Óhætt er að fullyrða að Bjarni Benediktsson hafi varpað inn sprengju í byrjun árs með því að tilkynna brotthvarf sitt úr stjórnmálum. Tilkynningin kom mörgum í opna skjöldu, jafnvel fólki í innsta hring Sjálfstæðisflokksins, og hófust þegar vangaveltur um hver myndi taka við keflinu sem næsti formaður flokksins.
Embættið er í meira lagi eftirsótt en arftakinn blasir ekki beint við. Margir segja að útilokað sé annað en að þingmaður Sjálfstæðisflokksins verði fyrir valinu en aðrir eru á þeirri skoðun að ferskt blóð sé við hæfi, mögulega af sveitarstjórnarstigi eða jafnvel úr fjölmiðlum.
DV tók saman helstu nöfn sem nefnd hafa verið í þessu samhengi og þá sem eru á lista veðmálafyrirtækja sem sáu sér strax leik á borði að bjóða upp á fjörugan markað um hver sé næsti leiðtogi flokksins áhrifamikla.
Mun Sjálfstæðisflokkurinn finna sína Kristrúnu Frostadóttur í komandi formannskosningum eða verður boðið upp á Loga Einarssonar-millileik?