fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 15. janúar 2025 10:00

Ástríður, Helga Vala og Kristrún

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, furðar sig eins og fleiri á meðferð utankjörfundaratkvæða sem dúkkuðu upp í Kópavogi og í Norðausturkjördæmi, í báðum tilvikum nokkrum dögum eftir Alþingiskosningar þann 30. nóvember í fyrra. 

Segir Helga okkur einfaldlega ekki ráða við verkefnið og spyr: „Kannski er kominn tími á rafrænar kosningar á Íslandi?“

Skýrslu skilað í dag um framkvæmd kosninganna

Á mánudag skrifaði Helga Vala færslu eftir að fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar var rætt við Ástríði Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra Landskjörstjórnar sem sagði að á miðvikudag [í dag] yrði skýrslu skilað til undirbúningsnefndar Alþingis um framkvæmd kosninganna. Tvær kærur höfðu þá borist yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi vegna kosninganna.

Sama dag kom í ljós að utankjörfundaratkvæði sem bárust á bæjarskrifstofuna í Kópavogi daginn fyrir kosningar, eða föstudaginn 29. nóvember, hafi ekki skilað sér til talningar.

Segir klúðrið í Kópavogi starfsmanni Póstsins að kenna

Páll Þór Másson bæjarritari í Kópavogi, sem jafnframt er starfsmaður kjör­stjórn­ar Kópa­vogs, vísaði ábyrgð á þessu klúðri á starfsmann Póstsins, sem hefði ekki gert vart við sig sérstaklega þegar hann kom með sendinguna þennan dag á bæjarskrifstofu Kópavogs.

„Það er auðvitað alltaf alvarlegt mál ef atkvæði komast ekki til skila af ástæðum sem í rauninni er ekki hægt að rekja til einhvers sem kjósandi gerði eða gerði ekki. En í rauninni lítið hægt að gera þegar skaðinn er skeður,“ sagði Ástríður og að samkvæmt lögum væri það á ábyrgð kjósenda utankjörfunda að koma atkvæði sínu til skila. Var þar um 25 atkvæði að ræða.

Ekki sammála túlkun Landskjörstjórnar

Helga Vala segist ekki sammála þessari túlkun Landskjörstjórnar á kosningalögunum, en ákvæðin sem um ræðir eru eftirfarandi:

„63. gr. Móttaka kjörgagna við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. 

Kjörstjóri eða annar trúnaðarmaður innan lands, sbr. 69. gr., sem veitir viðtöku utankjörfundarkjörgögnum, skal undirrita og afhenda hlutaðeigandi sýslumanni drengskaparyfirlýsingu um að kosning fari fram samkvæmt fyrirmælum laga þessara.

76. gr. Utankjörfundaratkvæði komið til skila.

(1. málsgrein á ekki við, en er birt til skýringar á 2.  málsgrein) Kjósandi, sem fram að kjördegi greiðir atkvæði hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá og skilur þar eftir bréf með atkvæði sínu, skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra og er umboðsmönnum lista í umdæmi heimilt að setja á hann innsigli sín. Kjörstjóri getur ákveðið að atkvæðakassa skuli samnýta fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög innan umdæmis hans eftir því sem við á.

Aðrir kjósendur skulu sjálfir annast sendingu atkvæðisbréfs síns til þess sveitarfélags þar sem þeir eru á kjörskrá.

Fram að kjördegi er kjörstjóra þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst og greiða almennt póstburðargjald undir sendinguna. Kjósandi ber að öðru leyti sjálfur kostnað af sendingu atkvæðisbréfsins.

Fyrir alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslu er nægjanlegt að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandinn er á kjörskrá.“

Segir ábyrgðina liggja hjá Kópavogsbæ

Helga Vala segir þá kjósendur sem skráðir eru til heimilis í Kópavogi og greiddu atkvæði utan kjörfundar, en þó ekki hjá kjörstjóra í sínu umdæmi, þurfa að koma atkvæði sínu til skila. 

„Samkvæmt lögum geta þeir eingöngu komið atkvæði sínu til skila til þess sveitarfélags þar sem þeir eru á kjörskrá, það er skrifstofu Kópavogsbæjar. Það gerðu þessir íbúar Kópavogs réttilega, enda fundust atkvæðin á skrifstofu Kópavogsbæjar, sem er falið það verkefni af stjórnvöldum að taka við atkvæðum og koma þeim áleiðis. Kjósendurnir sjálfir komu atkvæðum sínum þannig sannanlega til skila á þann eina stað sem var tækur og þannig ekki á þeirra ábyrgð að koma þeim til kjördeildar. Það gátu þessir íbúar ekki því kjördeild á höfuðborgarsvæðinu í aðdraganda kosninga tekur til dæmis ekki á móti utankjörfundaratkvæðum sem greidd eru annars staðar. Þau verða að fara til sveitarfélagsins. 

