótar stefnu sveitarfélaganna og hefur svo náin samskipti við Alþingi. Það að þingmaður sitji í stjórn sambandsins er algjör hagsmunaárekstur og trúnaðarbrestur við sveitarfélögin í landinu. Þessi ákvörðun Rósu setur alla stjórnina í skrýtna stöðu þar sem þau trúnaðarsamtöl sem fram fara í stjórn Sambandsins fara nú fram með fulltrúa Alþingis á fundunum. Formaður og stjórn Sambandsins þurfa að geta ráðið ráðum sínum og átt í trúnaðarsamskiptum um samskipti við m.a. ríkisstjórnina án þess að þurfa að gæta að því fulltrúar þingsins séu viðstaddir,“ skrifar Guðmundur Ari.
Sakar hann svo Sjálfstæðismenn um hræsni í ljósi þess að þegar Bjarni Jónsson fulltrúi VG í stjórn Sambandsins hafi kjörinn á þing þá hafi fulltrúar Sjálfstæðismanna hneykslast mikið á því að Bjarni sagði sig ekki strax úr sömu stjórn.