fbpx
Fimmtudagur 27.febrúar 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Rofið traust

Eyjan
Fimmtudaginn 27. febrúar 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég er stödd í miðri kjördæmaviku á dásamlegu hótelherbergi í Stykkishólmi þegar ég skrifa þennan pistil. Klukkan á veggnum er að nálgast miðnætti og kennarar voru rétt í þessu að skrifa undir nýjan kjarasamning. Ég finn vöfflulyktina í gegnum tölvuskjáinn á meðan ég fylgist með beinni útsendingu úr Karphúsinu og fagna með kennurum sem hafa sýnt það í verki hvað samheldni og samstaða skiptir miklu máli. Samfélagið okkar getur ekki án þessarar mikilvægu stéttar verið og það er löngu kominn tími á að virðismeta framlag kennara til samfélagsins okkar og verðmætasköpunar með réttum hætti. Við megum aldrei taka þeim sem sjálfsögðum.

Það sama má segja um aðrar starfsstéttir. Hvort sem um er að ræða innan heilbrigðis- eða velferðarþjónustunnar, innan löggæslunnar eða okkar helstu atvinnuvegum á sjó og í landi. Allt eru þar manneskjur sem skapa verðmæti, hlúa að fólkinu okkar og eru virkir þátttakendur í því að láta samfélagið okkar ganga upp. Ég hef skynjað það á síðustu árum að það má ekki mikið út af bregða. Traust þessara atvinnugreina til stjórnmálanna er sorglega lítið. Varnarstaðan er mikil og eðlilega komin mikil þreyta í fólk sem stöðugt stendur frammi fyrir kjörnum fulltrúum til þess að réttlæta tilverugrundvöll sinn.

Það sem sameinar

Ég hef fundið fyrir þessari þreytu í yfirstandandi kjördæmaviku þegar við þingmenn Viðreisnar höfum átt dýrmæt samtöl við sveitarstjórnarfólk, heilbrigðisstarfsfólk, bændur, sjómenn, starfsfólk Vegagerðarinnar, vöruflutningamenn, ferðaþjónustuaðila og kennara svo dæmi séu tekin.

Sama hvert við förum má heyra sama tóninn. Vantraust á stjórnvöldum, á stofnunum hins opinbera, gagnvart fjölmiðlum – og jafnvel gagnvart hvert öðru. Milli landshluta og innan landshluta. Ég velti því fyrir mér hvernig við enduðum á þessum stað? Og það sem ég hef enn meiri áhuga á að finna út úr – er hvernig við komumst upp úr þessum hjólförum. Hvernig við náum að sporna við þeim skotgröfum sem umræða um landbúnað, sjávarútveg, samgöngur, innviði, menntamál, heilbrigðismál og löggæslumál eru föst í? Hvernig getum við farið að einblína frekar á það sem sameinar okkur en það sem sundrar?

Stöðug varnarbarátta landsbyggðarinnar

Getur verið að hluti af svarinu liggi í því að saga landsbyggðarinnar er saga stöðugrar varnarbaráttu. Þar sem grunnatvinnuvegirnir eru undir stöðugri óvissu. Afkomuótti, óöryggi og skortur á grundvallarinnviðum stendur uppbyggingu fyrir þrifum. Það virðist vera að fyrri ríkisstjórnir hafi markvisst skilið eftir sviðna jörð. Í litlu samfélagi eins og okkar ríkir oft mikil fegurð. Samheldni og samstaða. En á sama tíma ákveðin innbyggð tortryggni. Við sem þjóð höfum sannarlega reynt ýmislegt á eigin skinni sem með réttu ýtir undir þessa tortryggni. Hrunið, pólitísk spillingarmál, fjármálamisferli og ákvarðanir sem hafa vakið tortryggni. Afleiðingin er sú að almenningur hefur lært að efast. Spyrja sig: Hver græðir á þessu? Hverjir taka raunverulega ákvarðanirnar? Hver ber ábyrgð?

Það fyrsta sem við verðum að gera er að viðurkenna þetta. Við verðum að tala um það af hreinskilni og án þess að vera í stöðugri vörn. Við verðum að átta okkur á því að traust verður ekki byggt upp með yfirlýsingum eða fallegum orðum. Það verður byggt upp með gjörðum. Með því að sýna fram á gagnsæi, ábyrgð og samvinnu. Það verður byggt upp þegar stjórnvöld standa við orð sín. Þegar fyrirtæki setja manneskjuna í forgang. Þegar við sjálf tökum skref í átt að opnari umræðu og gefum fólki tækifæri til að sýna að það sé traustsins vert.

Við þurfum öflugra samtal milli almennings og stjórnvalda, þar sem báðir aðilar hlusta raunverulega og bregðast við ábendingum. Við eigum að efla menningu gagnsæis í fyrirtækjum og stofnunum, svo fólk viti hver tekur ákvarðanir og af hverju. Við þurfum að hlúa að samfélagslegri samstöðu í stað þess að ýta undir tortryggni.

Svo skulum við muna eitt: Flest sem starfa í stjórnmálum, stjórnkerfinu, atvinnulífinu og fjölmiðlum vilja í grunninn gera gott. Við erum ekki óvinir hver annars. Við eigum sameiginlegt verkefni í að byggja samfélagið upp þannig að það þjóni okkur öllum. Það er engin ástæða til að við treystum ekki hvert öðru – en það krefst vinnu. Og sú vinna byrjar á okkur sjálfum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Verum viðbúin!

Thomas Möller skrifar: Verum viðbúin!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin

Björn Jón skrifar: Nýja hægri róttæknin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að eiga sæti við borðið

Björn Jón skrifar: Að eiga sæti við borðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti
EyjanFastir pennar
25.01.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Nú verður skákað í skjóli Trumps

Sigmundur Ernir skrifar: Nú verður skákað í skjóli Trumps
EyjanFastir pennar
25.01.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur