fbpx
Fimmtudagur 13.mars 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Frelsið mitt og frelsið þitt?

Eyjan
Fimmtudaginn 13. mars 2025 06:00

Myndin er samsett úr myndum úr safni Pexels

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón gengur inn á klúbb með vinum sínum. Fer beint á barinn og nær sér í drykk. Hann fer á dansgólfið og skemmtir sér konunglega. Á dansgólfinu eru sætar stelpur, strákarnir í stuði. Hvað getur klikkað? Eftir að ljósin kvikna röltir hann á Hlölla hlæjandi með vinum sínum og gengur síðan einn síns liðs heim í Vesturbæinn. Á leiðinni heim hugsar hann um planið sem bíður hans daginn eftir. Léttur og kátur enda frábært kvöld að baki.

Margrét gengur inn á klúbb með vinkonum sínum. Þær ákveða að halda hópinn og passa hver upp á aðra. Það er bannað að fara einsömul á klósettið. Þær fara saman á barinn og ein tekur að sér að fylgjast sérstaklega með glösunum á meðan barþjónninn græjar drykkina. Þær líta í kringum sig og gefa hver annarri merki um að það sé í lagi að taka við drykkjunum. Þær fara á dansgólfið. Þar er stór vinahópur eldri manna sem starir stöðugt á þær og unga konan tekur eftir því að einn þeirra er kominn með höndina á óviðeigandi staði hjá vinkonu hennar. Þær mynda hring í kringum þessa vinkonu og halda áfram að dansa. Eftir að ljósin kvikna rölta þær saman á Hlölla og svo segist Margrét ætla heim í Vesturbæinn. Þær grátbiðja hana um að labba ekki ein en hún segist treysta sér í það. Á endanum sammælast þær um að um að Margrét hringi í eina vinkonu og hafi hana í símanum á meðan hún gengur heim. Á leiðinni heim er hún stöðugt á varðbergi og í hvert skipti sem einhver ókunnugur er í grennd við hana lætur hún vinkonuna á hinni línunni vita. En það sem betra er – hún kemst örugg heim. Þetta var frábært kvöld. Engin stórvægileg atvik og allar heilar á húfi. Fyrir það má þakka.

______________

Björn og Guðrún eru að plana brúðkaupsferðina sína. Draumurinn hefur alltaf verið Maldíveyjar. Enda algjör draumur að vera þar í paraferð. Eyjaklasar og kristaltær sjór. Þau heyra í ferðaskrifstofu og bóka ferðina. Þegar þangað er komið eiga þau sannkallaða draumadaga. Umvafin ást, kokteilum og hvítum ströndum. Lífið er dásamlegt!

Birta og Dagný eru að plana brúðkaupsferðina sína. Þær eru svo heppnar að búa á Íslandi því hér mega þær giftast. En aðeins 16% landa í heiminum heimila hjónabönd eins og þeirra. Draumurinn hefur alltaf verið Maldíveyjar. En eins og alltaf, áður en haldið er í utanlandsferð, ákveða þær að gúgla það hvort öruggt sé fyrir þær að vera opinbert par í landinu. Þær eru ekki lengi að komast að því að það er ekki góð hugmynd að fara til Maldíveyja. „Samkynhneigður maður myrtur við heimili sitt“ blasir við. „Up to 8 years imprisonment with possibility of lashings.“ Það eru viðurlögin við samkynhneigð í landinu. „Það er kannski betra að finna eitthvað öruggara,“ segir Birta og Dagný horfir á hana vonsvikin. „Já það er kannski rétt.“

______________

Jenný ætlar á tónleika í kvöld – uppáhaldshljómsveitin hennar er loksins að spila. Hún hefur beðið lengi eftir þessu augnabliki og getur ekki beðið eftir kvöldinu.

