Svarthöfði fylgist vel með umræðunni í landinu. Hann er t.a.m. einn þeirra Íslendinga sem enn lesa Morgunblaðið samviskusamlega á degi hverjum. Hermt er að þessi hópur sé ekki stór og fari auk þess óðum minnkandi.
Það hefur ekki farið fram hjá Svarthöfða að sá sem skrifar nafnlausar ritstjórnar- og skoðanagreinar í Morgunblaðið er mikill stuðningsmaður Donalds Trump sem einn Bandaríkjaforseta hefur reynt að kollvarpa stjórnkerfinu þar í landi með því að siga óðum múg á æðstu stofnun lýðræðisins er fólkið hafnaði honum í kosningum. Nú hefur Trump verið kjörinn á ný til að gegna þessu mikla embætti við mikinn fögnuð ritstjóra Morgunblaðsins, sem engum dylst að er mestur aðdáandi Trumps utan Bandaríkjanna.
Nú, þegar styttist í að Trump verði svarinn inn sem 47. forseti Bandaríkjanna virðist staksteinahöfundur Morgunblaðsins heltekinn af þeim viðburði og skrifar um fátt annað. Í pistli dagsins virðist höfundur með böggum hildar vegna þess að forseti Íslands fékk ekki boðskort í innsetningu Trumps.
Staksteinahöfundur getur ekki á sér heilum tekið vegna þess að Halla Tómasdóttir verður ekki í hópi með forsetum Kína og Argentínu og forsætisráðherrum Ungverjalands og Ítalíu á mánudaginn þegar Trump sver eiðinn öðru sinni. Greinilega þykir höfundinum mjög miður að forseti Íslands skuli ekki talinn með í hópi þeirra þjóðarleiðtoga sem í dag halda öðrum fremur uppi merki gamallar pólitíkur sem stunduð var á meginlandi Evrópu fyrir miðja síðustu öld.
Það vakti athygli Svarthöfða að staksteinahöfundur nefnir sérstaklega að Halla Tómasdóttir hafi ekki sent Trump heillaóskir þegar hann var kjörinn forseti í nóvember sl. Segir hann að eftir því hafi verið tekið og spyr svo: „Var það nú skynsamlegt, svona í ljósi þess að Trump ætlar að láta til sín taka á alþjóðavettvangi; maður sem sumir segja að sér hégómlegur?“ Gagnrýnir hann íslensk stjórnvöld fyrir værukærð gagnvart verðandi Bandaríkjaforseta.
Svarthöfði veit sem er að forseti Íslands mótar ekki stefnu Íslands, hvorki í utanríkis- né innanríkismálum. Það gerir ríkisstjórn Íslands og í nóvember á síðasta ári var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, utanríkisráðherra og mótaði utanríkisstefnu þjóðarinnar.
Svarthöfði er nógu gamall í hettunni að muna eftir dögum Kalda stríðsins. Í þá daga tíðkaðist það ekki hjá kommúnistablokkinni að segja hlutina beint út þegar gagnrýna þurfti bandamenn. Þegar Sovétmenn sáu ástæðu til að gagnrýna Kínverja beindu þeir ekki gagnrýni sinni að Kínverjum heldur skömmuðust út í Albaníu. Læsir menn á Kremlarlógíu kunnu hins vegar að lesa milli línanna. Þegar Albanía fékk skammir höfðu Kínverjar gert eitthvað sem Kremlverjum mislíkaði. Þetta var kallað Albaníuaðferðin.
Gagnrýni staksteina á Höllu Tómasdóttur er því alls ekki gagnrýni á hana. Gagnrýnin beinist gegn Þórdísi Kolbrúnu og Sjálfstæðisflokknum. Í ljósi þess að senn verður kosinn nýr formaður í Sjálfstæðisflokknum þykir Svarthöfða einsýnt að Þórdís Kolbrún er ekki óskakandídat staksteinahöfundar í það sæti.