fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Hönnuð atburðarás og einkennileg framkoma Gylfa

Eyjan
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlar hafa keppst við að segja hverja flökkusöguna af annarri um Gylfa Þór Sigurðsson, fyrrum landsliðsmann í fótbolta, sem lengi var einn besti knattspyrnumaður landsins. Gylfi er 36 ára og kominn að endalokum á glæsilegum fótboltaferli sínum sem gekk vel og hnökralaust fyrir sig þar til hann lenti í afar leiðinlegum málum í Bretlandi sem leiddu til þess að hann var utan knattspyrnuvallanna í tvö ár en komst í gang að nýju síðla árs 2023 og í fyrrasumar þegar hann gekk til liðs við Val og lék 18 af 27 leikjum liðsins í efstu deild sumarið 2024. Gylfi sýndi á köflum gamla og góða takta en olli vonbrigðum þess á milli. Hann missti af níu leikjum í deildinni sem var bagalegt fyrir liðið sem veðjaði á hann og greiddi honum hæstu laun allra.

Orðið á götunni er að hér sé á ferðinni mikill stormur í vatnsglasi sem verði að stórum hluta að skrifast á okkur fjölmiðlana sem höfum fjallað um vistaskipti Gylfa eins og einhvern stórkostlegan viðburð sem félagaskipti hans eru ekki. Fjölmiðlar hafa talað um Gylfa sem besta knattspyrnumann Íslandssögunnar. Hann var að sönnu einn af þeim bestu þegar hann var upp á sitt besta á árunum 2010 til 2020. Erfitt er að bera einstaka íþróttamenn saman með þessum hætti en Gylfi var vissulega einn af þeim bestu. Engin rök eru fyrir því að telja hann fremri Ásgeiri Sigurvinssyni, Eiði Smára Guðjohnsen, Alberti Guðmundssyni eða Ríkharði Jónssyni, svo einhverjir séu nefndir.

Gylfi lék landsleiki fyrir Ísland í fyrra og haustið 2024 var hann valinn í landsliðshóp fyrir tvo landsleiki, sat á bekknum annan leikinn en kom inn á í 10 mínútur í hinum. Ætla má að með þessu hafi löngum landsliðsferil hans lokið og frekar verði byggt á ungum, frískum og alheilum leikmönnum hér eftir.

Gylfi átti nokkra mjög góða leiki með Val. Í minnum er útileikur á móti Breiðabliki sem Valur vann þrátt fyrir að vera manni færri meira en hálfan leikinn. Þá sýndi Gylfi gamla takta sem yljuðu knattspyrnuáhugamönnum. Gengi hans í leikjum var misjafnt framan af sumri en þegar líða fór á mótið átti hann við meiðsli að stríða og missti af níu leikjum í efstu deild. Hann skoraði alls 11 mörk fyrir félagið, þar af meira en helminginn úr vítaspyrnum.

Orðið á götunni er að innan raða Vals hafi verið gert ráð fyrir því að hann lyki samningstíma sínum hjá félaginu en samningur hans átti að renna út þann 16. október á þessu ári. Miðað við aldur hans hefði mátt ætla að þá lyki hann ferli sínum með sóma og í sátt við félagið sem samdi við hann þegar hann sneri aftur til Íslands í fyrra vor. En reyndin varð önnur, fjölmiðlar byrjuðu að dreifa sögum um að hann væri á förum og Hjörvar Hafliðason, sem fjallar mikið um fótbolta, sagðist hafa eftir föður Gylfa að hann ætlaði að skipta um félag. Gylfi hefur nú lýst því yfir að faðir hans hafi ekkert með ákvarðanir hans að gera. Reyndin varð samt sú að orð föðurins gengu eftir. Því er ekki að undra þótt margir telji að um hannaða atburðarás hafi verið að ræða.

Orðið á götunni er að Valsmönnum hafi komið verulega á óvart að Gylfi skyldi sýna af sér það sem þeir nefna einkennilega framkomu þegar Valur lék við ÍA á Akranesi um síðustu helgi og þeim hafi virst hann bæði kraftlaus og áhugalaus, sem sé framkoma sem sæmi ekki atvinnumanni á borð við Gylfa Þór Sigurðsson. Eftir þetta hafi aðilum þótt ljóst að tími Gylfa hjá Val væri liðinn og öllum fyrir bestu að binda enda á það.

Orðið á götunni er að Valsmenn líti svo á að félagið hafi á sínum snærum öflugan hóp leikmanna sem muni nú fá stærri hlutverk á komandi leiktíð og vilji sýna að þeir séu til alls líklegir. Brotthvarf Gylfa hafi jákvæð fjárhagsleg áhrif því að Valur seldi Gylfa fyrir 20 milljónir króna og sparar sér annað eins eða meira með því að hann er nú ekki lengur á launaskrá hjá félaginu.

Orðið á götunni er að þrátt fyrir það sem Valsmenn telja einkennilega framkomu gagnvart félaginu telji þeir fulla ástæðu til að óska Gylfa góðs gengis hjá Víkingi á komandi sumri í þeirri von að enn leynist töfrar í fótboltaskónum hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Áslaug Arna: flokkurinn missti talsamband við fólk – gleymdi launþegum, íþróttum og atvinnulífinu

Orðið á götunni: Áslaug Arna: flokkurinn missti talsamband við fólk – gleymdi launþegum, íþróttum og atvinnulífinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Borgarstjórnarviðræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Borgarstjórnarviðræður
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af
Eyjan
Fyrir 1 viku

Emmsjé Gauti ætlar ekki í pólitík – Sér sig ekki sem sameiningartákn

Emmsjé Gauti ætlar ekki í pólitík – Sér sig ekki sem sameiningartákn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dóra Björt segist tilbúin að axla ábyrgð – „Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen“

Dóra Björt segist tilbúin að axla ábyrgð – „Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen“