Fyrir nokkru síðan greindist ég með sjaldgæfan hjartakvilla eftir dramatíska sýnatöku úr hjartanu og smásjárskoðun í Danmörku. Þetta eru langvinn veikindi svo að ég er langveikur þjóðfélagsþegn. Einkennin eru mæði og svo miklir erfiðleikar við gang að ég þarf stundum að styðjast við göngugrind. Læknarnir mínir voru uppveðraðir í byrjun en smám saman hvarf nýjabrumið og hversdagsleikinn blasti við. Allir læknar eru sammála um að langveikir eru leiðinlegir sjúklingar vegna þess hversu tilbreytingarlaust ástandið er. Samtölin eru keimlík og ganga út á löturhæga versnun frá síðasta fundi.
Hjartalæknarnir mínir eru þrautþjálfaðir í hjartahnoði og björgun mannslífa við allar mögulegar aðstæður. Þeim líður best í bráðatilvikum þar sem einn sjúklingur er í hjartastoppi og annar í andnauð og þriðja er að blæða út. Þeir njóta sín vel í slíku drama blóðugir upp að olnbogum þar sem hraði og fumlaus vinnubrögð skipta öllu máli. Fyrir hetjulækna er jafn dapurlegt að fylgjast með langveikum sjúklingum og horfa á málningu þorna á vegg. Það er bara ekkert að frétta.
Stundum reyna þeir að gera sér upp áhuga og bæta einhverju lyfi við lyfjasúpuna sem fyrir er. Í næstu heimsókn er allavega hægt að spyrja hvort nýja lyfið hafi gert eitthvað gagn sem það gerir aldrei. Fyrir sjúklinginn er þetta dapurlegt ástand. Hann finnur hvað lækninum leiðist og fer smám saman að vorkenna honum. Ég hef reynt að ljúga upp dularfullum verkjum eða yfirliðum til að gleðja lækninn en hann sýnir slíkum málamyndareinkennum lítinn áhuga. Það eina sem sem Herra Langveikur getur gert til að bjarga málum er að fara í hjartastopp inni hjá lækninum svo að hann geti sýnt færni sína í endurlífgun og hetjulækningum. Það er eiginlega fátt annað sem þessir vesalingar geta tekið til bragðs til að gleðja lækninn sinn og sýnt honum þannig þakklæti fyrir áhuga og velvild um langt skeið.