Það var ánægjulegt að verða vitni að því að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar landsmanna var að leita til almennings um sparnaðarráð í opinberum rekstri. Og það stóð ekki á svari fólksins í landinu, svo og félagasamtaka og stofnana. Þúsundir tillagna bárust, af allra handa tagi.
Þetta er vel af því að eitt mikilvægasta verkefni ríkisins hverju sinni er að fara vel með skattfé landsmanna. Í krónum talið.
En það leiðir raunar hugann að því hvað krónan kostar hagkerfið á Íslandi. Sú spurning sem á að brenna einna heitast á landsmönnum hverju sinni, á auðvitað að vera sú hvað þjóðin eyðir miklum óþarfa í veikan gjaldmiðil sinn. Og gæti sparað gríðarlega mikla fjármuni, ár frá ári, á því að taka upp sterkari og veigameiri mynt, jafnt fyrir heimili, fyrirtæki, stofnanir og ríkissjóð.
Undirstaða hvers hagkerfis er nefnilega gjaldmiðillinn. Það er jafn sterkt eða veikt og hann er.
En skoðum tölur, ritrýndar og viðurkenndar.
Viðvarandi vaxtamunur á milli evru og krónu síðastliðinn 20 ár er 4,7 prósent samkvæmt Hagvísum Seðlabanka Íslands frá því á síðasta ári. Vaxtamunur getur þó verið meiri eða minni á einstökum tímabilum, en helst þó nær alltaf í kringum tæp 5 prósent. En sláum varnagla, og miðum við 4,5 prósenta mun í samanburðinum sem hér fer á eftir, en þar er vaxtamunurinn margfaldaður með skuldum.
Og þar er af nógu að taka. Skuldir heimilanna námu 3000 milljörðum í lok árs 2022, atvinnulífið var annað eins í mínus, A-hluti ríkissjóðs skuldaði tæplega 1800 milljarða og sveitarfélögin 535 milljarða króna. Skuldir annarra opinberra aðila námu svo ríflega 1500 milljörðum. Heildarskuldir voru því 9.873 milljarðar króna, að því er Seðlabankinn, Hagstofan og Fjármálaráðuneytið staðfesta.
„Engum viti bornum útlendingi dytti nokkru sinni í hug að reka hagkerfi á svo litlum, áhættusömum og dýrum gjaldmiðli.“
Ef aðeins er horft til A-hluta ríkissjóðs nema hærri vextir af krónu en evru um 80 milljörðum króna á ári, sem merkti í raun og sann samsvarandi sparnað ríkissjóðs ef hér væri evra í stað krónu. Sú upphæð jafngildir árlegum launakostnaði Landspítalans, en þar vinna 5000 manns.
Heimili og fyrirtæki innan krónunnar geta svo notað einfalda reglu til að finna sinn árlega fórnarkostnað umfram evruna, með því að margfalda 0,055% sinnum sínar skuldir. Ef 50 milljóna krónulán er tekið sem dæmi, er umframkostnaðurinn 2,3 milljónir á ári, eða sem nemur um 200 þúsund á mánuði. Er hægt að kjósa sér betri kjarabót? Eða ætlar landinn að þráast lengur við, og sætta sig öldum saman við þennan óheyrilega krónuskatt?
Og reikni hver fyrir sig.
Lítill og veikur gjaldmiðill er helsta ástæða hærri vaxta innan krónu en evru, hvort sem verðbólga er lítil eða mikil, og hvort sem halli er á fjárlögum eða ekki, en vel að merkja, krónuhagkerfi Íslands er á stærð við Bergen-svæðið í Noregi. Engum viti bornum útlendingi dytti nokkru sinni í hug að reka hagkerfi á svo litlum, áhættusömum og dýrum gjaldmiðli. Þetta er raunar staðfest með því að hvergi er hægt að skipta krónum á erlendum fjármálamörkuðum, sem í raun er árétting á því áliti erlendra ríkja að gjaldmiðilinn er hættulegur og honum er því hafnað, eins og hverju öðru rusli.
Það minnir á vísra manna ráð. Jónas H. Haralz, einn virtasti hagfræðingur Íslands á síðustu öld og fram á þá nýju, sem gegndi stöðu Landsbankastjóra frá 1969 til 1988, skrifaði vorið 2009, þremur árum fyrir andlát sitt. „Fyrir okkur kemur evran ein til greina. Lönd í Vesturheimi geta myndað tengsl við Bandaríkjadal. Við erum í Evrópu og okkar mynt hlýtur að verða hluti af myntkerfi Evrópu.“
Og hér liggur niðurstaða ævistarfs hans fyrir.