Það var því á ábyrgð Kópavogsbæjar, sem falið var að taka á móti atkvæðum, að koma þeim alla leið í kjördeild og verður kjósanda ekki gert að bera slíka ábyrgð. Ég sé ekki að Landskjörstjórn sé stætt á að láta þetta bara standa svona.

Það er mjög skiljanlegt að almenningur geti ekki kosið eða komið utankjörfundaratkvæðum sínum til skila eftir lokun kjörfunda, en opinberir sýslunarmenn eiga ekki og mega ekki hafa það vald í hendi sér að koma með viðlíka trassaskap í veg fyrir að kjósendur fái sínum lýðræðislega rétti framgengt.“

Helga Vala spyr hvar við ætlum að draga mörkin og vekur einnig athygli á 130 gr. Kosningalaganna sem fjallar um galla sem leiða til ógildingar kosninga.

„Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

Minnir Helga Vala á talningaklúðrið í Borgarnesi sem hafði veruleg áhrif á niðurstöðu kosningar, þegar kom að jöfnunarþingsætum. „Þar var það þó ekki milli flokka heldur innan flokka, sem vitanlega hefur töluverð áhrif.  Núna gleymdist á þriðja tug atkvæða í umslagi á borði í Kópavogi, og eins og Þorkell Helgason, stærðfræðingur og kosningagúru sagði réttilega í kvöldfréttum þá hefur þessi fjöldi atkvæða líkast til ekki áhrif á stöðu mála í suðvesturkjördæmi en hefði haft áhrif í öðrum kjördæmum með færri kjósendum. (innskot – nú er komið í ljós að fjögur atkvæði til sjálfstæðisflokks í suðvestur gjörbreyta hvaða þingmenn eru hjá sjálfstæðis og viðreisn, sjá í ummælum). Það gengur ekki að láta það bara standa. Það gengur bara alls ekki.“

Heill kjörkassi skilaði sér ekki i Norðausturkjördæmi

Í gær var síðan greint frá því að ellefu dögum eftir kosningar hefði kassi sem innihélt utankjörfundaratkvæði borist yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi. Kassinn hafði verið sendur frá Reykjavík flugleiðis norður. Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar, sagði við Morgunblaðið að yfirkjörstjórn hafi vitað af væntanlegri sendingu en hann viti ekki hvar á leiðinni hún stöðvaðist. Enginn hafi vitað að það væru utankjörfundaratkvæði á leiðinni og innihaldið hafi komið í ljós þegar kassinn var opnaður. Gestur segist hafa lokað honum og innsiglað aftur og tilkynnt landskjörstjórn, lítið annað sé hægt að gera. Enginn virðist hafa hugmynd um hvað atkvæðin voru mörg og því ljóst að Gestur og hans fólk töldu umslögin ekki áður en kassinn var innsiglaður aftur.

Segir verkefnið okkur ofviða

Helga Vala segir að ljóst sé að við ráðum ekki við verkefnið: 

„Nei hættið nú alveg. Við virðumst ekki ráða við þetta einfalda verkefni. Í þessu tilviki er um kjörkassa að ræða, með utankjörfundaratkvæðum greidd á kjörstað, væntanlega á suðvesturhorninu en ekki utankjörfundaratkvæði sem kjósendur bera sjálfir ábyrgð á að koma til skila. Þetta þýðir að yfirkjörstjórn í norðausturkjördæmi lýsti endanlegum niðurstöðum kosninga án þess að greidd atkvæði og talin atkvæði stemmdu. Getum við fengið upplýsingar um fjölda atkvæða sem í kjörkassanum voru?

Vísa annars í færslu mína hér neðar um áhrif gleymdu atkvæðanna í Kópavogi. Vísa einnig í þetta lagaákvæði:

  1. gr. Gallar sem leiða til ógildingar kosninga.

Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Kannski er kominn tími á rafrænar kosningar á Íslandi?

„Á föstudeginum 29. nóvember sendum við tvo kassa til Akureyrar merkta yfirkjörstjórn ásamt símanúmeri. Það var hringt í yfirkjörstjórn og hún upplýst um að það væri sending frá okkur á flugvellinum. Það sem virðist hins vegar hafa gerst er að flutningsaðili afhendir einungis annan kassann til yfirkjörstjórnar,“ segir Sigríður Kristinsdóttir sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu við Vísi.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að skoða þurfi málið og „ég held að Alþingi ætti að leggjast yfir. Hvort skoða þurfi framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu og legg til að það verði gert. Þetta er afar óheppilegt. Það er auðvitað þannig að kjósendur bera ábyrgð á sínu atkvæði. Fyrirkomulag á samt að ýta undir að það atkvæði skili sér og fólk geti treyst því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni