„Fernt gæti orðið til þess að Sósíalistaflokkurinn rýrni smám saman eða jafnvel hyrfi: (i) Flokknum hefur ekki tekist að endurnýja sósíalismann sem stefnu, (ii) flokkurinn hefur slaka forystu, (iii) flokkurinn hefur ekki losnað við arf Sovétríkjanna/Rússlands og Alþýðubandalagsins – allt ógeðfelldir draugar sem fylgja hverju skrefi hans og (iv) flokkurinn hefur ekki nothæft skipulag,“ segir Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur í langri færslu á Facebook.
Haukur telur að flokkurinn bjóði ekki upp á nútímaútgáfu af sósíalisma heldur stefnu sem sé ekki nægilega aðgreind frá sósíalisma ráðstjórnarríkjanna sálugu. Stefna flokksins sé dauft bergmál af frösum gamla Alþýðubandalagsins:
„Flokkurinn hefur ekki náð að endurnýja sósíalismann sem stefnu við nútíma aðstæður hér á landi. Ekkert er þó mikilvægara og meðan það er ógert liggur ekki fyrir nein réttlæting fyrir tilvist hans. Sósíalisminn/kommúnisminn er nefnilega fallinn sem sú stefna sem hann var – það er niðurstaða pólitískra átaka síðustu aldar. Hann verður því að endurnýja sig til þess að eiga erindi.
Það að endurnýja vestrænan sósíalisma og aðskilja hann endanlega frá Sovétríkjunum/Rússlandi er verkefni allra vinstri manna í Vestur-Evrópu – en Evrópa er samsett úr bestu samfélögum í sögu mannkynsins og bestu einkenni þeirra koma frá sósíalískum hugmyndum og kristnum.
Ekki verður heldur séð að flokkurinn hafi reynt mikið til þess. Hin opinbera stefna hans er sljótt bergmál af gömlum Alþýðubandalagsfrösum og því sem flokksmenn halda að sé vinstri sinnað – en óljóst hvort myndi eiga heima í nútíma sósíalisma. Þá hefur flokkurinn ekki gert upp við sig hvort hann er byltingarflokkur (sem oft eru kallaðir kommúnistaflokkar) eða lýðræðislegur sósíalistaflokkur. Hann er stefnulega samsafn af misgóðum skoðunum og stefnum – sumt eru heilagar kýr (s.s. að fiskurinn við landið sé félagsmálapakki en ekki auðlind) og hann er einhvers konar – bæði – háborg og ruslahaugur.“
Haukur segir að Sósíalistaflokkurinn hafi flatt skipulag, rétt eins og Píratar, en slíkt feli í sér feigðina.
„Sósíalistaflokkurinn hefur nánast flatt skipulag – sem er verra en ekkert skipulag og mun eyðileggja hann eins og Pírata – sem þýðir að sjálfskipaðir forystumenn sitja ævilangt. Þannig er ekki hægt að losna við formann flokksins eða miðstjórn, ekki haldnir eiginlegir landsfundir og séð til þess að flokksmenn geti kosið sér betri forystu ef sú sem situr stendur sig ekki. Í skjóli þessa skipulagsleysis situr formaðurinn hvernig sem gengur og þegar barnið bendir á að hann sé klæðlaus heldur hann langa fundi um hvað hann sé vel lukkaður.“
Haukur fer hörðum orðum um forystu flokksins og segir hana vera óhæfa:
„Forysta flokksins er óhæf til þess að leiða. Hún nær ekki að mynda stefnu, eins og þegar er nefnt – sem næði til stærri hóps kjósenda en nú er. Sumir telja að stefnuleysið og forystuleysið skrifist hvort tveggja á formanninn.“