fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Hver verður næsti formaður Sjálfstæðisflokksins? – Flokkurinn aldrei mælst lægri

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 7. september 2024 17:30

Ýmsum nöfnum er velt upp á kaffistofum landsins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hroðalegt gengi Sjálfstæðisflokknum í könnunum, þar sem hann mælist með allt niður í 13 prósenta fylgi, hefur sett af stað umræðu um hver muni leiða flokkinn í næstu kosningabaráttu til alþingis.

Í ræðu sinni á flokksráðsfundi fyrir viku opnaði Bjarni Benediktsson formaður og forsætisráðherra á að rétta öðrum keflið. Líklegt er að hann vilji ekki taka á sig enn eitt tapið í kosningum, sem að óbreyttu yrði það langversta síðan hann tók við stjórnartaumunum í flokknum.

En hver tekur við? DV leit yfir sviðið til að reyna að finna arftaka Bjarna ákveði hann að hætta.

Ráðherrar

Nærtækast er að líta til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanns til sex ára og utanríkisráðherra. Hún hefur einnig gefið það út að hún treysti sér til formennsku og vonist til að leiða flokkinn í næstu kosningum. Ljóst er þó að hún geri það ekki nema að Bjarni hætti. Það er að hún treysti sér ekki í slag við hann um formennskuna. Þórdís gæti orðið fyrsta konan til að gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

Þórdís tilheyrir sömu sellu innan Valhallar og Bjarni og það er bæði styrkleiki hennar og veikleiki. Styrkleiki að því leiti að Bjarni myndi vilja krýna hana sem arftaka sinn og þar með hefði hún mikinn stuðning innan flokksins. Veikleiki að því leiti að hún yrði þá framhald af núverandi forystu, sem er ástæðan fyrir hinu ört minnkandi fylgi.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var áður varaformaður flokksins.

Aðrir ráðherrar koma til greina sem allir eru þó sama merki brenndir, að vera þátttakendur í óvinsælli ríkisstjórn. Meðal annars Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem gegndi varaformennsku í flokknum á undan Þórdísi. Rétt eins og Þórdís tilheyrir Áslaug sömu sellu og Bjarni en hún er þó ekki númer 2 í röðinni eins og Þórdís.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, bauð sig fram til formennsku í flokknum haustið 2022. Hlaut hann 40 prósenta fylgi á meðan Bjarni fékk 59 prósent. Á þeim tíma var staða Sjálfstæðisflokksins langtum betri í könnunum en hún er núna. Vitað er að Guðlaugur stýrir öflugu neti úr Grafarvoginum en spurningin er hins vegar hvort hann vilji beita því núna og hætta á að verða kjörinn formaður á mjög vondum tíma.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur einnig verið nefnd til sögunnar. Guðrún hefur ekki langa þingreynslu en það vinnur með henni að hafa verið formaður Samtaka iðnaðarins. Hún hefur einnig talað með mjög ákveðnum hætti í útlendingamálum sem gæti stoppað flóttann hægra meginn úr flokknum yfir til Miðflokks.

Rétt eins og Þórdís Kolbrún gæti Guðrún orðið fyrsti landsbyggðarþingmaðurinn til að leiða flokkinn í meira en 30 ár, eða síðan Þorsteinn Pálsson gerði það.

Þingmenn

Þá er vert að nefna til sögunnar ýmsa þingmenn flokksins. Þingmenn sem eru vissulega því marki brenndir að styðja við óvinsæla ríkisstjórn þó þeir sitji ekki í henni. Geta þeir samt leyft sér meiri gagnrýni á hana en ráðherrarnir.

Sá þingmaður sem er líklega á mestri uppleið í flokknum er Hildur Sverrisdóttir. Eftir að hafa dottið af þingi í kosningunum árið 2017 kom hún inn með krafti í prófkjöri árið 2021. Hefur hún vakið athygli fyrir að beita sér fyrir frjósemismálum og að deila sinni persónulegu sögu hvað það varðar. Árið 2023 var hún gerð að þingflokksformanni og þykir hafa staðið sig með prýði í því hlutverki. Er litið til hennar sem að minnsta kosti ráðherraefni í framtíðinni og jafn vel formennsku í flokknum.

Hildur Sverrisdóttir stefnir upp á við í flokknum.

