Ríkisstjórnin hyggst sitja í átta ár og þegar hefur verið tryggð gríðarleg kjarabót til öryrkja og þeirra sem verst eru staddir. Allt tal um að Flokkur fólksins hafi svikið kosningaloforðin fyrir ráðherrastóla er kjánaskapur og í raun ekkert annað en röfl þegar þingmál stjórnarinnar eru ekki komin fram. Inga Sæland, félags- og húsnæðisráðherra og formaður Flokks fólksins, er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
inga saeland 3
Nú hafa Morgunblaðið og leiðtogar stjórnarandstöðunnar beint mjög spjótum sínum að þér og Flokki fólksins. Því er haldið fram að Flokkur fólksins hafi selt sig inn í þessa ríkisstjórn, hafi svikið sín kosningaloforð. En þegar farið er að skoða hlutina þá er það ekki svo. Ef ég fer yfir stjórnarsáttmálann þá hefur Flokkur fólksins fengið mjög margt. Það er t.d. áþreifanlegt atriði, sem ég held að hafi þegar tekið gildi, að bætur til öryrkja eru framvegis tengdar við launavísitölu en ekki vísitölu neysluverðs og við vitum að launavísitalan hækkar mun meira. Svo er meira að segja sá varnagli í þessu að ef á einhverju tímabili neysluvísitalan hækkar meira en launavísitalan þá skuli neysluvísitala notuð.
„Já, þetta er stórkostleg kjarabót og allir eru að tala um 450 þúsundin, sem Inga sagði að væri grundvöllurinn fyrir því að fara í ríkisstjórn. Ég er ekki einu sinni búin að sjá hvernig þessu fallega kjörtímabili lýkur því að við ætlum náttúrlega að halda áfram að stjórna næstu átta árin, en ég segi ekki annað en það að ég held að fólk ætti að gyrða sig í brók og bíða eftir því að sjá málin koma fram. Að vera að tala um „svikin loforð“ og lélegt hitt og þetta og ómögulegt hitt og þetta, þetta er bara kjánaskapur! Hverjum dettur í hug að röfla svona þegar ekki er einu sinni búið að sýna á spilin?“ segir Inga.
Hún segir staðreyndina vera þá að verið sé að stíga gífurlega stór skref fyrir þá sem verst eru staddir í samfélaginu. „Fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins, núverandi og fráfarandi, og ég sakna þess nú að Bjarni Benediktsson skuli ekki einu sinni ætla að tukta okkur til eins og hann var búinn að heita núna í stjórnarandstöðu fram á vor. Hann sagði nú strax þegar hann sá þennan stjórnarsáttmála að það væri greinilegt að það væri allt látið eftir Flokki fólksins og hann væri að fá mest út úr þessu. Svo kemur næsti maður og segir að við séum ekki að fá neitt út úr þessu. Staðreyndin er sú að við erum öll að fá út úr þessu vegna þess að þau mörgu mál sem Flokkur fólksins setti fram, eins og t.d. aldurstengd örorkuuppbót, hún helst út lífið. Þú munt ekki missa hana við það að verða 67 ára gamall og lækka í tekjum eins og hingað til hefur verið.“
Inga segir að þangað til 450 þúsund krónurnar verði að veruleika muni ríkisstjórnin tryggja desember greiðsluna. „Þetta hefur verið kallað jólabónus, skatta- og skerðingarlaus, í desember, þrátt fyrir að almannatryggingalögin taki gildi í september, þannig að það er líka mikil kjarabót fólgin í því og við munum tryggja fólki þessa fjármuni svo lengi sem þau eru að bíða eftir 450 þúsund krónunum.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.