fbpx
Föstudagur 17.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Enginn heimsendir þótt Framsókn sé í rusli – er Guðni Ágústsson ekki fósturlandsins Freyja?

Eyjan
Fimmtudaginn 16. janúar 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enn og aftur birtir Morgunblaðið furðugrein eftir Guðna Ágústsson á miðopnu við hliðina á leiðara reiða og ósátta mannsins. Það fer þá vel á því að þessi skrítnu skrif séu hlið við hlið.

Guðni á í miklu basli við að horfast í augu við þá staðreynd að flokkur hans Framsókn hefur skroppið saman úr 17 prósentum í rúmlega 7 prósent. Í liðnum kosningum tapaði flokkurinn átta þingsætum, fór úr 13 í fimm og situr nú valdalaus og rúinn trausti í stjórnarandstöðu, búinn að missa sína bestu þingmenn fyrir borð. Að sönnu er ekki bjart fram undan í Framsókn.

Orðið á götunni er að í greininni reyni hann að hengja afhroð flokksins aftan í Sjálfstæðisflokkinn þar sem hann skrifar: „Það þarf engan að undra þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi minnkað.“ Sá flokkur fór úr 24 prósentum í 19 og missti fimmtung fylgis. Framsókn hrundi og missti 55 prósent fylgis síns. Flokkur Guðna er í rusli. Sjálfstæðisflokkurinn er í öldudal og gæti rétt sig við sem er meira en unnt er að vænta af Framsókn.

Nú talar Guðni um að „tröll“ hafi tekið yfir stjórnmál í heiminum. Gerðist það nákvæmlega þegar fylgi Framsóknar hrundi? Svo talar hann um gamma sem vilji komast yfir íslenska ósnortna náttúru og vísar á sjókvíaeldi, og fiskinn í sjónum sem búið er að greiða sægreifum leiðina að. Hvenær gerðist það? Jú, í valdatíð Framsóknar. Guðni og aðrir einangrunarsinnar og harðlínumenn í flokknum hafa ekki við neinn að sakast nema sína eigin flokksmenn. Allt hið vonda sem hann tilgreinir í skrifum sínum er komið til á vakt Framsóknarflokksins.

Orðið á götunni er að vænlegast væri fyrir Guðna að hætta að væla og reyna einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir. Hann sé nú líkt og í ljóðinu „ …gamall þulur hjá græði sat, geigur var svip hans í.“ Það var enginn geigur í svip Guðna á meðan Framsókn hafði völdin í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, sósíalistaleiðtoga, í nær sjö ár. Geigurinn kom þegar völdin runnu Framsókn úr greipum.

Orðið á götunni er að Guðni gefi til kynna að einhver vond öfl vilji bændur í burtu með kýr, kindur og hesta. Hvar hefur það komið fram? Þetta er þvættingur einn. Hins vegar er Guðni sá sem hefur talað illa um menn sem hann kallaði „bankabændur“ en það eru stórhuga bændur sem sáu nauðsyn þess að stækka búin með því að auka bústofninn, hafa 100 mjólkandi kýr en ekki nokkrar beljur. Til þess þurfti að fjárfesta og taka lán. Þá stórhuga menn kallaði Guðni „bankabændur“. Framtíðin er í stórhug en ekki hokri.

Og svo hrín Guðni loks upp og segir að engin Lilja eigi nú sæti á Alþingi til að berjast fyrir íslenskunni. Þótt Lilja Alfreðsdóttir, drottning drauma gamalla Framsóknarmanna, hafi fallið af þingi er enginn hörgull af vel menntuðu og vel máli förnu fólki á þingi. Til dæmis mætti ætla að höfundur ævisögu Guðna, Sigmundur Ernir Rúnarsson, skáld og fjölmiðlamaður, sem kominn er til Alþingis að nýju, verði verðugur málsvari íslenskunnar. Sigmundur hefur sent frá sér meira en 30 bækur. Fáir hafa betri tök á tungumálinu en Sigmundur Ernir. Guðni ætti að muna það frá því þeir sköpuðu ógleymanlega sögu. Þá geislaði Guðni af húmor. Sú var tíð. Texti Sigmundar var snjall og hefur bara batnað enn frá þeim tíma. Ekkert er að óttast.

Orðið á götunni er að þótt Framsókn hafi nú misst völdin í landsmálum sé engin vá fyrir dyrum á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vatnsævintýrið fór í sama vask og bruggið – 212 milljón króna gjaldþrot

Vatnsævintýrið fór í sama vask og bruggið – 212 milljón króna gjaldþrot
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson