fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?

Eyjan
Sunnudaginn 5. janúar 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Raunalegt er að fylgjast með framkomu þeirra stjórnmálamanna sem töpuðu kosningunum en komu þó fulltrúum inn á Alþingi. Eftir að þeir þurftu að horfast í augu við þá staðreynd að stjórnarandstöðuflokkunum tókst að mynda ríkisstjórn fyrir síðustu jól hefur talsmáti þeirra einkennst af svekkelsi, jafnvægisleysi og reiði. Nú blasir við þeim sjálfum að sitja í valdalausri stjórnarandstöðu næstu árin. Þá upplifun hafa þeir ekki þurft að lifa við lengi.

Orðið á götunni er að Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson hafi komið kjánalega fram á undanförnum vikum og ekki hagað sér með þeirri reisn sem gera verður kröfu til af hálfu reyndra stjórnmálamanna sem hafa gegnt embætti forsætisráðherra, þótt í skamman tíma hafi verið hjá báðum. Málflutningur þeirra hefur einkennst af hótunum, frekju, hroka, reiði og hreinlega bjánalegu stressi.

Formaður þriðja stjórnarandstöðuflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur komið fram af meiri yfirvegun og alla vega sýnt nýrri ríkisstjórn þann sóma að óska ráðherrum hennar velfarnaðar í starfi. Miðflokkurinn var reyndar einn af sigurvegurum kosninganna og stækkaði þingflokk sinn úr tveimur fulltrúum í átta. Er nema von að vel liggi á Sigmundi Davíð eftir að hafa fjórfaldað stærð þingflokksins? Hann hefði alveg verðskuldað að komast með Miðflokkinn í ríkisstjórn en það tókst samt ekki að þessu sinni.

Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi áttu ekki góðan dag í Kryddsíldinni á Stöð 2 á gamlársdag. Þeim tókst engan veginn að dylja svekkelsi sitt og fýlu. Á köflum voru þeir beinlínis dónalegir, einkum og sér í lagi við Ingu Sæland, ráðherra og formann Flokks fólksins. Hún svaraði reyndar fyrir sig fullum hálsi og sendi þeim þau skilaboð að hún myndi ekki láta eiga neitt hjá sér þegar farið verður að takast á um málefni í þinginu.

Bjarni var ekki í góðu jafnvægi og hefði mögulega átt að fara sér hægar í þær veitingar sem fram voru bornar í þættinum. Það klæðir Bjarna Benediktsson illa að vera fúll, svekktur og árásargjarn. Sigurður Ingi einkenndist af uppgjöf hins sigraða. Úr honum var allur vindur. Bjarni var hins vegar vígreifur og þeir sem telja að hann hyggist senn draga sig í hlé frá formennsku í Sjálfstæðisflokknum hafa rangt fyrir sér. Hann mun halda áfram og vonar greinilega að núverandi ríkisstjórn geri svo mörg mistök að hún verði að hrökklast frá eins og vinstri stjórn hans og Katrínar Jakobsdóttur þurfti að gera. Komi til þess ætlar Bjarni að vera tilbúinn í slaginn en svo virðist sem Sigurður Ingi hafi ekkert baráttuþrek til að láta sig dreyma, hvað þá meira. En nýja ríkisstjórnin hefur vítin fyrir framan sig til að varast – það er að segja feril fyrri ríkisstjórnar þar sem hver höndin var upp á móti annarri. Sú stjórn féll fyrir eigin hendi.

Þó að einungis séu tvær vikur liðnar frá stjórnarmyndun Kristrúnar Frostadóttur er strax farið að bera á hótunum og óvild frá Sjálfstæðisflokki og Framsókn og ekki síður hjálparkokkum þeirra. Morgunblaðið er byrjað að skrifa illskeytta leiðara og birtir útúrsnúninga í Staksteinum flesta daga. Þetta er býsna ómarkvisst því að ríkisstjórnin hefur ekki sýnt á mörg spil enn sem komið er þannig að gagnrýni byggist á innantómum getgátum. Minni spámenn eins og Viðskiptablaðið og bloggsíðan Þjóðmál reyna svo að apa óhróðurinn eftir Morgunblaðinu. Þetta mun ekki hafa neitt að segja. Morgunblaðið hefur hamast á meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur síðastliðinn áratug án árangurs. Blaðið hefur beinlínis beitt Dag B. Eggertsson einelti með stöðugum og rætnum rógi. Það hefur ekki borið annan árangur en þann að nú er Dagur orðinn alþingismaður stærsta þingflokks þjóðarinnar, Samfylkingarinnar.

Orðið á götunni er að þegar sé ljóst að helstu sægreifar landsins eru nú skjálfandi vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að auka verulega við innheimtu leigugjalds fyrir afnot sjávarútvegsins af auðlind þjóðarinnar, fiskinum í sjónum, sem þeir hafa nýtt sér lengi gegn allt of vægu gjaldi. Veiðigjöldin verða hækkuð umtalsvert á stærri útgerðir sem ráða mjög vel við það að greiða eðlilegri fjárhæðir fyrir þessi afnot.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru þegar byrjuð að ólmast með frekju og hroka. Framkvæmdastjóri samtakanna, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, er nú tekin við sem forsöngvari í grátkór útgerðarinnar en það mun litlu breyta. Það sjá allir í gegnum hagsmunapot sægreifanna og þeirra sem samtökin munu beita í viðleitni sinni til að breyta sem minnstu í gjafakvótakerfi Íslendinga sem fráfarandi stjórnarflokkar hafa staðið vörð um fyrir þá. En nú nýtur þeirra ekki lengur við. Einn flokkanna sem þjónaði þeim galt fyrir þjónkunina með lífi sínu en hinir tveir eru laskaðir eftir síðustu sjö ár af hagsmunagæslu fyrir sægreifa.

Ný ríkisstjórn undirbýr sig nú fyrir harða hríð hagsmunaaðila sem munu ólmast gegn öllum breytingum. Orðið á götunni er að mikilvægt er að stjórnin haldi sínu striki og láti ekki hræða sig með frekju, heift eða yfirgangi. Ríkisstjórnin verður strax að sýna þessum aðilum hvar valdið liggur og að það hafi orðið grundvallarbreytingar á því við stjórnarskiptin.

Þótt málpípur sægreifanna ráði ekki við sig þessa daganna er orðið á götunni það að grátur þeirra muni ekki vekja upp neina samúð meðal almennings. Fólk áttar sig á þeirri þróun sem orðið hefur á liðnum árum og bíður eftir markverðum og skjótum breytingum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra