fbpx
Fimmtudagur 20.febrúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Hvernig verður umhorfs í Sjálfstæðisflokknum eftir landsfund? Ófriðarbál eða friður?

Eyjan
Sunnudaginn 16. febrúar 2025 18:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fátt virðist falla með Sjálfstæðisflokknum á þessum vetri. Úrslit alþingiskosninganna þann 30. nóvember voru vonbrigði og þá missti flokkurinn sess sinn sem stærsti flokkur þjóðarinnar á Alþingi. Samfylkingin hefur hrifsað forystuna af flokknum. Mynduð var ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var dæmdur til setu í stjórnarandstöðu með löskuðum Framsóknarflokki og sprækum Miðflokki. Niðurstaða kosninganna var hin lakasta í gervallri tæplega hundrað ára sögu Sjálfstæðisflokksins sem mældist með 19 prósenta fylgi. Í síðustu þingkosningum áður en Bjarni Benediktsson tók við formennsku í flokknum af Geir Haarde árið 2009 var fylgið 36 prósent þannig að niðursveiflan er mikil og sár. Enda játaði Bjarni sig sigraðan og gefur ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku í flokknum og hættir afskiptum af íslenskum stjórnmálum. Þessa dagana er flokkurinn forystulaus og bíður landsfundar og formannskosninga eftir tvær vikur.

Orðið á götunni er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið sér í baneitraða stöðu með því að þykja ekki áhugaverður kostur við stjórnarmyndun. Þetta gildir einnig í Reykjavíkurborg þar sem verið er að mynda nýjan meirihluta án þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið til greina, enda þríklofinn að sögn. Því er haldið fram að leiðtogi flokksins í borginni, Hildur Björnsdóttir, njóti einungis stuðnings Friðjóns Friðjónssonar úr hópi borgarfulltrúa flokksins. Hinir fjórir horfi annað.

Hildur var í einkaviðtali á Sprengisandi Bylgjunnar í morgun og furðaði sig á seinagangi við myndun þess meirihluta sem nú er í burðarliðnum. Það er ekki sanngjarnt að tala um seinagang þótt flokkarnir vandi til verka. Þeir ná þó saman sem er meira en tókst hjá Sjálfstæðisflokki, Framsókn og fleirum um síðustu helgi þegar fráfarandi borgarstjóri plottaði yfir sig eins og Eiríkur Bergmann orðaði það svo vel. Athygli vekur að þrír af átta flokkum í borgarstjórn hafa lýst því yfir að þeir vilji alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokki. Það skyldi þó ekki vera að þeir telji flokkinn óstjórntækan vegna innri klofnings?

Eftir hálfan mánuð mun Sjálfstæðisflokkurinn velja nýjan formann og varaformann fyrir flokkinn eftir að bæði formaður og varaformaður ákváðu að víkja eftir útreiðina í síðustu alþingiskosningum. Valið stendur á milli Guðrúnar Hafsteinsdóttur og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem báðar hafa gegnt stöðu dómsmálaráðherra á vegum flokksins. Fyrir liggur að eigendur Morgunblaðsins og sjávarútvegsauðvaldið í flokknum styður Áslaugu Örnu en stuðningur við Guðrúnu virðist koma úr öllum áttum, enda á hún að baki glæsilegan feril úti í atvinnulífinu, bæði sem stjórnandi iðnfyrirtækis en einnig sem forystumaður í atvinnulífinu. Guðrún var formaður Samtaka iðnaðarins í sex ár, stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins og einnig í framkvæmdastjórn samtakanna. Þá var hún formaður og varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna um árabil og formaður í Landssamtökum lífeyrissjóða. Enginn forystumaður úr atvinnulífinu með viðlíka reynslu og Guðrún hefur komið inn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan Geir Hallgrímsson, Albert Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson voru þar á sínum tíma.

Orðið á götunni er að hluti af vanda Sjálfstæðisflokksins sé sá að flokkurinn hefur misst tengsl sín við launþegahreyfinguna, íþróttaforystuna og atvinnulífið en nú komi Guðrún Hafsteinsdóttir sterk inn frá atvinnulífinu með margvíslega reynslu sína. Áslaug Arna tók sæti á Alþingi strax að loknu laganámi og hefur aldrei starfað úti í atvinnulífinu, ef undan eru skilin sumarstörf á námsárum.

Orðið á götunni er að nú hafi hlaupið mikil harka í formannskosningarnar og talað er um grjótharða smölun fulltrúa inn á landsfundinn. Flokkurinn hefur áður logað stafnanna á milli vegna átaka um formannsembættið og stundum hafa þau sár sem skapast hafa í þeim átökum ekki gróið árum saman. Nú er það spurningin hvort flokkurinn muni standa einhuga að baki þess frambjóðanda sem nær kjöri sem formaður eða þjást af sárum eftir átökin. Það veit enginn núna. Flokkseigendur gefa sitt ekki auðveldlega eftir og munu taka því þunglega ef Áslaug Arna nær ekki kjöri. Breiðfylkingin á bak við Guðrúnu vill sjá breytingar og sættir sig ekki við þann vandræðagang sem einkennir stöðu flokksins um þessar mundir og því verður tekist á.

Lengi var búist við því að Guðlaugur Þór Þórðarson gæfi kost á sér til formennsku en hann valdi að halda sér til hlés og leggja áherslu á að sameina flokkinn að baki nýjum formanni. Guðlaugur Þór er nú sterki maðurinn í flokknum og því mun miklu varða hvernig hann beitir sér á landsfundinum. Hulduher Guðlaugs Þórs er firnasterkur innan flokksins og getur ráðið miklu.

Þó að Guðlaugur Þór hafi ekki gefið upp afstöðu sína til formannsframbjóðendanna er eftir því tekið að margir honum nákomnir mættu á kynningarfund Guðrúnar Hafsteinsdóttur og eru taldir vera hliðhollir henni. Orðið á götunni er að hulduher Guðlaugs Þórs Þórðarsonar geti ráðið úrslitum á landsfundinum.

Orðið á götunni er að enginn geti svarað því núna er hvernig verði umhorfs í Sjálfstæðisflokknum eftir landsfundinn. Munu menn reykja friðarpípur eða horfa inn í ófriðarbál?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af