Þann 30. ágúst birti Hagstofan tölur um hagvöxt, sem átti að vera, en var ekki; eftir að hagvöxtur hafði verið neikvæður um 4% í 1. ársfjórðungi 2024, samdráttur, varð hann aftur neikvæður í 2. ársfjórðungi 2024, nú um 0,3%, aftur samdráttur.
Tvö samdráttarskeið í VLF í röð þykja hjá flestum, sem með efnahagsmál fara og stjórna, mjög alvarleg þróun. Ég veit ekki með Ásgeir Jónsson. Honum finnst þetta kannske bara mátulegt á landann. Hann hótaði því einu sinni að keyra okkur í svona ástand.
Eins og flestir vita er aukning í VLF, verðmætaaukning í þjóðarbúinu, forsenda fyrir aukinni velferð. Allar ríkisstjórnir og allir seðlabankar keppast því við að stuðla að hagvexti, sem mestri aukningu í VLF, og, ef samdráttarskeið verður, þó að ekki sé nema í einn ársfjórðung, svo að ekki sé talað um tvo í röð, eins og hér nú, telst það alls staðar til hins mesta ófögnuðar, alla vega í hinum upplýsta heimi.
Ásgeir, hins vegar, og ríkisstjórnin – reyndar er innan hennar lítið um menn sem vita mikið um efnahagsmál, það væri flott ef einhver gæti nefnt mér einn – virðast lítið gera með þetta. Þetta liggur bara svona milli hluta.
Ásgeir kemur mér oft fyrir sjónir, eins og skákmaður, sem lítið kann í skáklist, nema þá helzt að hrókera ef kóngi er ógnað. Hjá honum er hrókeringin stýrivaxtahækkun. Einfalt ráð og gott.
Eins og ég hef sýnt fram á í fyrri greinum eru það ekki nema um 60% af þjóðinni sem skulda, og bitnar vaxtavöndur Ásgeirs bara á þeim, enda stynja sumir skuldarar nú meira en lengi hefur verið. Hin 40%, skuldlausir eignamenn, blómstra, eru nú með sitt fé á vöxtum langt yfir raunverðbólgu og leika sér auðvitað að eyða og spreða, eins og þá listir.
Þetta ástand, takmörkuð áhrif vaxtahækkana á neyzlu og eyðslu, virðist Ásgeir ekki skilja, alla vega keyrir hann þetta áfram eins og þetta væri einhver heildarþjóðfélagslausn og það stórfellda óréttlæti, þá stórfelldu eignatilfærslu frá fjármagnsþurfandi á banka- og fjármagnseigendur sem þetta veldur, virðist ekkert mál.
Verðbólga reiknast nú 6% með húsnæðiskostnaði, 3,6% án. Fyrir mér og mörgum öðrum er síðarnefnda tala sú rétta. Húsnæðiskostnaður á ekki heima í framfærsluvísitölu, því það er enginn almennur eða algildur húsnæðiskostnaður, sem kemur við hag manna á sama hátt. Sumir hafa hagnað af húsnæðishækkunum, standa betur eftir en áður, á aðra hafa þær lítil áhrif og enn aðrir tapa á þeim.
Það undarlega í þessu máli er svo það, að þó að Ásgeir vilji nú með öllum ráðum halda húsnæðiskostnaði inni í framfærsluvísitölunni, þá mun hann hafa verið í nefnd, sem mælti gegn því 2018.
Í grein í Mogga nú í vikunni rifjar Óttar Guðjónsson, hagfræðingur, þetta upp. Lokaorð hans eru þessi:
„… að lokum er vert að minna á, að ein af tillögum starfshóps um endurmat á ramma peningastefnunnar, sem var skipaður 2017 og skilaði ítarlegri skýrslu árið eftir, var að:
„Verðbólgumarkmið Seðlabankans skal áfram miðast við 2,5%, en sú verðvísitala, sem markmiðið nær til, skal ekki (mitt feita letur) taka mið af kostnaði vegna eigin húsnæðis.“
Í þessum starfshópi var einmitt núverandi seðlabankastjóri“.
Þetta minnir mig á að í sjónvarpsviðtali vorið 2008 sagði Ásgeir að allt tal um að bankarnir stæðu illa væri „hystería“. – Nokkur óstöðugleiki í greiningu og afstöðu.
Skv. ofangreindu og skoðun undirritaðs er rétt verðbólga nú 3,6%, stýrivextir 9,25% og almennir útlánsvextir bankanna (meðaltal) 14-16%. Þetta talnasamhengi meikar fyrir engan, sem eitthvað veit eða minnstu skil kann á peninga- og efnahagsmálum, engan sens.
Það var í fréttum nýlega að stórt byggingarfyrirtæki hefði hætt við byggingu 140 íbúða í Hafnarfirði vegna hás vaxtakostnaðar. Þeim hefði boðist fé með 14% vöxtum lægst. Sá vaxtakostnaður gengi ekki upp. Þeir hefðu því ákveðið að setja þetta byggingarverkefni í biðstöðu.
Sem sagt, sem afleiðing af aðferðafræði Ásgeirs, kemur þessi staða upp: Til að lækka byggingarkostnað og þar með húsnæðiskostnað í framfærsluvísitölu þarf að byggja meira, en Seðlabanki er búinn að keyra vexti svo mikið upp, einmitt vegna hækkunar húsnæðiskostnaðar í framfærsluvísitölu, að vextir eru orðnir svo háir að byggingarverktakar treysta sér ekki til að framhalda sínum byggingarframkvæmdum. Einhver hefði kallað þetta hringavitleysu.
Hlutabréfamarkaðurinn er mikilvægur fyrir helztu fyrirtæki landsins, því þangað sækja þau hluta sinnar fjármögnunar, sem aftur gefur þeim styrk til að sækja fram; skapa atvinnu, mynda verðmæti, auka VLF.
Hávaxtastefna Ásgeirs nú síðustu misserin, hefur, hins vegar, sogað fjármagn í stórum stíl úr hlutabréfamarkaðinum – það borgar sig m.a. betur að eiga peninga á sparireikningi í banka, þar er áhættan líka engin – með þeim afleiðingum að framsóknarmöguleikar þessara helztu fyrirtækja landsins hafa stórskerzt. Þetta á auðvitað sinn þátt í hrapallegri þróun VFL og samdrætti hagkerfisins.
Vil ljúka þessum pistli með nokkrum dæmum um það hvernig verðgildi hlutabréfa þýðingarmikilla fyrirtækja landsins hefur hrunið síðustu 2 árin:
Arionbanki 180,50 (sept. 22), nú 139. Brim 98 (ágúst 22), nú 76. Eimskip 615 (ágúst 22), nú 350. Íslandsbanki 135 (sept. 22), nú 99. Icelandair 2,09 (ágúst 22), nú 0,91. Iceland Seafood 9,80 (ágúst 22), nú 5. Marel 700 (júlí 22), nú 498. Play 20,50 (ágúst 22), nú 1,77.
Auðvitað er ýmislegt annað sem spilar inn í verðgildi hlutabréfa en vextir og peningastefna. Þetta tvennt hefur þó spilað sína stóru rullu í því að rústa ísl. hlutabréfmarkaðinum.
Er þetta ekki orðið gott, Ásgeir?