fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
EyjanFastir pennar

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Hrægammarnir í bankakerfinu – græðgi á kostnað almennings

Eyjan
Fimmtudaginn 20. febrúar 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bankasamruni eða meiri græðgi?

Hugmyndir Arion banka um sameiningu við Íslandsbanka eru ekkert annað en tilraun til að auka hagnað bankanna á kostnað almennings. Þrátt fyrir fullyrðingar bankastjóranna um að slíkur samruni myndi skila neytendum ávinningi bendir reynslan til hins gagnstæða. Þegar bankaskatturinn var lækkaður átti sá ávinningur að skila sér í lægri vaxtamun og þjónustugjöldum en ekkert slíkt hefur gerst. Þvert á móti hafa bankarnir haldið áfram að maka krókinn á kostnað heimila og fyrirtækja.

Arðgreiðslur banka á kostnað almennings

Á sama tíma og landsmenn glíma við hækkandi framfærslukostnað og húsnæðisverð moka bankarnir inn gróða sínum í vasa fjárfesta. Á næstu misserum munu Arion banki, Íslandsbanki og Kvika greiða hluthöfum sínum samtals 50 milljarða króna í arð. Landsbankinn hefur einnig tilkynnt að hann muni greiða 19 milljarða í arðgreiðslu, sem þýðir að samtals nema arðgreiðslur þessara fjögurra banka 69 milljörðum króna – meira en sjálfir kjarasamningarnir kostuðu! Það er galið að horfa upp á slíka fjárhæð dregna úr hagkerfinu á meðan fólk á erfitt með að ná endum saman.

Bankarnir níðast á neytendum

Fjármagnið sem bankarnir moka í eigendur sína kemur ekki úr lausu lofti. Það er rifið upp úr vösum almennings með okurvöxtum, himinháum þjónustugjöldum og gríðarlegum vaxtamun sem bankarnir græða óhikað á. Þessi staða sýnir svart á hvítu að íslenskir neytendur hafa aldrei fengið þann ávinning sem þeim var lofað þegar bankaskatturinn var lækkaður. Þvert á móti hefur þetta orðið til þess að bankarnir geta nú mokað enn stærri fjárhæðum í arðgreiðslur til fjárfesta í stað þess að lækka kostnað fyrir almenning.

Dulin skattlagning á almenning

Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, hefur á síðustu tíu árum greitt tæpa 200 milljarða króna í arð til ríkissjóðs. Þetta eru gríðarlegar upphæðir sem að stórum hluta koma úr vösum íslenskra neytenda í gegnum okurvexti og himinhá þjónustugjöld. Þetta er ekkert annað en dulin skattlagning á launafólk, heimili og almenning.

Hrægammarnir í fjármálakerfinu

Fjármálakerfið er eins og hrægammur sem svífur yfir heimilum landsmanna og steypir sér niður og læsir klónum í ráðstöfunartekjur heimilanna. Spurningin sem stendur eftir er: Ætlar ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð að láta þetta átölulaust? Hversu lengi á að leyfa bankakerfinu að mergsjúga þjóðina undir því yfirskini að þetta sé innan „eðlilegra“ arðsemismarka? Hversu lengi á að líta fram hjá þeirri staðreynd að sameining stórra banka mun aðeins auka samþjöppun á markaði, minnka samkeppni og gera almenningi enn erfiðara fyrir? Það er löngu tímabært að spyrna við fótum gegn stjórnlausri græðgi bankanna og krefjast raunverulegra breytinga á íslensku fjármálakerfi.

Kalla eftir pólitískum aðgerðum

Af hverju taka stjórnvöld ekki á þessari græðgi bankanna? Þau horfa á arðgreiðslurnar sem nauðsynlegan tekjustofn fyrir ríkið. Tekjustofn sem má líkja við blóðpeninga enda eru þeir fengnir með því að níðast á neytendum. Það er ekki hægt að réttlæta slíka skattlagningu á almenning í nafni hagvaxtar eða stöðugleika þegar allt bendir til þess að íslenska þjóðin sé látin greiða fyrir fjármálakerfi sem þjónar fyrst og fremst eigendum bankanna en ekki samfélaginu í heild.

Samfélagsbanki í stað gróðahyggju

Nú er tækifæri fyrir ríkisstjórn sem kennir sig við að standa með alþýðu þessa lands að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka þar sem arðsemi verði stillt í hóf. Almenningur á Landsbankann og því er kjörið að hann njóti þess í formi samfélagsbanka, þar sem arðgreiðslur fara til samfélagslegra umbóta fremur en fjárfesta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Að eiga sæti við borðið

Björn Jón skrifar: Að eiga sæti við borðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti

Sigmundur Ernir skrifar: Íslandsmeistaramótið í frekjukasti
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Dugleg þjóð í norðri

Thomas Möller skrifar: Dugleg þjóð í norðri
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa sjálfstæðismanna – ráðast á Flokk fólksins

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa sjálfstæðismanna – ráðast á Flokk fólksins
EyjanFastir pennar
12.01.2025

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar
EyjanFastir pennar
12.01.2025

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni