fbpx
Þriðjudagur 14.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna

Eyjan
Mánudaginn 13. janúar 2025 06:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ýmsir andstæðingar ESB og úrtölumenn um það að við Íslendingar gerumst fullgilt ESB-aðildarríki, með fullum áhrifum og fullri setu við borðið, í stað þess að vera 80-90% aðildarríki, en án setu við borðið og án allra áhrifa eins og nú er, nota hvert tækifæri, sem gefst, til að halda því fram að ekki sé hægt að semja um eitt eða neitt, engar sér óskir af neinu tagi, ef menn – hér við Íslendingar – vilja ganga í ESB. Þar séu öll kjör og aðildarskilmálar fyrir fram niður njörvuð.

Þessi fullyrðing er alröng og flestir, sem eitthvað um málið vita, líka flestir úrtölumanna, vita það. Það vantar því heilindi í málflutning þessara manna.

Undanþágur og sérlausnir hafa meira að segja sína eigin nafngift. Þær eru kallaðar „Opting outs“.

Bezta dæmið um undanþágur og sérlausnir eru frændur okkar, Danir. Þegar Europa-Magazin birti frétt af því að Danir hefðu gengið í ESB skrifuðu þeir um samninginn: „ESB aðild Dana er eins og svissneskur ostur. Allur í götum.“

Danir fengu nánast hverju því framgengt, sem þeir vildu. Þeir vildu ekki evruna beint, heldur dulbúna, þeir vildu ekki taka þátt í varnar- eða hernaðarstarfssemi ESB þó að það hafi svo breytzt, þeir vildu ekki taka þátt í dómsmálasamvinnunni og innri öryggismálum ESB, þeir fengu því líka framgengt, að Færeyjar og Grænland væru ekki með í aðildinni o.s.frv.

Finnar og Svíar sömdu um sérlausnir fyrir þeirra landbúnað, en hann hefur síðan verið kallaður „norðurslóðalandbúnaður“ til aðgreiningar frá öðrum ESB-landbúnaði.

Malta, lítið eyríki eins og við, er þó allra bezta og sambærilegasta dæmið:

Hún fékk fjölmargar sérlausnir við inngöngu í ESB. Héldu einir yfirráðum yfir sinni fiskveiðilögsögu (25 mílur í stað 12), takmörkun á kaupum annarra ESB-íbúa á fasteignum á Malta, fóstureyðingar fengust áfram bannaðar á Möltu, Malta var skilgreind sem harðbýlt land, sem tryggði ákveðin sérréttindi, og eyjunni Gozo voru áfram tryggð þau sérstöku réttindi að hún væri „fríríki“, þar sem vöru mætti selja án virðisaukaskatts.

Hér má líka nefna, að Pólland fékk undanþágu frá því að taka upp regluverk ESB um grunn mannréttindi (EU Charter of Fundamental Rights), Svíþjóð tók sér undanþágu frá upptöku evru og Írland fékk mikið sömu sérlausnir og Danir.

Í september 2008 fór héðan svokölluð 12 manna Evrópunefnd forsætisráðuneytisins til Brussel til fundar við Olli Rehn, þá kommissar stækkunarmála, o.fl. ráðamenn. Í skýrslunni, sem gerð var um þessa för og fundahöld, segir m.a.: „Viðmælendur nefndarinnar töldu líkur á, að Ísland gæti náð fram sérlausnum í fiskveiðistjórnun. Íslendingar hafi sérþekkingu á sviðinu og geti sýnt fram á árangur við verndun fiskistofna, stjórnun veiða og sjálfbæra þróun.“

Á 38. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2009 var ítarlega fjallað um mögulega aðild Íslands að ESB og upptöku evru. Var um þetta gerð ítarleg skýrsla. Á bls. 14-15 er fjallað um „Samningsmarkmið varðandi aðildarviðræður við ESB“. Eru þar listuð upp þau 7 helztu mál sem Ísland stefndi á sérlausnir fyrir: Aðlögunartíma fyrir úrvinnsluiðnað landbúnaðarins, nýtingu vatns- og jarðhitaauðlinda, loftslagsmál, vörn íslenzks velferðarkerfis, viðurkenningu á byggðavanda, Norðurslóða-landbúnaður gildi, trygging sögulegra réttinda Íslendinga til veiða innan 200 mílna.

Skyldi Sjálfstæðisflokkurinn ekki hafa vitað, hvað hann var að fjalla um og stefna á!? Voru samningamarkið Sjálfstæðisflokksins bara loftbóla?

Einn þeirra, sem tönnlast á að nýjum aðildarríkjum standi engin sérkjör eða sérskilmálar til boða, er Hjörtur J. Guðmundsson.

Sönnunargagn Hjartar á að vera gamall leiðbeiningabæklingur ESB um aðildarsamninga. Þar setur sambandið fram sína samningsstefnu og sín samningsmarkmið. Auðvitað hafa allir aðilar, sem ganga til samninga, fastmótuð markmið, sem þeir vilja ná fram, en oftar en ekki verða þeir að taka tillit til aðstæðna, sérstöðu, sögu og vilja gagnaðila. Samþykkja málamiðlanir eins og framannefnd dæmi sanna.

ESB aðildarsamningar taka yfirleitt fjöldamörg ár, jafnvel áratugi. Samningaumleitanir milli Tyrkja og ESB hafa staðið meira eða minna í 37 ár. Hafa menn þá verið að semja um ekki neitt í áratugi!? Lítil glóra í því.

Lesandi góður, með klárum samningamönnum getum við náð fram öllu því helzta sem skiptir okkur máli í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og öðru ef/þegar við göngum endanlega til samninga um ESB-aðild, það er mat og vænting undirritaðs, og, ef þessi vænting reynist ekki rétt, og ekki tækist að tryggja okkar sérhagsmuni nægjanlega vel, þá gengjum við einfaldlega ekki inn.

Höfundur er samfélagsrýnir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir fréttir af fylgistapi Flokks fólksins stórlega ýktar því Maskína og fjölmiðlar gleymi mikilvægri staðreynd

Segir fréttir af fylgistapi Flokks fólksins stórlega ýktar því Maskína og fjölmiðlar gleymi mikilvægri staðreynd
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Katrín, Reimar og Salvör endurvekja félag frá sjötta áratugnum

Katrín, Reimar og Salvör endurvekja félag frá sjötta áratugnum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Björn ráðinn framkvæmdastjóri hjá Íþróttasambandi fatlaðra

Jón Björn ráðinn framkvæmdastjóri hjá Íþróttasambandi fatlaðra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Svandísi líta framhjá mikilvægu atriði sem átt hafi þátt í falli VG

Segir Svandísi líta framhjá mikilvægu atriði sem átt hafi þátt í falli VG