fbpx
Sunnudagur 23.febrúar 2025
Eyjan

Guðrún Hafsteinsdóttir: Sjálfstæðisflokkurinn hefur glatað trausti og fjarlægst grunngildi sín – fólk vill ekki kjósa hann

Eyjan
Laugardaginn 22. febrúar 2025 15:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki aðeins glatað talsambandinu við kjósendur sína, hann hefur glatað trausti og fjarlægst grunngildi sín. Fólk vill ekki kjósa flokkinn. Verkefni næsta formanns verður að endurvinna traustið. Segja má að flokkurinn hafi afsalað sér forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum, hann er í aftursætinu en ekki bílstjórasætinu og kemur ekkert nálægt því að stjórna landinu. EES-samningurinn er verðmætasti viðskiptasamningur í sögu þjóðarinnar og án hans gætum við trauðla mannað þau störf sem þarf að manna hér á landi. Guðrún Hafsteinsdóttir er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

„Ég sagði í ræðu minni á flokksráðsfundi flokksins í haust að það væri hættulegt öllum stjórnmálaöflum að missa sjónar á grunngildum sínum og missa tengslin við grasrótina. Á vissan hátt held ég að það hafi gerst. En það er rétt sem þú segir, það er ekki bara talsamband sem við höfum misst. Ég held að við höfum bara hreinlega tapað trausti og ef það er eitthvað sem er dýrmætt í pólitík þá er það traust. Ég tel að það verði eitt af stærstu verkefnum þess sem verður kjörinn formaður á þessum landsfundi að endurbyggja traust til flokksins því að réttilega, eins og þú segir, við erum í vanda stödd. Við fengum verstu niðurstöðu í sögu flokksins í síðustu kosningum, stuðningur við flokkinn hefur aldrei farið niður fyrir 20 prósent.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify

Guðrún segir að við þessar aðstæður verði Sjálfstæðismenn einfaldlega að horfast í augu við það að fólk vilji ekki kjósa flokkinn. „Ef fólk vill ekki kjósa okkur þá tel ég að það hafi brotnað úr trausti og, jú, hugsanlega hefur líka einhvern veginn trosnað þráður í því sem þú nefnir hér talsamband við hinn almenna flokksmann. En ég er líka á þeirri skoðun að við höfum fjarlægst grunngildi flokksins og það tel ég líka varhugavert. Núna eru við bara með, á margan hátt, stórkostlegt tækifæri fyrir framan okkur. Við getum núna kosið, tekið ákvörðun um það: Ætlum við að halda áfram eins og ekkert sé? Ætlum við að gera bara meira af því sama, vona það besta og taka upp hina íslensku möntru, þetta reddast? Eða ætlum við að stíga skref til baka og horfa inn á við og spyrja okkur að því: Höfum við gengið götuna til góðs á síðustu árum? Því að fólk vill ekki kjósa okkur.“

Á síðustu öld var Sjálfstæðisflokkurinn í fararbroddi þegar kom að því að efla þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. Nefna má NATÓ, EFTA og líka EES. Á þessari öld hefur kveðið mjög við annan tón og flokkurinn í raun kominn í hóp þeirra sem vilja takmarka þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. Ég er auðvitað að vísa til afstöðunnar til aðildar að ESB. Viðreisn varð til þegar flokkurinn sveik skýrt loforð um að þjóðin fengi að ákveða næstu skrefi varðandi aðild. Svo hefur flokkurinn misst fólk í hina áttina, til Miðflokksins. Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn hafa afsalað sér forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum. hvað finnst þér?

„Alla vega er það staðan núna. Við erum ekki í forystu. Við erum ekki lengur í bílstjórasætinu, við erum í aftursætinu. Við erum ekki að stýra landinu og komum ekkert nálægt því. Þá geturðu alveg sagt að við höfum afsalað okkur einhverju forystuhlutverki. En ég get ekki tekið undir hjá þér að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið frá einhverri stefnu, hann hefur verið mjög sterkur varðandi alþjóðamál. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf viljað vera framsækinn flokkur sem leggur áherslu á góð og náin samskipti við löndin í kringum okkur, byggja upp góða viðskiptasamninga o.s.frv. Það mun ég leggja áherslu á hér eftir sem hingað til. Þú nefnir hér EES-samninginn en Sjálfstæðisflokkurinn átti ríkan þátt í því að hann var tekinn upp hér og gerður. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé verðmætasti viðskiptasamningur sem við Íslendingar höfum gert og ég mun standa vörð um þann samning enda hefur hann opnað fyrir okkur Íslendingum 450 milljóna manna markað. Við beygjum okkur undir fjórfrelsið þannig að vara, þjónusta, fjármagn og fólk geti farið hér auðveldlega á milli ríkjanna. Í því sambandi vil ég benda á það að nú hér á landi eru um 80 þúsund erlendir ríkisborgarar og langstærsti hluti þeirra er hér í þeim erindagjörðum að vinna. Við þurfum á vinnuafli að halda og við mundum trauðla getað mannað þau störf sem við þurfum ef við værum ekki hluti af þessum samningi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af