Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir flutti að margra mati, innan og utan Sjálfstæðisflokksins, langbestu ræðuna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í byrjun þessa mánaðar. Hún hafi talað um stöðuna í alþjóðamálum af meira raunsæi en t.d. báðir formannsframbjóðendurnir. Hún segist ekki á útleið og vonast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn muni fyrir hvað hann stendur og taki stöðu sína alvarlega. Þórdís Kolbrún er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Klippa 6:
Eyjan - Þórdís - 6
Þú ert búin að vera ráðherra lengi, þú ert búin að vera varaformaður flokksins. Það eru margir sem ég hef rætt við sem sögðu: Ja, asskotinn að hún skyldi ekki vera að bjóða sig fram til formanns. Þessi manneskja hefði átt að vera formaður Sjálfstæðisflokksins. Það kvað dálítið við annan tón hjá þér en hjá öðrum á landsfundinum. Engin eftirsjá hjá þér að hafa ekki bara látið slag standa?
„Nei, það er það ekki. Auðvitað var þetta skrítinn landsfundur fyrir mig, ég var búin að sjá fyrir mér að ég myndi bjóða fram krafta mína þegar Bjarni Benediktsson myndi hætta sem formaður. Ég er ekki ósammála því mati, annars hefði ég ekki ætlað að bjóða fram krafta mína nema ég væri sjálf þeirrar skoðunar að það væri gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn og stjórnmálin og fyrir Ísland að ég myndi leiða Sjálfstæðisflokkinn. En það er ekki eftirsjá að því að hafa ekki boðið mig fram.“
Þórdís Kolbrún bendir á að hún er áfram í stjórnmálum. „Ég er þingmaður í utanríkismálanefnd, í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég er með alla þessa reynslu sem á nýju þingi er ansi mikil, þessi ráðherrareynsla, ég hef verið ráðherra tíu prósent af lýðveldistíma Íslands. Þetta er alltaf bara spurning um viðhorf og ákvörðun. Það fylgir meira frelsi þessari stöðu sem ég er í núna og það að vera ekki í forystu það breytir því líka. Ég er liðsmaður í mínum flokki, ég er bara í liði með Íslandi og ég er áfram með þennan platform á þingi hér heima og síðan þetta hlutverk hjá Evrópuráðinu varðandi stöðu úkraínskra barna. Maður getur verið með svona aðeins fleiri hatta.“
Ertu á leiðinni út?
„Nei, ég er ekki á leiðinni út. Það eru margir sem halda það og það eru margir sem spyrja. Nei, ég er ekki að skipuleggja neina brottför. maður er náttúrlega búinn að vera í miklu harki í átta ár og þetta er svona annar taktur og mér finnst ég aðeins hafa náð að endurstilla orkuna, maður hefur meiri tíma til að hugsa, lesa, skrifa og mér líður eiginlega bara vel í þessu flæði og einhvers konar óvissu – þó ekki algerri óvissu – mér finnst það bara dálítið í takt við það sem er að gerast. Ég lít bara svo á að ég er bara hér til þess að þjóna mínu landi og vera talsmaður ákveðins málstaðar og ég ætla bara að gefa það út í kosmosið að það er mitt hlutverk og svo bara treysti ég því að það kemur svo aðeins í ljós hvernig ég sinni því síðan sem best.“
Hún bendir á að hún er ekki nema 37 ára þannig að það sé algerlega opið hvað muni gerast í framtíðinni.
37 ára. Það er ekkert voðalega langt síðan að menn voru bara varla farnir að íhuga þingframboð á þeim aldri.
„Nei, nei,“ segir hún og hlær, „þetta er langur tími og ég var auðvitað mjög ung þegar ég byrjaði en ég mun allavega gera mitt bæði innan flokks og í samfélaginu til að við séum með augun á boltanum og séum rétt stillt. Ég verð bara að vona að Sjálfstæðisflokkurinn í eðli sínu muni fyrir hvað hann stendur og taki stöðu sína alvarlega.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.