Sú stefnubreyting sem virðist orðin á utanríkisstefnu Bandaríkjanna virðist útpæld og síður en svo einungis ætluð til að tala inn í innanlandsmál í Bandaríkjunum. Við höfum notið mjög góðs af því réttarríki þjóða og heimsskipan sem Bandaríkin hafa hingað til staðið vörð um og erum af þeim sökum ríkt og sterkt samfélag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
Hér má hlusta á þennan hluta viðtalsins:
Þórdís Kolbrún
„Sagan virðist bara vera að endurtaka sig og ég eiginlega áttaði mig ekki á því fyrr en ég fór að lesa ræður og greinar Bjarna Benediktssonar eldri, þegar ég sá þennan mikla samhljóm milli þess sem ég hafði verið að segja og þess sem hann var að segja. En sannarlega erum við ekki enn þá komin á þann stað, kannski, að við sem samfélag séum raunverulega að melta og átta okkur á hvað veruleikinn er að breytast hratt. Mér finnst þó að hegðun, orðalag, ákvarðanir og hátterni núverandi forseta Bandaríkjanna hafa í rauninni hrist miklu meira upp í íslensku þjóðinni heldur en allsherjarinnrás gerði fyrir .þremur árum,“ segir Þórdís Kolbrún.
Hún segist skilja vel hverju sæti. „Þá kemur þetta nálægt okkur. Bandaríkin hafa verið okkar allra nánasti bandamaður í alla þessa áratugi. Fælingarmáttur okkar er tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin og auðvitað vera okkar í NATO en við getum verið í NATO vegna þess að við erum með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin en það hélst í hendur þegar við vorum þar stofnaðilar. Fyrir utan öll menningarleg tengsl og viðskipti og allt þetta. Bandaríkin hafa verið leiðtogi hins frjálsa heims og auðvitað myndi það hafa gríðarleg áhrif á Evrópu sem álfu og í rauninni réttarríki þjóða ef Bandaríkjastjórn ætlar raunverulega að fara af þeirri leið, En ég bara, því miður, og ég veit að það eru stór orð, ég bara því miður held að það sé stefnan og þegar fólk talar eins og þetta sé ekkert nema menn að nota stór orð og markmiðið sé kaótík til þess að tala inn í innanlandsmál í Bandaríkjunum, ég bara því miður held að það sé ekki þannig.“
Þórdís Kolbrún segist ekki sjá annað en að þetta sé útpæld strategía og vilji standi til þess að Bandaríkin gegni öðru hlutverki í réttarríki þjóða og heimsmyndinni en hingað til hefur verið og við höfum fengið að njóta góðs af. Það er ástæðan fyrir því að við erum ríkt og sterkt samfélag. En, þar er líka kerfi sem er með innbyggða temprun valds þar sem aðrir þeir sem fara þar með völd eiga að geta stoppað ákveðna hluti, hvort sem það eru dómstólar eða …“
Þar virðist vera brotalöm.
„Já, þá þurfa náttúrlega þeir sem fara með þau völd að beita þeim.“