Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstrihreyfingarinar græns framboðs og fyrrum þingmaður, ráðherra og borgarfulltrúi flokksins gerir upp árið 2024 í sögu hans í pistli sem birtist á gamlársdag. Óhætt er að segja að árið hafi reynst sannkallað „annus horribilis“ í sögu flokksins en hann datt eins og kunnugt er út af þingi í Alþingiskosningunum 30. nóvember síðastliðinn. Svandís gerir tilraun í pistlinum til að greina það sem fór úrskeiðis en í frétt Heimildarinnar er hins vegar bent á að hún hafi litið framhjá þætti sem hafi haft töluverð áhrif, sú ákvörðun að draga flokkinn út úr starfsstjórninni sem tók við völdum eftir að búið var að rjúfa þing og boða til kosninga.
Svandís rifjar upp að fylgi flokksins hafi sigið undir 5 prósent í könnunum í mars en í apríl sagði Katrín Jakobsdóttir af sér ráðherradómi, þingmennsku og formennsku í flokknum og fór í framboð til embættis forseta Íslands. Svandís segir að ofuráhersla í allri umræðu á 5 prósent mörkin, sem flokkar þurfa að ná í alþingiskosningum til að hljóta jöfunarþingsæti, hafi fælt kjósendur frá flokknum:
„Mikið var fjallað um 5% mörkin í fjölmiðlum og ítrekað vorum við reiknuð út af þingi auk þess sem röddum sem fjölluðu um taktíska kosningu og hættu á að sóa atkvæði sínu óx ásmegin.“
Svandís segir þetta þó ekki einu skýringuna en meðal þeirra sé forsetaframboð Katrínar. Flokkurinn verði að líta í eigin barm:
„Tiltekin mál höfðu haft áhrif; salan á Íslandsbanka, breytingar á útlendingalögum og undir það síðasta einfaldlega samstarfið sem slíkt. Málefnalegur ágreiningur varð tíðari, óyndið hlóðst upp og hafði í raun verið vaxandi allan tímann og sífellt sýnilegra öllum. Ytri áskoranir höfðu líka áhrif; heimsfaraldur, eldhræringar, forsetaframboð, veikindi.“
Í frétt Heimildarinnar um pistil Svandísar, sem Arnar Þór Ingólfsson skrifar, er minnt á að fleiri einstaklingar innan flokksins hafi vísað til ofuráherslu á 5 prósent mörkin, í umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, til að skýra af hverju fór sem fór. Arnar Þór bendir þó á að Svandís líti framhjá einum mikilvægum þætti í skýringum sínum á fylgishruni flokksins:
„Í þessari upptalningu á mögulegum ástæðum fyrir löku gengi Vinstri grænna nefnir Svandís hins vegar ekki það sem margir álitsgjafar hafa talað um sem veigamikla ástæðu fyrir hruni flokksins út af þingi, þá ákvörðun að taka ekki sæti í starfsstjórn fram að kosningum og hefja þannig kosningabaráttuna á því að virðast á harðahlaupum undan ábyrgð á stjórn landsins.“
Ljóst virðist að það hafi ekki verið síst að undirlagi Svandísar sem að Vinstri græn drógu sig út úr starfsstjórninni en fyrir það hlutu bæði hún og flokkurinn töluverða gagnrýni.
Ljóst er að staða Vinstri grænna er erfið. Flokkurinn fékk það lítið fylgi í kosningunum að hann á ekki rétt á styrk úr ríkissjóði. Það er þó engan bilbug að finna á Svandísi í pistlinum en hún segir að stefnt sé að því fullum fetum að flokkurinn hafi áhrif þótt vinsældirnar skorti:
„VG hefur aldrei haft það að meginmarkmiði að afla sér vinsælda heldur að taka ábyrgð og hafa áhrif – og sú hreyfing mun halda áfram að breyta samfélaginu til betri vegar með kjarki, samstöðu og framsýni.“