Einnig mætti nefna Teit Björn Einarsson, fyrrverandi sambýlismann Hildar, sem kom með krafti inn á þingið í fyrra þegar Haraldur Benediktsson gerðist bæjarstjóri á Akranesi. Teitur Björn, sem er fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, hefur meðal annars talað mjög afdráttarlaust með hvalveiðum og þar með tekið sér stöðu gegn Vinstri grænum.

Sveitarstjórnarmenn

Fjórir fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins voru borgarstjórar Reykjavíkur. Þó að áhrif hans í Reykjavík séu löngu dvínuð þá á flokkurinn nokkra fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu sem gætu hæglega tekið við taumunum. Fólk sem er þekkt áhrifafólk í flokknum en ekki „mengað“ af ríkisstjórnarsamstarfinu.

Fyrsta nafn sem kemur upp í huga margra er Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi. Ásdís kom af vettvangi fjármálanna inn í stjórnmálin í síðustu sveitarstjórnarkosningum og hefur látið til sín taka. Hún hefur ráðist í ráðist í óvinsæl verkefni eins og niðurskurð í menningarmálum bæjarins og breytingar á dagvistunargjöldum en ávallt staðið föst sá sínu og aldrei hvikað.

Ásthildur Sturludóttir er mannasættir.

Annar Sjálfstæðismaður sem er ekki þekktur fyrir annað en að standa fast á sínu er Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. Elliði var lengi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og í bæjarstjórnarkosningunum árið 2014 fékk flokkurinn fáheyrt 73 prósenta fylgi. Hvernig allur sá ávinningur hrundi til grunna eftir mikil hjaðningavíg vinnur þó gegn honum. Engu að síður er Elliði mjög áberandi og hefur mikið persónufylgi.

Þriðja nafnið sem vert er að nefna af sveitarstjórnarstiginu er Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Ólíkt Ásdísi og Elliða er Ásthildur mannasættir. Það sýndi hún best þegar hún var ráðin sem bæjarstjóri árið 2018 þegar miðju og vinstri flokkar voru við völd í bænum. Hún hélt þeirri stöðu þegar Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur komust í meirihluta fjórum árum seinna. Ásthildur, sem áður var bæjarstjóri í Vesturbyggð, er dóttir Sturlu Böðvarssonar fyrrverandi ráðherra.

Lobbýistar

Þá kann að vera að það sé eftirspurn eftir formanni sem kemur ekki beint úr stjórnmálunum. Síðasti formaður sem það gerði var Þorsteinn Pálsson, sem hafði verið formaður Vinnuveitendasambands Íslands forvera Samtaka atvinnulífsins, áður en hann tók við stjórnartaumunum árið 1983.

Tvö nöfn úr þeim samtökum hafa verið nefnd til sögunnar sem hugsanlegir arftakar Bjarna Benediktssonar.

Annars vegar er það Halldór Benjamín Þorbergsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri SA, sem varð landsþekktur fyrir sína liðugu lokka og hörðu rimmur við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.

Hins vegar er það Sigríður Margrét Oddsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri, sem stýrði áður fyrirtækjum eins og ja.is og Lyfju. Sigríður Margrét hefur ekki verið hjá SA lengi en hún hefur strax gert sig gildandi með að ná fram góðum og átakalitlum kjarasamningum í vor.

Annað nafn úr hagsmunabaráttu fyrirtækja hefur einnig verið nefnt á kaffistofum landsins í tengslum við formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Það er Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Hagsmunir stórútgerðarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafa lengi farið saman og Heiðrún hefur barist dyggilega fyrir hinum fyrrnefndu í átta ár.

Sigríður Margrét Oddsdóttir náði fram góðum kjarasamningum með litlum átökum.

Aðrir

Jens Garðar Helgason er annað nafn sem ekki er hægt að útiloka. Jens Garðar, sem er fyrrverandi oddviti flokksins í Fjarðabyggð og fyrrverandi formaður SFS, þótti koma sterklega til greina sem framkvæmdastjóri SA í fyrra. Á undanförnum árum hefur hann stýrt laxeldisfyrirtækjum.

Síðasta nafnið sem DV sér fyrir sér í þessari yfirferð er Tómas Már Sigurðsson. Tómas Már er forstjóri HS Orku og starfaði áður hjá Alcoa á heimsvísu. Tómas Már var giftur Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, sem lést árið 2017. Tómas Már hefur ekki beitt sér í stjórnmálum á undanförnum árum en hann var áður formaður Viðskiptaráðs.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Það versta í 17 ár
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu