Í inngangsorðum Norður-Atlantshafssamningsins er lýst þeim meginreglum fullveldis og frelsis, sem Atlantshafsbandalagið snýst um.
Í annarri grein sáttmálans eru svo ákvæði um friðsamleg og vinsamleg milliríkjaviðskipti og efnahagslega samvinnu. Í framkvæmd hefur sú hlið hvílt á Evrópusambandinu og EES-samningnum.
Aðildarþjóðirnar geta að sjálfsögðu deilt um ýmis efni. En rofni einingin um hugmyndafræðilega grundvöllinn og friðsamlega efnahagssamvinnu er ekkert bandalag.
Verkurinn er að framkvæmd þeirrar stefnu sem Bandaríkjastjórn kallar „Ameríka fyrst“ gengur þvert á hugmyndafræðilegar forsendur NATO og stríðir gegn ákvæðum sáttmálans um efnahagssamvinnu.
Bandaríkjastjórn hefur þegar hafið efnahagsstríð við Kanada og talar um innlimun þess. Almenningur í Kanada skynjar þetta sem ógn við fullveldi landsins. Sams konar hótunum er beint gegn Grænlandi.
Efnahagsstríð Bandaríkjanna gegn Evrópuríkjum hefst í byrjun næsta mánaðar. Tapi Evrópuríkin þessu stríði er hætt við að Evrópusambandið og evrópska efnahagssvæðið leysist upp.
Markmið Bandaríkjanna er að ráða leikreglum í viðskiptum við Evrópuríki. Taki leikreglur frumskógarins við í alþjóðaviðskiptum tapa allar þjóðir en þær minnstu mest.
Framtíð efnahags Evrópuríkja byggir í ríkum mæli á alþjóðlegu samstarfi í loftslagsmálum. Fiskistofnar við Ísland gætu til að mynda flutt sig til náist ekki árangur. Bandaríkin hafa nú hafið stríð gegn alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Ógnin er augljós.
Deila Bandaríkjanna við Evrópu um Úkraínu snýst um fullveldisréttinn.
Evrópuríkin vilja styðja Úkraínu til þess að verja fullveldið. Þar eru bæði hugsjónir og hagsmunir í húfi. Verði Úkraína leppríki Rússlands er fullveldi nokkurra aðildarríkja NATO í yfirvofandi hættu.
Bandaríkjastjórn reynir aftur á móti að þvinga Evrópuríkin til að fallast á að fórna fullveldi Úkraínu.
Tilgangurinn er tvíþættur: Annars vegar að ná viðskiptalegum árangri með því að friðmælast við Rússland. Hins vegar að skjóta fleyg á milli Rússlands og Kína.
Ríki Evrópu hafa ekki staðið andspænis jafn mikilli ógn frá lokum síðari heimstyrjaldar. Efnahagslegir og hernaðarlegir hagsmunir Evrópu og Ameríku voru eins og þétt riðið net.
Aðeins fyrir nokkrum mánuðum trúði ég ekki að það gæti trosnað. Nú er það að gerast.
Fram til þessa hefur Norður Atlantshafið verið tákn um það hvernig hnýta má saman sameiginlegar hugsjónir og hagsmuni ólíkra þjóða. Nú lýsir forseti Bandaríkjanna því sem dásamlegu tákni um aðskilnað Ameríku og Evrópu.
Þessi hamskipti í heimsmálunum hafa verið fyrir séð um nokkurn tíma. En þau eru nú framkvæmd með leiftursókn, sem kynslóðir eftir stríðsáranna hafa aldrei orðið vitni að.
Viðbrögð forystumanna helstu Evrópuríkja voru fálmkennd í byrjun. Varfærni var skiljanleg. En það gætir líka vantrúar á að Evrópa geti rönd við reist. Og vitaskuld er ekki útséð með það.
En veruleikinn er að opna augu flestra. Staðan er alvarlegri en svo að mál verði leyst með smjaðri. Evrópa þarf að mæta Bandaríkjunum með staðfestu um hugmyndafræði og meginreglur: Samstöðu um fullveldi og leikreglur í viðskiptum.
Ísland er ekki áhrifavaldur í þessum hamskiptum og verður ekki.
Ný ríkisstjórn hefur mætt þeim af varfærni en um leið með afdráttarlausri afstöðu gagnvart hugmyndafræðinni og þeim leikreglum um viðskipti, sem bandalagið hefur byggt á. Sama gildir um málflutning utanríkisráðherra fyrri ríkisstjórnar.
Þegar spurt er hvort treysta megi á varnarsamninginn hafa margir vísað til þess að landfræðileg staða Íslands sé óbreytt.
Hitt er að myndi Bandaríkin þau nánu tengsl við Rússland, sem virðast liggja í loftinu, er ekki víst að þau sjái sömu ógn í rússneskum kafbátum eins og Norðurlandaþjóðirnar.
Þótt Bandaríkin yfirgefi frelsis- og fullveldishugsjónir NATO og þær leikreglur um viðskipti, sem bandalagið byggir á, útilokar það ekki samstarf við þau.
Við áttum í miklum viðskiptum og nánum samskiptum við Sovétríkin á sínum tíma.
Aðildin að NATO gerði þau samskipti möguleg án þess að Sovétríkin gætu nýtt sér þau til áhrifa, sem ógnuðu fullveldinu. NATO var baktrygging.
Við hljótum að stefna að áframhaldandi viðskiptum við Bandaríkin. En nú kalla þau á baktryggingu Evrópuþjóða til varnar fullveldinu.