Eftir því sem best verður séð ætla sægreifar sér að bjóða þingmann Samherja, Jens Garðar Helgason, fram sem varaformann í Sjálfstæðisflokknum takist þeim að fá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur kjörna formann flokksins. Áslaug er dóttir Sigurbjörns Magnússonar, sem gegnir formennsku hjá útgáfufélagi Morgunblaðsins í umboði Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Þannig eru áform íslenskra sægreifa þau að tryggja fulltrúum sínum forystu Sjálfstæðisflokksins á næsta landsfundi.
Orðið á götunni er að verði þetta niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins megi bóka áframhaldandi fylgistap flokksins og hann geti endað valdalaus í samfélaginu til langrar framtíðar. Gríðarlegur skjálfti er innan flokksins í aðdraganda landsfundar í lok þessa mánaðar. Þá mun Bjarni Benediktsson flytja kveðjuræðu sína og bæði hann og varaformaðurinn, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, stíga niður úr valdastólum sínum, auk þess sem Bjarni hverfur af vettvangi stjórnmálanna. Vitanlega eru það mikil tíðindi. Valið á framtíðarforystu flokksins á fundinum gæti orðið mun stærri tíðindi og afdrifaríkari.
Jens Garðar, þingmaður Samherja, hefur starfað sem stjórnandi í einu af dótturfyrirtækjum fyrirtækisins sem fæst við umdeilt sjókvíaeldi á Austfjörðum. Hann var kjörinn á þing í kosningunum 30. nóvember. Jens Garðar hefur birt einkar athyglisverðar greinar á Visi.is og í Morgunblaðinu sem ganga út á ótrúlegan aulahúmor sem vart höfðar til hugsandi fólks en er greinilega ætlaður landsfundarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins en með þessu er þeim sýnd lítilsvirðing. Orðið á götunni er að gera verði meiri kröfur til fulltrúa á landsfundi en svo að þeir falli fyrir lélegum málflutningi af þessu tagi.
Jens Garðar heldur því fram að miðjustjórn Kristrúnar Frostadóttur sé vinstristjórn. Það kemur úr hörðustu átt að þingmaður Sjálfstæðisflokksins reyni að klína vinstristimpli á nýju ríkisstjórnina, þegar flokkur hans hrökklaðist nýlega frá völdum eftir sjö ára samleið með Vinstri grænum í vinstristjórn sósíalistaleiðtogans Katrínar Jakobsdóttur. Að sönnu er „vinstri“ mikið skammaryrði í íslenskum stjórnmálum en orðið á götunni er að þeir sem eru nýlega komnir út úr slíku samstarfi ættu að spara sér steinkast úr glerhúsinu. Það hjálpar ekki.
Sjálfstæðismenn hafa átt mjög erfitt með að horfast í augu við þann nýja veruleika að þeir hafa tapað völdum á Íslandi eftir að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum án aðildar flokks þeirra. Flokksmenn virðast telja að þeim beri völdin í landinu og láta eins og völdunum. Þeir misstu völdin í lýðræðislegum kosningum og geta greinilega ekki sætt sig við það. Framganga þeirra og Morgunblaðsins er til skammar en skaðar engan nema þá sjálfa. Orðið á götunni er að ríkisstjórnarflokkunum sé slétt saman um brölt þeirra og fagni því að sjálfstæðismenn haldi áfram að skaða sjálfa sig. Eins og haft var eftir Napóleon Bónaparte: Ef andstæðingur þinn gerir mistök fyrir alla muni ekki trufla hann við þá iðju.
Orðið á götunni er að sjálfstæðismenn geti þó glaðst yfir einu. Þeir fá að vera áfram í þingflokksherbergi stærsta þingflokksins þótt þeir hafi misst þann heiðurssess í síðustu kosningum. Trúlega er það fyrsti sigur flokksins í þrjú ár! Vonandi hjálpar það sálartetri flokksforystunnar.
Orðið á götunni er að afdrifaríkustu mistök sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins gæti gert í lok þessa mánaðar sé að velja formann og varaformann sægreifanna. Kjósendur muni ekki kunna að meta það og slíkt muni einungis tryggja áframhaldandi fylgishrun flokksins. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins bíða rólegir og vonast til að trufla ekki Sjálfstæðismenn nú, þegar þeir eru uppteknir við að ganga frá sjálfum sér.