fbpx
Sunnudagur 09.mars 2025
Eyjan

Þórdís Kolbrún: Ekki að reyna að búa til nýjan Sjálfstæðisflokk – bara minna á fyrir hvað hann hefur alltaf staðið

Eyjan
Föstudaginn 7. mars 2025 16:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi vakti sérstaka athygli kveðjuræða Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, sem lét af embætti varaformanns á fundinum. Í máli sínu talaði hún tæpitungulaust um þá breytingu sem orðið hefur á stefnum Bandaríkjastjórnar í utanríkismálum og þær hættur sem sú stefnubreyting hefur í för með sér fyrir m.a. Ísland. Var hún eini forystumaður flokksins sem vék máli sínu að þeim miklu og ótrúlegu breytingum sem eru að verða á heimsmyndinni – heimsskipaninni – þessa dagana undir stjórn Donalds Trump. Þórdís Kolbrún er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify

„Orð mín gagnvart núverandi stjórnvöldum í Bandaríkjunum voru auðvitað mjög stór. Ég ætlaði að koma inn á það en ég breytti þeim kafla bara þarna að morgni, ákvað það daginn áður eftir hinn fræga, ömurlega blaðamannafund á milli Trump og Selenskí og raunar annarra, sem sagt varaforsetans og Rubio sat þarna líka …“

Það er ótrúlegt. Við sitjum hér og tölum saman á föstudegi. Það er bara vika síðan þessi fundur átti sér stað. Manni finnst einhvern veginn eins og staðan í alþjóðastjórnmálum hafi gjörbreyst …

„Hún hefur í raun gert það bara á undanförnum vikum og ég tók auðvitað þar fram og nefndi sérstaklega núverandi stjórnvöld. Mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga vegna þess að Bandaríkin allan þennan tíma og bandaríska þjóðin, þrátt fyrir að hafa kosið núverandi forseta, þá hef ég trú á Bandaríkjunum og bandarísku þjóðinni.,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún heldur áfram. „Síðan má alveg segja: Er maður að breyta um skoðun eða er maður bara veruleikatengdur? Ég hef aldrei upplifað eins hraðar breytingar á því hvernig ég horfi á heiminn eins og ég hef gert undanfarnar vikur. En manneskjan á það til, alla jafna, að ofmeta svona breytingar og áhrif til skemmri tíma en vanmeta mjög til lengri tíma. Þess vegna var ég mjög afdráttarlaus og skýr allt frá því að allsherjarinnrás Rússlands varð í Úkraínu vegna þess að manneskja í minni stöðu, sem þá var utanríkisráðherra lýðveldisins, getur ekki leyft sér að ofmeta áhrif til skemmri tíma og vanmeta þau til lengri tíma.“

Þórdís Kolbrún segist hafa áttað sig vel á því, eins og fram hafi komið í ræðu hennar á landsfundinum um síðustu helgi, að það yrði áskorun að koma því til leiðar bæði innan Sjálfstæðisflokksins og meðal þjóðarinnar. „En þú getur ekki bara sleppt því fyrir vikið. Ég hef alveg fundið fyrir því – það var ekkert ofboðslega virk hlustun til að byrja með og fólki fannst þetta – líka í mínum flokki – fannst þetta bara óþarfi: Af hverju ertu að skipta þér af þessu, erum við ekki bara hér að selja fisk? En þetta hangir bara allt saman. Þannig var mér bæði létt og ég var ótrúlega þakklát fyrir gríðarleg viðbrögð við þessari ræðu inni á landsfundi sem segir manni að þetta DNA Sjálfstæðisflokksins – það er þarna – og ástæðan fyrir því að ég t.a.m. vitna svolítið oft í Bjarna Benediktsson eldri, það er í raun til þess að tengja það að ég er ekki að berjast fyrir því að búa til nýjan Sjálfstæðisflokk. Ég er bara að minna á það fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið frá því að hann var stofnaður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Í hvaða álfu eru íslenskir flokkar?

Sigmundur Ernir skrifar: Í hvaða álfu eru íslenskir flokkar?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Formaður SÍA: Skammtímahugsun getur skemmt fyrir vörumerki til lengri tíma – snýst um sköpunarkraftinn

Formaður SÍA: Skammtímahugsun getur skemmt fyrir vörumerki til lengri tíma – snýst um sköpunarkraftinn