fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Eyjan

Guðlaugur Þór: Styrkurinn felst í umburðarlyndi gagnvart mismunandi skoðunum – flokkurinn þarf að bæta jarðsambandið

Eyjan
Laugardaginn 8. febrúar 2025 12:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðisflokkurinn var áður breiðfylking þar sem rúm var fyrir fjölda fólks með svipuð grunngildi en misjafnar skoðanir á einstökum málum. Flokkurinn hefur misst jarðsambandið og þarf að endurnýja traustið hjá hópum sem áður fylgdu flokknum að málum. Sagt er að flokkurinn tali fyrir hagsmunum þeirra sem vel geta gætt sinna eigin hagsmuna en láti þá sem eru kjarninn og hjartað í flokknum sitja á hakanum. Þetta þarf að breytast. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Hægt er að hlusta á brot úr þættinum hér:

Eyjan - Gudlaugur Thor - 1
play-sharp-fill

Eyjan - Gudlaugur Thor - 1

„Niðurstaða mín eftir að vera búinn að velta þessu fyrir mér og heyra í mörgum, þó svo að maður fyndi fyrir eindregnum stuðningi, þá höfðu menn áhyggjur af því að við gætum farið á þann stað að það væru slíkir flokkadrættir að við ættum erfitt með að vinna úr þessu í kjölfarið. Við vitum það alveg, Kolbrún Bergþórsdóttir fór því miður allt of vel yfir þetta í viðtali sem birtist á Vísi – hún er ótrúlega beittur þjóðfélagsrýnir, sérstaklega þegar kemur að pólitíkinni – og þeir sem lesa þetta viðtal átta sig á því hvað ég er að tala um. Þannig að ég hugsaði: Heyrðu, ég ólst upp í flokki þar sem línan var að enginn er stærri en flokkurinn og þegar ég tala um flokkinn þá er ég að tala um það sem flokkurinn stendur fyrir. Flokkurinn sem slíkur skiptir auðvitað engu máli, hann er tól til að ná árangri,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann bætir því við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið ansi gott tæki ansi lengi fyrir íslenska þjóð. „Við skulum bara tala um þá hluti eins og þeir eru af því að það er oft verið að skamma Sjálfstæðismenn fyrir að hafa verið lengi í ríkisstjórn, það er alveg rétt …“

Er ekki líka verið að skamma Sjálfstæðisflokkinn kannski fyrir það sem hann hefur gert í ríkisstjórn eða jafnvel ekki gert?

„Jú, en ég er að segja að stóra myndin er þessi: Saga íslensku þjóðarinnar á síðustu öld og fram á þessa er náttúrlega stórkostleg saga. Þú getur ekki sagt við neinn útlending, heyrðu þetta hefur gengið alveg hræðilega hjá okkur. Allir sem hingað koma og skoða stöðuna og sjá hvað við höfum verið að gera segja bara: Vá, hvernig fóruð þið að þessu? Það var nú reyndar þannig þegar við urðum sjálfstæð þjóð að þá voru aðrar þjóðir sem sögðu: Þið eruð allt of lítil, allt of fá, þið getið þetta ekki, það er bara fullkominn misskilningur að þið getið verið sjálfstæð.“

Guðlaugur Þór segir Sjálfstæðisflokkinn sannarlega eiga sinn þátt í þessari framfarasögu þjóðarinnar. „Áhyggjur mínar hafa verið þessar, og við getum auðvitað snúið þessu við og þá er mikilvægt að gera það, en þá þurfa allir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og ég er bara að sýna það í verki og ég vona að það verði fyrirmynd að því að við öll gerum það. Við höfum alltaf verið breiðfylking og hvað þýðir að vera breiðfylking? Það þýðir að þú ert með marga inni. Augljósir kostir, mjög mikið af fólki sem er að berjast fyrir því sem flokkurinn stendur fyrir. Gallinn er náttúrlega sá að þetta er ólíkt fólk þannig að þú sem kjörinn fulltrúi getur komið á fund hvar sem er og fólk er bara ekkert sammála þér og lætur þig jafnvel bara heyra það. Þú verður að skilja að í því felst styrkurinn, þú verður að skilja og hafa umburðarlyndi gagnvart þessu.“

Hann segir þetta ekki gerast að sjálfu sér. „Ég gekk sjálfur í Sjálfstæðisflokkinn og fannst það vera nokkuð stórt mál. Mér var hjálpað til þess af ungum Sjálfstæðismönnum á Akureyri. En þú verður alltaf að vera að sækja fólk. Þess vegna hafa áhyggjur mínar verið þessar, að fólk sem hefur alltaf verið með okkur, við höfum misst tengslin við það. Og þetta hangir saman.“

Flokkurinn hefur misst dálítið jarðsamband.

„Já, fólk talar jafnvel um það, að við séum þröngur hópur, jafnvel elítur eða eitthvað slíkt, sem er náttúrlega alls ekki eðli Sjálfstæðisflokksins. Menn tala um það að við séum að tala fyrir hagsmunum aðila sem geta bara alveg séð um það sjálfir á meðan það fólk sem er svona kjarninn og hjartað í okkur og verður að vera ef okkur á að ganga vel áfram, t.d. lítil og meðalstór fyrirtæki, og flest fyrirtæki á Íslandi, 95 prósent, eru einyrkjar eða tíu og minna. Þetta fólk hefur náttúrlega ekki mikinn tíma til að standa í hagsmunagæslu og það er mjög mikilvægt að við höfum fólk sem hefur góða tengingu við atvinnulífið, hefur upplifað á sjálfu sér mánaðamót þar sem menn þurfa að forgangsraða og hafa áhyggjur af rekstrinum. Besti skóli sem ég lenti í var þegar ég rak útvarpsstöð áður en ég fór í stjórnmál. Það tók virkilega á og varð til þess að mér fannst ég vera með mjög góðan grunn til þess að taka þátt í stjórnmálum.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin fær byr í seglin – Sjálfstæðisflokkurinn nötrar í aðdraganda landsfundar

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin fær byr í seglin – Sjálfstæðisflokkurinn nötrar í aðdraganda landsfundar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings
Eyjan
Fyrir 5 dögum

America First draumur Trump keyrir áfram af fullum krafti

America First draumur Trump keyrir áfram af fullum krafti
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Þingmaður Samherja vill verða varaformaður

Orðið á götunni: Þingmaður Samherja vill verða varaformaður
Hide picture