Á vordögum breytti Alþingi búvörulögum á þann hátt að afurðastöðvar í landbúnaði voru undanþegnar samkeppnislögum. Atvinnuveganefnd þingsins tók stjórnarfrumvarp sem átti að veita ákveðnar undanþágur til sameiningar afurðastöðva að því tilskyldu að þær væru undir stjórn bænda en nefndin breytti frumvarpinu á þann veg að stóru afurðastöðvarnar, Kaupfélag Skagfirðinga, Sláturfélag Suðurlands og Mjólkursamsalan eru líka undanþegnar samkeppnislögum.
Rök nefndarinnar voru þau að staða afurðastöðvarværi svo bágborin að hagur bæði bænda og neytenda væri ói stórfelldri hættu. Með því að undanþiggja þær með öllu samkeppnislögum myndi hagur bænda og neytenda best verða tryggður. Þessu hafa verkalýðshreyfingin, margir bændur og neytendur mótmælt harðlega, enda hefur reynslan sýnt að samkeppni er það afl sem bætir helst hag framleiðenda og neytenda. Fákeppni gagnast hins vegar helst milliliðunum; heildsölum og afurðastöðvum.
Í þessu ljósi er forvitnilegt að skoða launakjör helstu stjórnenda stóru afurðastöðvanna í landbúnaði. Með vísun í „kvótakóngana“ í sjávarútvegi er ekki úr vegi að kalla þá „milliliðakónganna“.
Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar er launahæsti milliliðakóngurinn í landbúnaði Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Laun hans á síðasta ári námu kr. 6,4 milljónum á mánuði. Hann hækkar milli ára um sex prósent, úr sex milljónum á mánuði.
Í öðru sæti er yfirmaður hans, Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, með kr. 6,1 milljón á mánuði. Hann hækkar um 20 prósent milli ára, úr 5,1 milljón á mánuði árið 2022.
Í þriðja sæti hjá milliliðakóngunum er hástökkvari ársins, Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar. Hans mánaðarlaun á síðasta ári voru 5,6 milljónir og hann hækkar um næstum 40 prósent milli ára, eða úr fjórum milljónum á mánuði árið 2022. Hækkunin nemur næstum 1,6 milljónum á mánuði, sem flestir bændur og neytendur myndu líkast til telja mjög fín mánaðarlaun.
Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, rekur svo lestina í hópi milliliðakónganna. Hann var með rúmar 4,3 milljónir á mánuði á síðasta ári, hækkar um nær 20 prósent frá árinu 2022, er mánaðarlaun hans námu um 3,6 milljónum.
Þessa dagana er Kaupfélag Skagfirðinga að ljúka kaupum á nær öllu hlutafé Kjarnafæðis-Norðlenska og samkvæmt búvörulögum Alþingis frá því í vor má Samkeppniseftirlitið ekkert skipta sér af þeim kaupum. Áhugavert verður að fylgjast með því hvort milliliðakóngarnir skammti sér áfram 20-40 prósenta kauphækkanir á þessu ári og því næsta, eða hvort góðgjörðargjörningur Alþingis í þeirra garð gerir þeim fært að gefa jafnvel í.