fbpx
Þriðjudagur 11.mars 2025
Eyjan

Furðar sig á hræsni Sjálfstæðismanna í ljósi sögunnar – „Getur verið að Hildur vilji bara sjálf fá þessi embætti?“

Eyjan
Mánudaginn 10. mars 2025 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Launakjör Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarstjóra, hafa valdið nokkru fjaðrafoki undanfarið, en hún nýtur bæði launa sem borgarstjóri sem og sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks, Hildur Björnsdóttir, hefur kallað eftir því að Heiða Björg segi af sér formennsku í SÍS þar sem ótækt sé að sinna starfinu úr borgarstjórastól. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, segir þessa gagnrýni koma honum spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að fyrri formenn SÍS, sem allir voru Sjálfstæðismenn, sinntu formennsku í SÍS sem bæjar- eða borgarstjórar.

Dagur og Heiða sættu sig við lægri laun

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga, bendir á að gagnrýnin á Heiðu Björgu sé mögulega ómakleg þegar heildarmyndin er tekin til skoðunar.

Hann rekur í færslu á Facebook að launakjör borgarstjóra hafi haldist stöðug um árabil. Heiða Björg njóti sömu kjara og Einar Þorsteinsson fyrirrennari hennar samdi um fyrir ekki svo löngu síðar, uppfærð með tilliti til launavísitölu, sem séu svo sömu kjör og Dagur B. Eggertsson hafði sem þó lét lækka laun sín, án heimildar til slíks, árið 2016 um heilar 500 þúsund krónur.

Guðmundur bendir á að formennska í Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hafi undanfarna áratugi verið í höndum einstaklinga sem samhliða hafa gegnt öðrum sveitarstjórnarstörfum. Heiða Björg tók við formennsku árið 2022 og voru laun hennar þá lægri en fyrri formaður hafði. „Voru 651 þúsund krónur áður en þau voru lækkuð í 581 þúsund af ótilgreindum ástæðum.“

Ákvað ekki eigin laun

Árið 2023 voru svo gerðar breytingar á launum í stjórn SÍS þegar fundum og verkefnum var fjölgað. Laun stjórnar voru tvöfölduð og laun formanns ákveðin sem hlutfall af þingfarakaupi ásamt akstursgreiðslum.

„Þessi breyting endurspeglar nýja ábyrgð og fjölgun verkefna. Heiða ákveður ekki sín eigin laun þar heldur kjaranefnd stjórn SÍS, þar sem flestir koma úr Sjálfstæðisflokki og er Hildur Björnsdóttir XD þar á meðal í nefndinni

Hildur Björnsdóttir hefur sett fram kröfu um afsögn Heiðu úr formennsku SÍS með vísan til þess að hún geti ekki sinnt báðum störfum. Þetta vekur spurningar um stöðu fyrri formanna, sem sinnt hafa sambærilegum tvöföldum hlutverkum. Hafa þeir verið beðnir um að velja á milli staða sinna, eða eru það bara Sjálfstæðis- og Framsóknarfólk sem getur sinnt báðum störfum? Eða getur verið að Hildur vilji bara sjálf fá þessi embætti?“

Guðmundur segir umræðuna vekja upp mikilvægar spurningar um sanngirni og samræmi í meðhöndlun launamála og ábyrgðar kjörinna fulltrúa. Hvort viðmiðin séu jöfn fyrir alla óháð kyni og stöðu eða hvort tímabært sé að endurskoða hvernig laun og ábyrgð eru metin og samræmd í íslenskum stjórnmálum.

„En fyrir utan þetta þá er ég á þeirri skoðun sjálfur að laun æðstu embættismanna eiga að vera há rétt eins og dómara en það er einmitt til þess að vel hæft fólk fáist í þessi störf eins og Heiðu og til að koma í veg fyrir freistingar, eins og mútur og aðra spillingu.“

Forverar Heiðu voru bæjarstjórar og borgarstjóri

Þegar Heiða Björg tók við sem formaður SÍS árið 2022 markaði það fyrsta skiptið sem stjórnmálamaður úr öðrum flokki en Sjálfstæðisflokki fór með formennsku. Hún tók við embættinu af Aldísi Hafsteinsdóttur sem samhliða var bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.

Á undan Aldísi fór Halldór Halldórsson með formennsku. Halldór tók við árið 2006, en þá var hann bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og gegndi stöðunum samhliða til ársins 2010. Á undan Halldóri var Vilhjálmur Þ. Vilhjálsson formaður SÍS, en Vilhjálmur var formaður frá árinu 1990-2006. Samhliða var Vilhjálmur oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks og í skamman tíma borgarstjóri Reykjavíkur en á þeim tíma gegndi hann formennsku í SÍS samhliða borgarstjórastarfinu í fjóra mánuði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður