fbpx
Mánudagur 17.mars 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Ekki sama Jón og séra Jón hjá Sjálfstæðismönnum – sjá ekki bjálkann í eigin auga

Eyjan
Sunnudaginn 16. mars 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, menntamálaráðherra, lýsti fyrir helgi þeirri skoðun sinni að hún ætti ekki von á réttlæti frá íslenskum dómstólum. Tilefnið var niðurstaða dómstóls í máli sem hún átti hlut að. Orðið á götunni er að hún hefði mátt orða skoðun sína á varfærnari hátt. Degi síðar viðurkenndi hún það sjálf og dró í land. Þótti hún maður að meiri.

Orðið á götunni er að traust fólks til dómstóla mælist mun meira meðal þeirra sem aldrei hafa þurft að leita til dómstóla eftir réttlæti en meðal hinna sem reynt hafa réttlæti íslenskra dómstóla á eigin skinni.

Orðið á götunni er að sú hneykslan sem fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lýsti á orðum menntamálaráðherra hafi verið í alla staði athyglisverðari en ummælin sem hneykslast var á. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, náði ekki upp í nefið á sér af hneykslan og sagði orð menntamálaráðherra „aðför að lýðræðinu.“

Þetta ku vera sú sama Áslaug Arna og studdi baráttu Eddu Falak á sínum tíma fyrir því að dómstóll götunnar, hin svokallaða „Ég trúi“ hreyfing, myndi leysa réttarkerfið af hólmi. Sjálf mun Edda hafa kallað sig „dómsmálaráðherra götunnar“.

Það virðist ekki hafa truflað ýmsa Sjálfstæðismenn að dómsmálaráðherra þeirra hyggi með þessum hætti að rótum réttarríkisins, þeim hornsteini siðaðs samfélags sem réttlát málsmeðferð fyrir dómi er. Í nýliðnum formannsslag, þar sem hársbreidd munaði að Áslaug Arna væri kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, studdu fyrrum dómsmálaráðherrar flokksins, Sólveig Pétursdóttir og Björn Bjarnason, Áslaugu Örnu með ráðum og dáð og voru í hennar innsta stuðningsmannakjarna.

Orðið á götunni er að innan Sjálfstæðisflokksins séu margir aðrir sem myndu biðja guð að blessa Ísland ef von væri á Áslaugu Örnu í embætti dómsmálaráðherra á nýjan leik.

Þá vekur það einnig athygli að ekki komu Sjálfstæðismenn dómskerfinu til varnar er þáverandi forsætisráðherra flokksins, Davíð Oddsson, hraunaði yfir Hæstarétt fyrir að dæma öryrkjum í vil í Öryrkjamálinu árið 2000. Sagði Davíð Hæstarétt marklausan þar sem dómarar í fjölskipuðum undirrétti hefðu komist að annarri niðurstöðu. Enginn Sjálfstæðismaður fann þá að aðför forsætisráðherra að æðsta dómstól þjóðarinnar. Sami forsætisráðherra strunsaði nokkru síðar baðaður fjölmiðlaljósi niður í KB-banka og tók út alla sína innistæðu í bankanum og lokaði reikningi sínum vegna þess að hann var óánægður með stjórnendur bankans. Ekki fannst Sjálfstæðismönnum sú hvatning til áhlaups á bankann aðfinnsluverð.

Orðið á götunni er að leiðarahöfundur Morgunblaðsins hafi í laugardagsblaði helgarinnar svo bitið hausinn af skömminni með ósvífinni og rætinni árás á menntamálaráðherra vegna ummælanna í síðustu viku. Margt bendir til þess að þar haldi um penna sami maður og réðst gegn Hæstarétti þegar honum mislíkaði dómur hans í öryrkjamálinu og atti síðan þjóðinni gegn kerfislega mikilvægum banka vegna þess að hann móðgaðist yfir launastefnu fyrir stjórnendur hans. Hann kallar eftir afsögn menntamálaráðherra. Slíkt heitir víst að sjá flísina í auga náungans en ekki bjálkann í eigin auga.

Orðið á götunni er að í Sjálfstæðisflokknum sé sitt hvað Jón og séra Jón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Trausti getur ekki þagað lengur og lýsir framkomu Gunnar Smára í sinn garð – „Þegar ég lít til baka sé ég hvernig þetta virkaði“

Trausti getur ekki þagað lengur og lýsir framkomu Gunnar Smára í sinn garð – „Þegar ég lít til baka sé ég hvernig þetta virkaði“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnarsamningurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnarsamningurinn