Þorvaldur Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG Verks, gagnrýndi stöðu mála hjá borginni hvað varðar úthlutun byggingarlóða í viðtali við Morgunblaðið í dag. Sakaði hann borgina um að nýta sér lóðarskort til að ná sér í meiri tekjur. Fyrrum þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, segir að þarna sé Þorvaldur að básúna þeirri mýtu að Reykjavíkurborg ein beri ábyrgð á húsnæðisvanda landsins. Þegar tölurnar séu skoðaðar komi þó sannleikurinn í ljós.
Björn bendir á þetta á Facebook.
„Hér er lagt upp með að ástandið sé borginni að kenna, en þegar nánar er skoðað er staðan flóknari sem er auðvitað rosalega erfitt að útskýra í fyrirsögnum … greyið fjölmiðlar að þurfa bara að skrifa það sem selur smelli.
Fyrsta myndin er með fyrirsögninni: „Borgin virðist hreinlega vera að nýta sér ástandið“ en svo kemur fram í umfjölluninni: „Við getum ekki snúið okkur til neins af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, enda getur ekkert þeirra útvegað okkur byggingarlóðir“
Það er semsagt höfuðborgarsvæðið allt sem virðist vera að nýta sér ástandið? Væri það ekki nákvæmari fyrirsögn? Jafnvel þó fyrirsögnin sé bein tilvitnun.“
Þriðja myndin sem hann deilir er svo úr nýjustu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar frá því á síðasta kjörtímabili. Þar hefur frá um 2018 verið að finna markmið um að hækka ekki framfærsluhlutfall.
„Hvað þýðir það?
Jú, framfærsluhlutfall er: „13 Hlutfallsfjöldi íbúa í aldurshópi 0–19 ára og 65 ára og eldri af fjölda í aldurshópi 20–64 ára“.“
Loks sýnir Björn Leví hvernig þessi útreikningur um framfærsluhlutfall skiptist milli landsvæða og bendir á að afleiðingin af þessari stefnu ríkisstjórnarinnar er sú að það má ekki fjölga eða fækka á einu landsvæði með tilliti til þessara aldurshópa.
Staðan á Íslandi í dag sé sú að þjóðin er að eldast og þar með séu þessi hlutföll að breytast. Það eina sem geti vegið á móti þessu er hærri fæðingartíðni eða innflutningur á fólki. Báðar leiðir séu ósjálfbærar til lengri tíma þar sem endalaus fólksfjölgun virki ekki nema Ísland ætli sér að nema meira land.
„En gerum ráð fyrir því að þetta sé bara stefna til skamms tíma – þá þýðir þetta aukning á vinnandi fólki, út um allt land. Það þýðir að það þarf að byggja út um allt land, jafnt.“
Ef horft er í gögn frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) þá sést að á höfuðborgarsvæðinu eru nú rúmlega 4 þúsund íbúðir í byggingu. Á öllum öðrum svæðum landsins eru á sama tíma samtals tæplega 2.500 íbúðir í byggingu, flestar á Suðurnesjum og Suðurlandi. Þar með eru 62,2% íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu búa um 57,8% landsmanna.
„Það þýðir að það eru fleiri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, hlutfallslega, en annars staðar á landinu. Það þýðir, ef eitthvað, að það sé verið að ganga gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Hér er því augljóslega ekki við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að sakast – mtt. til stefnu ríkisstjórnarinnar. Ef eitthvað, þá eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu duglegri en þau ættu að vera.“
Björn Leví gerir þann fyrirvara við færslu sína að þar sé gengið út frá því að vegna framfærsluhlutfalls sé verið að byggja til að viðhalda því. Það er þó hægt að byggja meira sums staðar en annars staðar og halda sama hlutfalli.
Hann tekur fram að það sé stöðugt verið að halda þeirri mýtu fram að húsnæðisvandi sé Reykjavíkurborg um að kenna. Það sé bara hreinlega þvaður. Vissulega sé vandi til staðar en þessi vandi dreifist jafnt um landið og miðað við það sem hann bendir á sé vandinn í raun meiri utan höfuðborgarsvæðisins.
„Það er búið að mata þessa mýtu um að allur húsnæðisvandinn sé borginni að kenna. Það er þvaður, eins og tölurnar sýna. Það þýðir ekki að það sé enginn vandi til staðar. Tölurnar sýna að vandinn er jafn mikill, ef ekki meiri, annars staðar. En það eru aðilar með aðgang að ansi öflugum áróðurstækjum sem finnst hentugra að beina athygli sinni að borginni en að öðrum sveitarfélögum. Þeir aðilar hafa fengið að gera það nær óáreittir (allavega bíta engin rök á áróður þeirra – hann heldur bara áfram sama hvað) og úr verða svona fyrirsagnir sem eru einfaldlega rangar. En fólk er búið að heyra þetta svo oft að því finnst það vera satt og það er rosalega erfitt að breyta því. Gögnin ættu að gera það – en það virðast ekki margir hafa áhuga á að skoða þau.“