fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn veiddur í gildru – situr uppi með Svarta-Pétur

Eyjan
Laugardaginn 8. febrúar 2025 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fáum duldist að væringar voru innan meirihlutans í Reykjavík, sem nú er fallinn, en orðið á götunni er að engu að síður hafi það komið flestum mjög á óvart þegar Einar Þorsteinsson, fráfarandi borgarstjóri, tilkynnti í gærkvöldi að hann hefði slitið meirihlutasamstarfinu. Flestir eiga erfitt með að koma auga á það stórmál sem skyndilega hefur breyst svo mjög að kalla á slíkt. Talað er um hannaða atburðarás.

Einar borgarstjóri bauð Sjálfstæðismönnum, Viðreisn og Flokki fólksins til viðræðna um myndun nýs meirihluta og munu þær þegar hafnar. Nýr meirihluti gæti orðið til um helgina.

Orðið á götunni er að þegar Samfylkingin í Reykjavík komst yfir mesta sjokkið yfir því að vera fyrirvaralaust hent út úr meirihlutasamstarfinu hafi ró og angurværð færst yfir mannskapinn, Jafnvel hafi verið skálað og brosað yfir þeirri atburðarás sem hafin er, hvort sem hún er sjálfsprottin eða hönnuð.

Óhætt er að segja að meirihlutanum í Reykjavík hafi gengið flest í mót síðan Einar Þorsteinsson tók við lyklunum að borgarstjóraskrifstofunni úr hendi Dags B. Eggertssonar fyrir rétt rúmu ári. Endalaust klúður með trén í Öskjuhlíðinni bendir ekki til þess að traustar hendur haldi um stýrið. Þá hefur græna gímaldið í Breiðholti orðið borginni, og þá ekki síst meirihlutanum, þungt í skauti.

Nú er rúmt ár til næstu borgarstjórnarkosninga og flokkur borgarstjóra mælist ekki inni í borgarstjórn samkvæmt skoðanakönnunum. Sjálfstæðisflokkurinn, sem fékk 17 prósent í Reykjavík í þingkosningunum í nóvember, mælist nú með ríflega 30 prósent. Orðið á götunni er að það fylgi geti flokkurinn þakkað græna gímaldinu og því forystuleysi sem borgarstjóri sýndi þegar það mál komst upp á yfirborðið.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist jafn óstjórntækur í borginni nú og hann hefur verið fram til þessa á þessu kjörtímabili. Í raun er flokkurinn þríklofinn og orðið á götunni er að Hildur Björnsdóttir, oddviti flokksins, eigi stuðning Friðjóns Friðjónssonar og ekki annarra í borgarstjórnarflokknum. Engu að síður muni aðrir borgarfulltrúar flokksins ekki sjá sér annað fært en að styðja þátttöku í meirihlutasamstarfi bjóðist það.

Orðið á götunni er að svo skammt sé til næstu kosninga að litlar sem engar líkur séu á því að það takist að bæta úr þeim klúðursmálum sem urðu föllnum meirihluta að aldurtila. Ekki verði búið að grisja Öskjuhlíðina og græna gímaldið verði áfram á sínum stað, öllum til ama.

Nógu langt sé hins vegar til kosninga til þess að kjósendur muni á kjördag hugsa þeim meirihluta sem þá situr þegjandi þörfina fyrir klúðrið. Því muni Sjálfstæðismenn sitja uppi með Svarta-Pétur gangi þeir inn í meirihlutasamstarf nú.

Orðið á götunni er að fari Sjálfstæðismenn í nýjan meirihluta með Einari Þorsteinssyni muni það festa Hildi Björnsdóttur í sessi sem oddvita flokksins þar sem flokksmenn hennar taki seint upp á því að velta úr sessi leiðtoga sem situr í meirihlutasamstarfi. Forystuvandinn hjá flokknum í borginni verði því óbreyttur. Samfylkingin fái hins vegar kærkomið tækifæri til að sleikja sárin og búa sig til nýrrar orrustu, kalla til nýtt og öflugt fólk í forystusveitina höfuðborginni, sem er eins og höfuðlaus her eftir brotthvarf Dags B. Eggertssonar úr borgarmálunum.

Orðið á götunni er að í raun sé verið að veiða Sjálfstæðisflokkinn í gildru og ef um hannaða atburðarás sé að ræða sé allsendis óvíst að sú hönnun komi úr ranni Framsóknar. Í Samfylkingunni brosi fólk yfir þeirri tilhugsun að Sjálfstæðismenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir stjórnartíð Samfylkingarinnar í kosningunum að ári

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin fær byr í seglin – Sjálfstæðisflokkurinn nötrar í aðdraganda landsfundar

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin fær byr í seglin – Sjálfstæðisflokkurinn nötrar í aðdraganda landsfundar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings
Eyjan
Fyrir 5 dögum

America First draumur Trump keyrir áfram af fullum krafti

America First draumur Trump keyrir áfram af fullum krafti
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Þingmaður Samherja vill verða varaformaður

Orðið á götunni: Þingmaður Samherja vill verða varaformaður