fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Eyjan
Laugardaginn 11. janúar 2025 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir 17 mánuði. Stjórnmálaflokkarnir eru þegar farnir að gjóa augum á þessa staðreynd. Margt bendir til þess að mikil uppstokkun verði á framboðslistum flokkanna sem nú eiga fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur, Jafnvel algerar hreinsanir hjá sumum flokkanna.

Dagur B. Eggertsson víkur nú af vettvangi og munar um minna. Hann hefur verið yfirburðamaður í borgarstjórninni í bráðum tuttugu ár. Þegar hann stígur af sviðinu myndast mikið rými fyrir aðra. Ekki síst í flokki hans, Samfylkingunni. Ekki er við því að búast að núverandi borgarfulltrúar Samfylkingarinnar getið tekið við forystuhlutverki hans. Heiða Björg Hilmarsdóttir er farsæll borgarfulltrúi en orðið á götunni er að hún hafi ekki næga burði til að taka við forystuhlutverkinu. Gera verður ráð fyrir því að flokkurinn tefli fram nýjum leiðtoga þó að hér verði ekki spáð fyrir um nein nöfn í því sambandi. Ætla má að sumir af núverandi borgarfulltrúum flokksins láti staðar numið og hverfi af vettvangi. Það gæti m.a. átt við um Hjálmar Sveinsson sem á langan feril að baki í borgarstjórn.

Orðið á götunni er að hjá Sjálfstæðisflokknum hljóta að verða alger umskipti. Flokksmenn dreymir um að ljúka aldarþriðjungs eyðimerkurgöngu í borgarstjórn frá því að Davíð Oddsson hvarf af vettvangi. Flokkurinn hefur teflt fram átta einnota oddvitum flokksins frá árinu 1991 og situr enn valdalaus í minnihluta. Hildur Björnsdóttir, núverandi oddviti, er áttunda í þessari fylkingu og ekkert bendir til þess að hún fái annað tækifæri til að leiða flokkinn í næstu kosningum. Henni hefur ekki gengið betur en svo að halda borgarstjórnarflokknum saman að hann klofnaði í þrennt í stóru máli nýlega og hafa illdeilur geisað.

Í síðustu kosningum missti flokkurinn tvo borgarfulltrúa þannig að árangur Eyþórs Arnalds var betri en Hildar þótt ástæða hafi þótt til að ryðja honum til hliðar. En það hafði þveröfug áhrif. Varla er búist við því að flokkurinn vilji veðja á aðra af núverandi borgarfulltrúum sem þykja býsna seinheppnir í störfum sínum. Orðið á götunni er að það gildi jafnt um Ragnhildi Öldu, Kjartan, Björn, Mörtu og Friðjón Friðjónsson. Fáist öflugur flokksmaður til að leiða lista flokksins næst mun hann trúlega krefjast þess að alveg verði hreinsað út á framboðslista flokksins. Annars er engin von.

Gera verður ráð fyrir því að Viðreisn tefli fram nýju fólki til að leiða lista flokksins og skipa efstu sæti hans. Pavel er farinn á þing og horfinn af vettvangi og ekki hefur Þórdís Lóa sett mark mikið sitt á störf borgarstjórnar. Miðað við það fylgi sem Viðreisn fékk í nýafstöðnum þingkosningum hlýtur flokkurinn að tefla fram sigurstranglegum lista og ætla sér stórt hlutverk í borginni. Vert er að hafa í huga að Viðreisn og Samfylkingin fengu samtals um 42 prósent atkvæða í Reykjavík en Sjálfstæðisflokkurinn einungis 17 prósent. Þess vegna má ætla að núverandi ríkisstjórnarflokkar muni stefna að völdum í höfuðborginni en Flokkur fólksins fékk 11 prósent í borginni í alþingiskosningunum og því þarf mikið að ganga á til þess að ríkisstjórnarflokkarnir nái ekki meirihluta í næstu borgarstjórnarkosningum.

Framsókn er stórt spurningarmerki þegar kemur að vangaveltum um næstu kosningar. Flokkurinn fékk fjóra menn kjörna síðast og á nú borgarstjórann í fyrsta sinn í Íslandssögunni. Orðið á götunni er að Einar Þorsteinsson hafi ekki náð sér vel á strik. Hann hefur komið klaufalega fram gagnvart kennurum og lent í vandræðamálum eins og að svara fyrir byggingarmistök í Mjódd sem er óskiljanlegt klúður. Allar heimildir fóru ítrekað í gegnum nefndir borgarfulltrúa þar sem bæði fulltrúar meirihluta og minnihluta sátu. En hvað gerðu þeir til að veita aðhald og eftirlit. Ekkert og það lendir á borgarstjóra að svara og fá ónotin af málinu. Einar Þorsteinsson þarf að rétt hlut sinn og Framsóknar verulega á næstunni til að flokkur hans komi bærilega út úr kosningunum vorið 2026.

Að óbreyttu þarf ekki að búast við miklu af Pírötum og Vinstri grænum en Miðflokkurinn hlýtur að koma fulltrúum að í næstu kosningum.

Orðið á götunni er að allt bendi til algerrar uppstokkunar í borgarstjórn Reykjavíkur vorið 2026 þar sem ríkisstjórnarflokkarnir munu freista þess að taka stjórnina til sín.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar