Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki átt að endurnýja stjórnarsamstarfið með Vinstri grænum eftir kosningarnar 2021. Tafir á framgangi mála, t.d. í orkumálum og útlendingamálum, af völdum VG urðu mjög dýrkeyptar og málamiðlanirnar sem Sjálfstæðismenn þurftu að gera í stjórnarsamstarfinu fóru fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar. Honum líst vel á afstöðu nýrrar ríkisstjórnar í öryggis- og varnarmálum og hrósar ríkisstjórninni fyrir viðbrögðin við nýföllnum dómi héraðsdóms um Hvammsvirkjun.
Eyjan - Gudlaugur Thor - 4
Hvernig líst þér almennt á þessa nýju ríkisstjórn?
„Ég hef ákveðnar áhyggjur af minni gömlu vinkonu þegar kemur að Evrópumálunum, svo það sé bara algerlega sagt,“ segir Guðlaugur Þór.
Ég hugsa að við Þorgerður séum nær því að vera sammála í Evrópumálum heldur en þið Þorgerður …
„Algerlega, það liggur algerlega fyrir.“ Guðlaugur segir að sér lítist vel á það sem fram hefur komið um stefnuna í öryggis- og varnarmálum, sem séu gríðarlega mikilvæg. „Sama, og ég ætla bara að halda áfram að hrósa ríkisstjórninni, af því að ég fann nú ekki fyrir þessum stuðningi frá þessum ríkisstjórnarflokkum á síðasta kjörtímabili þegar kemur að orkumálum. Það finnst mér bara mjög mikilvægt og ég er mjög ánægður með það að menn skuli ætla að senda þau skilaboð eftir að þessi óvænti dómur kom, svo dæmi sé tekið, menn komi bara og grípi þar inni, en sömuleiðis sýnist mér – ég er búinn að fara yfir þingmálaskrána – að flest af mínum málum séu þarna á þingmálaskránni.“
En það voru nú vandræði með þann þingmeirihluta sem var að baki síðustu ríkisstjórn, og þá ríkisstjórnarflokka sem þar voru, það voru mál sem þú hefðir viljað geta keyrt áfram, náð í gegn, sem gekk ekki í þessari ríkisstjórn. Er það ekki rétt hjá mér?
„Jú, jú. Fyrsta málið mitt, það var ramminn. Hvað er ramminn? Það er bara að leyfa virkjanir. Það var fyrsta málið og mér var sagt: Það er ekki hægt að koma þessu í gegn, það hefur ekki verið hægt að koma þessu í gegn í níu ár. En þetta fór í gegn. Að vísu ekki með atkvæðum Viðreisnar, Flokks fólksins og Samfylkingarinnar. En það fór í gegn. Sömuleiðis einföldunarfrumvarp sem enginn veit af, en nú er verið að stækka fullt af virkjunum – mörg hundruð megavött sem eru í pípunum bara í stækkunum.“
Það eru mjög góðir kostir. Þetta eru umhverfisvænstu kostirnir og hagkvæmustu kostirnir …
„Já, en þú þurftir að fara í gegnum allan þennan mikla feril rammans áður. Það var bara einn áfangi rammans – þú kemur alltaf með áfanga inn í þingið – sem bara þurrkaðist út, þeir gátu ekki gert það lengur þegar þetta frumvarp fór í gegn. En, svo það sé sagt þá greiddu núverandi ríkisstjórnarflokkar atkvæði með því.“
Guðlaugur Þór segir aldrei hafa verið unnið eins hratt í rammanum og á síðasta kjörtímabili, hann eigi að gera á fjögurra ára fresti en níu ár hafi liðið þangað til hann og síðasta ríkisstjórn kom honum í gegn. Síðan séu komnir tveir í viðbót sem séu tilbúnir. „Einn var fastur. Það er svona tæplega ár síðan ég kom með hann inn í ríkisstjórn og Vinstri grænir sátu á því, illu heilli. Svo voru ýmis mál, eins og orkuöryggismálin, sem fóru ekki í gegn, ég fór með þau inn í þingið en ég veit ekki af hverju þau fóru ekki í gegn.“
Hefði ekki Sjálfstæðisflokkurinn bara þurft að slíta þessu stjórnarsamstarfi miklu fyrr? Var þetta ekki bara óþolandi kyrrstaða?
„Auðvitað var það þannig að við áttum ekki að fara í seinna kjörtímabilið. Það var ekkert annað að gera í fyrra en við áttum ekki að fara í seinna. Maður hefur áhyggjur af því, það má alveg segja að á Covid-tímanum var svolítið stríðsástand, eins konar þjóðstjórn…“
Jú, jú, pólitíkin var bara sett til hliðar …
„Jú, jú, en það var líka þannig að það var búið að reyna allt annað, þú manst að ríkisstjórnin sprakk þarna og allt það, þannig að það voru kannski ekki aðrir valkostir.“ Guðlaugur Þór segir það samt hafa legið fyrir frá upphafi að þarna var um að ræða gríðarlega ólíka flokka. Hann segir þó margt gott hafa verið gert í tíð fyrri ríkisstjórnar, hvort sem litið sé til orkumála eða annarra mála. „Meira að segja í útlendingamálunum þó að það hafi tekið allt of langan tíma, og var stoppað í rauninni í samstarfinu, og það var okkur dýrkeypt. Málamiðlanirnar voru eitthvað sem fór fyrir brjóstið á stuðningsfólki okkar.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.