fbpx
Miðvikudagur 02.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Eyjan
Laugardaginn 11. janúar 2025 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru viðsjár í nær öllum álfum jarðarkringlunnar. Og það er ekki einasta svo að ófriðurinn dreifi sér um allar jarðir, heldur er helsta vörnin gegn hervaldi og almennum yfirgangi illa þenkjandi manna að veikjast til muna. Lýðræðið er nefnilega að linast, og að sama skapi eflist hagur auðræðisins.

Ástæðan er einkum og sér í lagi aukið vægi alhæfinga og upphrópana í samfélagi fólks. Sú þolinmæði, sem innihaldsríkt samtal krefst, er á undanhaldi. Það er ekki lengur við hæfi að hlusta, heldur gildir það eitt að komast að í umræðunni – og gaspra svo galið, að eftir stendur fyrirsögnin ein, og árangurinn er svo mældur í því hversu oft er klikkað á hana.

Að sama skapi gætir svo mikillar samskiptaþreytu að stórir hópar manna eru lýðþrota. Þeir þrífast ekki lengur í samfélagi reglufestunnar. Löghlýðni hefur ekkert gagnast þeim, og hvað þá upphækkuð stjórnmálastéttin sem segir þeim hvernig þeir skuli sitja og standa.

Í breyttum heimi er ekki lengur sjálfgefið að leita heimilda eða almennra upplýsinga, hvað þá ritrýndra fræðigreina, heldur er látið vaða á súðum í sjálfumglaðri sérvisku, með þeirri brýningu og heitstrengingu að sannleikurinn sé ekki lengur til, hafi hann þá nokkru sinni verið það.

Í þessum takti hafa samfélagsmiðlar gefist upp á að leiðrétta vitleysuna sem þar veður uppi. Á sama tíma eignast auðugasta prósent jarðar nokkra helstu og sterkustu fjölmiðla okkar daga, og banna skopmyndir þeirra, ef þeim sýnist svo. Og þeir eru þegar byrjaðir, í krafti auðæfa sinna, að aftra því að óþægilegar afhjúpanir rati á síður dagblaða og tímarita, ellegar fái pláss í fréttatímum ljósvakans. Óháð rannsóknarblaðamennska er að verða háð ritskoðun. Birtingarvaldið er billjóneranna.

„Frjálshyggjubylting nýrrar aldar, sem blasir við á ásjónu manna eins og Elon Musk, bráðum valdamesta manns í heiminum, er að verða froðufellandi uppistaða í flestum fréttatímum síðari missera og vikna.“

Ástæðan er sú árátta auðsins að stytta sér leið fram hjá fólki. Ofsagróði fárra hefur engan tíma fyrir óskir fjöldans. Og það er honum í hag að tala niður lýðréttindi og mannúð af því að hvoru tveggja þvælist fyrir möguleikum milljónanna. Fundir séu tímaeyðsla. Þeir hægi í besta falli á framvindunni. Og þjóðþing megi teljast, þegar allt kemur til alls, alger óþarfi, þó ekki sé sakir annars en að það sé ekkert til sem heiti þjóð. Og hvað þá þjóðareign.

Frjálshyggjubylting nýrrar aldar, sem blasir við á ásjónu manna eins og Elon Musk, bráðum valdamesta manns í heiminum, er að verða froðufellandi uppistaða í flestum fréttatímum síðari missera og vikna. Það er vegna þess að klikkaðasta fréttin er að verða sú eftirsóttasta. Og það hjálpar auðvitað til að lygin er ekki lengur til, ekki frekar en sannleikurinn.

Það má segja allt. Það má gera allt. Og það má eyðileggja margra áratuga mannréttindabaráttu alþýðunnar um allan heim, og langvarandi kröfu hennar um viðunandi lífskjör og velferð, með því að öskra sig hásan – og það merkilega er, að það nægir þessi dægrin, því vönduð fréttamennska sem þarf tíma til að gaumgæfa heimildir, og lýðræðislegar bollalengingar um rétt og rangt, hafa ekki undan að andæfa alhæfingagleðinni, hvað þá að leiðrétta hana. Og þess vegna dafnar upplýsingaóreiðan. Hún magnast af því að það tekur engan tíma að ljúga, en óratíma að nálgast sannleikann.

Af þessu spretta innrásir. Af þessu leiðir yfirgangur. Þess sér nú stað, svo óttalega víða, að orðljótir karlar þenja brjóstið og ætla sér að gleypa heiminn í einum munnbita. Og það sem er einna athyglisverðast á okkar tímum er að þeir eru eigendur athyglinnar.

Því fer sem fer.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Flokksgæðingar fallinna flokka maka krókinn á Grindavík

Svarthöfði skrifar: Flokksgæðingar fallinna flokka maka krókinn á Grindavík
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Nú drepa þeir tvo fyrir einn

Sigmundur Ernir skrifar: Nú drepa þeir tvo fyrir einn
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Herra langveikur

Óttar Guðmundsson skrifar: Herra langveikur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Göngugrindahlaup

Óttar Guðmundsson skrifar: Göngugrindahlaup
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?
EyjanFastir pennar
28.02.2025

Steinunn Ólína skrifar: Ayahuasca og andleg reynsla á Landspítalanum

Steinunn Ólína skrifar: Ayahuasca og andleg reynsla á Landspítalanum
EyjanFastir pennar
27.02.2025

Svarthöfði skrifar: Gamla Sovétið leggur hægrinu lið

Svarthöfði skrifar: Gamla Sovétið leggur hægrinu lið