fbpx
Sunnudagur 09.mars 2025
Eyjan

Fyrrverandi aðstoðarmaður borgarstjóra búin að fá nóg af seinagangi í leikskólamálum – „Til þess fallið að skapa falskar væntingar og enn meiri vonbrigði þegar planið gengur ekki upp“

Eyjan
Föstudaginn 7. mars 2025 15:00

Björg Magnúsdóttir. Mynd: Saga Sig

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björg Magnúsdóttir, sjónvarpskona og aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar, fyrrverandi borgarstjóra, hvetur nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur til þess að setja leikskólamál í forgang og leita allra leiða til þess að ná árangri í málaflokknum sem hefur verið í ólestri um árabil.

Björg, sem sjálf á dreng á þriðja aldursári sem er ekki enn kominn með leikskólapláss í hverfinu, og sér hún ekki fram á að fá pláss fyrir en í fyrsta lagi næsta haust.

Í færslu á Facebook rekur Björg sína stöðu sem hún segir áþekka stöðu fjölda annarra foreldra í höfuðborginni.

Örvæntingafullir foreldrar

„Ætli við höfum ekki loggað okkur inn á Völu sirka 30 sinnum síðan á mánudaginn? Fyrir þau sem búa við þann lúxus að vita ekki hvað Vala er, þá er það umsóknarvefur Reykjavíkurborgar um leikskólapláss. Í fréttum frá borginni kemur fram að meðalaldur við inntöku í leikskóla sé nú 22 mánuðir. Það hljómar vel, að börn komist inn rétt fyrir tveggja ára aldur. Á góðu dögunum samgleðst ég innilega þeim heppnu fjölskyldum sem fá pláss á þeim tíma. Staðan hérna megin er hins vegar sú að litli prinsinn okkar, sem er orðinn 27 mánaða, er ekki kominn með leikskólapláss og samkvæmt útreikningum Völu er hann númer 25 í röðinni í leikskólann sem við völdum í fyrsta val. Staðan er enn verri í öðru og þriðja vali en þar er hann númer 31 og 54,“ segir Björg.

Hún játar það fúslega að mögulega væri sonurinn kominn með pláss í allt öðru hverfi ef allt væri undir en þau foreldarnir hafi ákveðið að einblína á sitt hverfi enda „ekki á Tetris skipulag hvers dags bætandi að keyra uppá Kjalarnes eða í Grafarvog úr 108 á morgnana og síðdegis þegar umferðin er mest til að koma drengnum fyrir.“ Segir Björg að þar spili inn í að fjölskyldan er afar heppin með „stórkostlega dagforeldra“ sem segja að ástandið í málaflokknum hafi aldrei verið eins slæmt.

„Í þessari viku hef ég rætt við marga foreldra í borginni í svipaðri stöðu og flest okkar kannast við spennitreyjuna sem fylgir biðinni. Ein móðir er að reyna að fá uppáskrifað að barnið sitt sé með bráðaofnæmi, af því það er víst ein leið til að fá forgang inná leikskóla. Aðrir foreldrar eiga í daglegu rifrildi um hvort þeirra á að stytta sinn dag og sækja barnið til dagmömmu í Kópavogi sem lokar klukkan 14. Þriðja parið flutti út í sveit þegar frúin hafði pissað á prik og það fjórða flutti til Garðabæjar þegar barnið fæddist,“ skrifar Björg.

Flókið vandamál og lausnirnar sömuleiðis flóknar

Hún bendir á að vinur hennar og þarsíðasti borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, hafi oftar en einu sinni nefnt að leikskólamálinn hafi verið sá málaflokkur sem hann hefði viljað ná meiri árangri í. Þá hafi yfirmaður hennar, Einar Þorsteinsson, sett málaflokkinn í fókus og meðal annars reynt að virkja kraft fyrirtækja á markaði.

„Á vikulegum fundum hjá honum með lykilhópi starfsfólks og pólitíkusa sem hafði mest með málaflokkinn að gera, var leitað allra leiða og lausna til að fjölga plássum. Einsog oft er með flókin vandamál, þá eru lausnirnar líka flóknar en verið var að kortleggja hvar væri hægt að setja með hraði upp færanlegar einingar til að stækka leikskóla, hraða framkvæmum sem enn eru í gangi alltof víða sem og að opna á samtal við vinnumarkaðinn um annað form á rekstri daggæslu og leikskóla en á vegum borgarinnar,“ skrifar Björg.

Bendir Björg á að rekstur leikskóla sé ekki lögbundin þjónusta þó að víðtæk og breið sátt hafi myndast um að sveitarfélög sinni þessum verkefnum.

„Hjallastefnan og leikskólar FS eru þó fín dæmi um að fleiri en sveitarfélögum gengur vel að reka þessa þjónustu. Ég man líka eftir Furuborg leikskóla Landspítalans í Fossvogi sem litla systir mín var á þegar mamma starfaði á spítalanum. Aldeilis frábært dæmi. Ég held að við öll séu meðvituð um það að fleiri vinnustaðaleikskólar leysi síður en svo upp mörg hundruð barna biðlista en þeir geta verið liður í lausninni – og bara ágætt að halda því enn á ný til haga að þeir hafa alltaf verið nefndir í sömu andrá og stækkun annarra leikskóla, viðhaldsátakið sem og nýir borgarreknir leikskólar,“ skrifar Björg.

Skuldi foreldrum raunæi og heiðarleika

Klikkir hún út með að staðreyndirnar tali einfaldlega sínu máli. Reykjavíkurborg gangi ekkert sérstaklega vel með að brúa bilið milli fæðingaorlofs og vinnu.

„Og mér finnst pólitíkusar skulda okkur foreldrum það að vera raunsæ og heiðarleg en í nýjum meirihluta sitja flokkar sem settu fram leikskóla frá 12 mánaða aldri sem kosningaloforð. Það er í besta falli jákvæðni en líklega frekar óraunsætt loforð sem er til þess fallið að skapa falskar væntingar og enn meiri vonbrigði þegar planið gengur ekki upp. Okkar strákur kemst í fyrsta lagi – og vonandi inn næsta haust – þá 33ja mánaða. Í mínum bókum er ansi langt bil á milli 12 og 33.
Ég hvet Heiðu vinkonu mína og hina oddvitana, sem stýra nú borginni, til þess að setja þessi mál í alvörunni í forgang og leita allra leiða til þess að ná árangri fyrir fjölskyldur og börn í borginni. Og ef við erum alveg heiðarlegar þá vitum við að til þess þarf meira en spretthóp og góðan vilja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Í hvaða álfu eru íslenskir flokkar?

Sigmundur Ernir skrifar: Í hvaða álfu eru íslenskir flokkar?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Formaður SÍA: Skammtímahugsun getur skemmt fyrir vörumerki til lengri tíma – snýst um sköpunarkraftinn

Formaður SÍA: Skammtímahugsun getur skemmt fyrir vörumerki til lengri tíma – snýst um sköpunarkraftinn