Á vefnum er heit kartafla skilgreind sem „umdeilt efni sem enginn vill tala um.“
Orðasambandið heit kartafla kemur oft upp í stjórnmálum og heitir þá „pólitísk heit kartafla.“ Ein heitasta pólitíska kartaflan í dag er væntanleg ESB aðild Íslands.
Ríkisstjórnin er sammála um að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður fari fram ekki seinna en árið 2027. Meirihluti landsmanna er hlynntur fullri aðild samkvæmt nýlegri könnun Maskínu fyrir Evrópuhreyfinguna þannig að viðræður munu mjög líklega hefjast í kjölfarið.
Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi sagði í nýlegum pistli á netinu að „Íslenskir neytendur og heimili þurfa að fá svör frá virtum og erlendum óháðum aðilum hvort íslenska krónan sé sú sem veldur þessum þjáningum sem neytendur og heimili hafa þurft að þola nú um áratugaskeið.“
Það vekur athygli margra hvað lítið er rætt um þetta málefni í atvinnulífinu. Þó þekki ég fjölmarga stjórnendur sem telja mikinn ávinning verða af ESB aðild fyrir íslenskt atvinnulíf.
Helstu kostir aðildar fyrir fyrirtækin á Íslandi eru lægri vextir, aukinn stöðugleiki, aðgangur að styrkjum til nýsköpunar, auknar innviðafjárfestingar fjármagnaðar úr sjóðum ESB, aukin erlend fjárfesting og aukin tækifæri til útflutnings og samstarfs við evrópsk fyrirtæki.
Auk þess mun aðildin tryggja íslenskum fyrirtækjum tollfrjálsan aðgang að um 450 milljón manna markaði, auka samkeppni á banka- og tryggingamarkaði og skapa aukinn aga í hagstjórn og kjarasamningagerð þar sem möguleiki á gengisfellingu gjaldmiðilsins verður úr sögunni.
Á nýlegum ársfundum helstu samtaka í atvinnulífinu hefur lítil umræða átt sér stað um ESB aðildina. Á heimasíðum þessara samtaka er lítil umræða eða mat á kostum fullrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu fyrir atvinnulífið þrátt fyrir að aðildin sé líklega stærsta mögulega framfaraskref íslensks atvinnulífs og útflutningsstarfsemi.
Á nýliðnu þingi Samtaka Iðnaðarins hvað við nýjan tón en þar fjallaði Árni Sigurjónsson formaður um breytta heimsmynd þar sem Ísland ætti á hættu að klemmast milli stórveldanna og verða undir í samkeppninni með skelfilegum afleiðingum.
Í lok ræðu sinnar sagði Árni: „En hvað er til bragðs að taka fyrir Ísland í þessari stöðu? Ef einhver heldur að einangrunarhyggja sé svarið við þessum áskorunum, þá er mitt svar þvert á móti aukið alþjóðasamstarf sem leiðir til sterkari Evrópu.“
Jón Ásgeir Jóhannesson fjallaði um málið í síðustu viku þegar þann sagði að það sé „ekki nokkur vafi að innleiðing evru myndi auka hagsæld í landinu og gjörbreyta landslagi fyrir erlenda fjárfestingu á Íslandi.“
Í ávarpi sínu á aðalfundi Skeljar árið 2023 sagði Jón Ásgeir að íslenska krónan sé „versti óvinur atvinnulífsins og fólksins í landinu.“ Hún sé ástæðan fyrir því að fjárfesting erlendra aðila á Íslandi sé mun minni en á hinum Norðurlöndunum.
Seðlabankinn er búinn að kanna málið og hefur í ítarlegri skýrslu um gjaldmiðlamál sagt að rannsóknir á áhrif aðildar Íslands að evrusvæðinu bendi til þess að umfang utanríkisviðskipta gæti aukist um allt að 40%.
Skuldir atvinnulífsins eru um 3000 milljarðar króna. Hluti þessara skulda er í erlendum gjaldmiðli en þrátt fyrir það þurfa öll íslensk fyrirtæki að greiða hærri vexti og áhættuálag en ef evran væri notuð hér á landi.
Heildarkostnaður atvinnulífsins í formi hærri vaxta vegna krónunnar nemur líklega um 160 milljörðum króna á ári sem kemur fram í hærra verði á vörum og þjónustu til heimilanna í landinu og verri samkeppnisstöðu atvinnulífsins.
Skoðanakönnun meðal frumkvöðla sýndi að um 73% þeirra telja krónuna vera hindrun í nýsköpun. Sjávarútvegurinn og fiskeldið munu fá fullt tollfrelsi á fullunnum afurðum á mörkuðum Evrópu með ESB aðild.
Svona mætti lengi telja um kosti aðildar fyrir atvinnulífið.
Með hliðsjón af mikilvægi núverandi Evrópusamvinnu Íslands gegnum EES samninginn og til að meta ávinning og hugsanlega galla af fullri aðild hvet ég stjórnendur og samtökin í atvinnulífinu til að taka virkari þátt í umræðunni um væntalega aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Allir hagaðilar á Íslandi þurfa að hefja umræðu og undirbúning að ESB aðildinni strax svo að kostir hennar nýtist sem best þegar að henni kemur.
Samtök atvinnulífs og launþega í ESB löndum hafa flest sýnt ábyrgð og frumkvæði í greiningum, umræðu og stefnumörkun á þessu sviði. Íslensk samtök mega ekki verða eftirbátar þeirra.
Það vantar að mínu mati vandaða og faglega umræðu um ESB málin hér á landi hjá atvinnulífinu, launþegahreyfingunni, háskólasamfélaginu og almenningi.
ESB aðildin má ekki lengur vera heitasta kartaflan á Íslandi!