Gunnar langar svo ótrúlega mikið á sömu tónleika. En hann er í hjólastól og í minningunni er ekki gott aðgengi á tónleikastaðinn. Hann hringir á staðinn og fær þær fréttir að það sé því miður ekkert aðgengi. Hann spyr hvort það sé rampur eða eitthvað slíkt og hann fær þau svör að hann sé því miður ekki til staðar. En að honum sé velkomið að koma og láta á það reyna hvort það sé hægt að lyfta honum inn. Hann ákveður að leggja það ekki á sig. Enda algjörlega óþolandi aðstæður. „Nokkrar tröppur og einn helvítis þröskuldur,“ hugsar hann. Og finnur sama band á Spotify og syngur með. „Ég fæ kannski að sjá hljómsveitina mína einn daginn.“

______________

Arnar er á leið á ráðstefnu í Bandaríkjunum. Hann hefur farið átta sinnum áður á ráðstefnuna enda er hún ein stærsta ráðstefnan í faginu hans. Hann bókar flug, hótel, græjar allt praktískt og getur ekki beðið eftir því að komast og hitta kollegana í faginu. Það eru spennandi tímar fram undan.

Steingerður Lóa átti að vera að fara til Bandaríkjanna í flugi. Á ráðstefnu sem hún hefur farið á átta sinnum áður. Ráðstefnu sem er mikilvæg í hennar starfi sem sjálfstæður leikjahönnuður, þar sem hún hefur í gegnum árin myndað mikilvæg sambönd. Hún þurfti hins vegar að hætta skyndilega við ferðina vegna þess að undir stjórn Trump hafði verið gefin út reglugerð sem meinar trans fólki um ferðavísa til Bandaríkjanna. Þar sem fram kemur að ef misræmi er á kyni við fæðingu og kyni á vegabréfi megi koma í veg fyrir landgöngu og gefa ævilangt landvistarbann.

______________

Það er nefnilega þetta með frelsið mitt og frelsið þitt. Tilveru þína og tilveru mína. Öll eigum við ólíka reynsluheima og ólíkar sögur. Ég hefði getað haldið endalaust áfram með svona sögur. En orðafjöldinn gefur ekki pláss fyrir það. Ég hefði getað skrifað um þá mismunun sem fólk með útlensk nöfn finnur fyrir á hverjum degi þegar kemur að aðgengi á vinnumarkaði, um það hvernig það fer með sjálfsmynd barna samkynja einstaklinga þegar stöðugt er talað um mömmu og pabba við þau, um það hvernig það er að vera með annan húðlit en meginstraumurinn eða annan menningarbakgrunn. Sögurnar um öráreitið og jaðarsetningu eru endalausar.

______________

Sumir einstaklingar eru svo lánsamir að búa við óskert frelsi. Rekast aldrei á þessa þröskulda. Finna aldrei fyrir öráreiti. Á meðan aðrir búa við mismunun á grundvelli ólíkra þátta. Það er alveg næs að þurfa ekki að vera á varðbergi á djamminu, það er alveg næs að þurfa ekkert að huga að öryggi sínu áður en utanlandsferð er bókuð, að fara á tónleika með uppáhaldshljómsveitinni, að komast á ráðstefnu og fá að tilheyra. Óhindrað og óhikað. Þegar jaðarsettir hópar heyja sína baráttu eða biðja um að fá pláss í samfélaginu þá er það nefnilega bara það. Fólk langar bara í frelsi – og þá sama frelsi og hinir. Ekki meira. Bara það sama. Þess vegna hvet ég fólk sem heldur á þessu sjálfsagða frelsi og gengur óhindrað inn í rými að líta sér nær áður en það úthrópar baráttu þessara hópa – sem stöðugt rekast á veggi eða þröskulda – sem stórt vandamál eða gríðarlega ógn í samfélaginu. Í því felst mikil ábyrgð og forréttindablinda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Þéttum raðirnar í Evrópu!

Thomas Möller skrifar: Þéttum raðirnar í Evrópu!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Vegprestur með neyðarsjóð

Svarthöfði skrifar: Vegprestur með neyðarsjóð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Enn og aftur um bókun 35 og forgang EES-reglna

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Enn og aftur um bókun 35 og forgang EES-reglna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Hrægammarnir í bankakerfinu – græðgi á kostnað almennings

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Hrægammarnir í bankakerfinu – græðgi á kostnað almennings
EyjanFastir pennar
09.02.2025

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin
Ekki missa afEyjanFastir pennar
08.02.2025

Sigmundur Ernir: Bláa viðvörunin yfir landinu

Sigmundur Ernir: Bláa viðvörunin yfir landinu
EyjanFastir pennar
01.02.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti
EyjanFastir pennar
01.02.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Handboltaharmur

Óttar Guðmundsson skrifar: Handboltaharmur