Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Treble Technologies hefur hlotið viðurkenningu sem fremsta sprotafyrirtækið á Norðurlöndum í að stuðla að heilbrigðari og sjálfbærari byggðu umhverfi með sigri sínum í flokki Healthy and Sustainable Buildings á Nordic PropTech Awards 2025, sem fram fór í Kaupmannahöfn á dögunum.
„Að fá þessa viðurkenningu er gríðarlegur heiður og staðfestir mikilvægi starfs okkar,“ segir Finnur Pind, framkvæmdastjóri og stofnandi Treble Technologies. „Góð hljóðvist og vönduð hljóðhönnun hafa jákvæð áhrif á heilsu, vellíðan, framleiðni og mannleg samskipti. Á hinn bóginn er hávaði og léleg hljóðvist eitt stærsta umhverfisvandamál samtímans, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir til að mynda hávaða sem næst skæðustu umhverfisáhrifin á heilsu manna.“
Treble þróar hátæknilegan hljóðhermunarhugbúnað sem gerir hönnuðum, arkitektum og framleiðendum kleift að bæta hljóðvist í byggingum, vörum og farartækjum. Meðal viðskiptavina Treble eru nokkur af stærstu tæknifyrirtækjum heims.
Auk þess að hljóta Nordic PropTech Awards var Treble nýverið valið Besta sprotafyrirtækið 2025 á UTmessunni, stærstu upplýsingatækniráðstefnu Íslands, sem fór fram í Hörpu í febrúar. Þessi viðurkenning undirstrikar mikilvægi nýsköpunar Treble og áhrif þess á íslenskt og alþjóðlegt viðskiptalíf.
Á síðasta ári lauk Treble við 11 milljóna evra fjármögnun (jafnvirði 1,7 milljarða íslenskra króna), sem verður nýtt til að fjölga starfsfólki, efla rannsóknir og þróun, og auka útbreiðslu lausna sinna á alþjóðlegum markaði.