Grænland varð nýlenda Dana á 18du öld þegar danskir sjómenn hófu þangað siglingar. Þeir áttuðu sig á náttúruauðæfum landsins og gróðavonin rak þá áfram. Danir reyndu að kristna íbúana og sendu prestinn Hans Egede til að boða hina nýju trú. Hann leit á Grænlendinga sem stór og óþroskuð börn sem þyrftu sterka leiðsögn. Danir reyndu að ala upp Grænlendinga með góðu og illu. Þeir útrýmdu gömlum trúarbrögðum og börðust gegn tungumáli innfæddra. Nýlenduherrarnir höfðu engan skilning á grænlensku samfélagi og menningu og breyttu því með handafli með skelfilegum afleiðingum.
Skáldið Sigurður Breiðfjörð bjó í Grænlandi í 2-3 ár á 19. öld og starfaði í þjónustu Grænlandsverslunarinnar. Sigurður skrifaði bók um þessa dvöl sína og lýsir fyrirlitningu Dana á þessum Skrælingjum. Samfélagsleg upplausn í landinu leiddi til mikils alkóhólisma og um árabil var hæsta sjálfsmorðstíðni í heimi á Grænlandi. Nýlega var upplýst um skipulagðar ófrjósemisaðgerðir á grænlenskum konum á síðustu öld. Danir vildu einir ákveða hvort eða hvernig grænlensku þjóðinni fjölgaði. Á Kaupmannahafnarárum mínum kynntist ég dauðadrukknum grænlenskum ungmennum sem voru gjörsamlega týnd í tilverunni.
Mér datt þessi saga í hug á dögunum þegar Dónald Trump viðraði hugmyndir að eignast Grænland. Sármóðgaðir danskir ráðamenn sögðu að framtíð Grænlands ætti að vera í höndum Grænlendinga. Fyrir fólk sem þekkir nýlendusögu Dana eru þessi ummæli hlægileg. Grænlendingar áttu aldrei að ráða neinu í heimalandinu enda hefðu þeir ekki þroska eða greind til þess. Spurningin er hvort Grænlendingum mundi vegna verr undir handarjaðri Bandaríkjamanna en Dana. Það efa ég stórlega svo að kannski er tilboð Trumps ekki svo óhagstætt fyrir Grænlendinga. Mestu skiptir að láta væl og dyggðagrát Dana sem vind um eyrun þjóta. Það er fáránlegt að gamla, þrautpínda nýlenduþjóðin, Íslendingar skuli taka eindregna afstöðu með sínum gömlu nýlenduherrum í þessu máli.