fbpx
Laugardagur 22.febrúar 2025
Eyjan

Guðrún Hafsteinsdóttir: Nú hefur flokkurinn sem kennir sig við atvinnulífið tækifæri til að kjósa sér formann úr atvinnulífinu

Eyjan
Föstudaginn 21. febrúar 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðismenn eiga þess nú kost að kjósa formann úr landsbyggðarkjördæmi, manneskju sem hefur alið manninn í atvinnulífinu alla sína ævi, manneskju sem hefur staðið frammi fyrir því að þurfa að borga starfsfólki laun og eiga ekki fyrir þeim, manneskju sem hefur þurft að skrapa saman til að eiga fyrir tryggingagjaldinu um mánaðamót. Guðrún Hafsteinsdóttir, formannsframbjóðandi í Sjálfstæðisflokknum er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Eftir viku kjósa Sjálfstæðismenn nýjan formann. Af hverju eiga landsfundarfulltrúar að kjósa þig en ekki Áslaugu Örnu?

„Ég tel að það séu nokkrar góðar ástæður fyrir því. Fyrir það fyrsta þá er ég ekki búin að vera lengi á þingi. Ég er búin að sitja á þingi í rúmlega þrjú ár, var kjörin á þing í lok september 2021. Það hefur verið mér mjög dýrmæt reynsla, bæði að vera óbreyttur þingmaður en ekki síður að fá tækifæri til þess að vera í ríkisstjórn, ráðherra. Ég hef lifað og hrærst í ýmsum störfum alla ævi, hef verið í atvinnulífinu nánast alla ævi því að ég fæðist inn í fjölskyldufyrirtæki þar sem allt lífið umhverfist um það frá morgni til kvölds, og á næturnar líka, alla daga ársins.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify

Guðrún segist hafa verið í þeirri stöðu að þurfa að borga fólki laun og eiga ekki fyrir þeim. Hún hafi líka verið í þeirri stöðu að þurfa að skrapa saman tryggingagjaldi sem atvinnurekendur kvarta alltaf yfir að sé of hátt og var hækkað verulega hér af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til að mæta auknu atvinnuleysi og átt síðan að lækka með falli í atvinnuleysi en hefur aldrei gert.

„Það mótar mann sem manneskju. Það mótar mann sem manneskju að vera með fólk í vinnu; standa jafnfætis því fólki, stétt með stétt, vegna þess að það skiptir okkur sem höfum verið í atvinnurekstri gríðarlega miklu máli að fólkið okkar, sem er að vinna með okkur, að því farnist vel og geti átt gott líf. Lífsreynsla mín, bæði úr atvinnulífinu, en ekki síður að hafa verið varaformaður Samtaka atvinnulífsins og hafa þurft að fara í gegnum kjarasamninga og líka að stýra Samtökum iðnaðarins, hafa verið um árabil í forsvari fyrir lífeyrissjóðina á Íslandi og tekið þátt í því að ávaxta fé almennings í landinu með ábyrgum hætti. Ég hef sömuleiðis setið í framkvæmdastjórn og háskólaráði Háskólans í Reykjavík í sjö ár og tekið þátt í því að móta stefnu skólans þar og hvernig hann eigi að þróast með tilliti til menntunar- og mannaflaþarfa til framtíðar. Þannig að þegar ég legg þetta allt saman þá tel ég að reynsla mín og þekking geti nýst Sjálfstæðisflokknum vel.“

Guðrún segir Sjálfstæðisflokkinn vilja kenna sig við það að hann sé tengdur atvinnulífinu og hann skilji atvinnulífið flokka best. „Í tæpri hundrað ára sögu flokksins hafa tveir formenn af níu komið úr atvinnulífinu, það eru Ólafur Thors og Geir Hallgrímsson, og núna eru félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum í kjörstöðu til þess að lifa eftir þessari trú sinni og kjósa sannarlega manneskju sem hefur verið í atvinnulífinu alla ævi. En svo vil ég líka fá að nefna að af þessum níu formönnum hefur aðeins einn formaður komið úr landsbyggðarkjördæmi og það var Þorsteinn Pálsson, sá mæti maður. Faðir minn heitinn var mikill stuðningsmaður Þorsteins Pálssonar og átti, held ég, þátt í því að Þorsteinn fór á þing. Núna geta flokksmenn mínir kosið sannarlega manneskju, ekki bara úr landsbyggðarkjördæmi, heldur sem sannarlega býr, lifir og hrærist, í landsbyggðarkjördæmi, en ég held að Þorsteinn hafi alltaf haft lögheimili sitt í Reykjavík.“

Hún segist telja Sjálfstæðismenn vera í kjörstöðu til að stíga inn í nýja framtíð, inn í nýja tíma. „Ég mun leggja hart að mér til að flokkurinn verði aftur sú breiðfylking sem hann var, flokkur allra stétta, stétt með stétt, og flokkur sem mun vinna að því að láta vinda frelsis leika um íslenskt samfélag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Ást er allt sem þarf

Steinunn Ólína skrifar: Ást er allt sem þarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur ósátt vegna herbergjamálsins og hnýtir í Samfylkinguna – „Með eindæmum lítilmannlegt“

Hildur ósátt vegna herbergjamálsins og hnýtir í Samfylkinguna – „Með eindæmum lítilmannlegt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór: Gímaldið er stærðar kjötvinnsla en ekki lítill skúr – hvernig gat þetta gerst?

Guðlaugur Þór: Gímaldið er stærðar kjötvinnsla en ekki lítill skúr – hvernig gat þetta gerst?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fimm flokkar hefja formlegar viðræður

Fimm flokkar hefja formlegar viðræður